Fréttasafn9. maí 2017 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Helstu áherslur í raforkumálum koma fram í raforkustefnu SI

Í raforkustefnu Samtaka iðnaðarins sem samþykkt hefur verið af stjórn SI kemur meðal annars fram að skipulag, uppbygging og þróun raforkumarkaðar hér á landi skipti sköpum fyrir iðnfyrirtæki, orkufyrirtæki og efnahagslífið í heild sinni. Tæplega fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggi á nýtingu og framleiðslu raforku. Þannig gegni orkuframleiðsla og nýting hennar lykihlutverki í efnahagsstarfseminni og sé veigamikil uppspretta verðmætasköpunar. Þar segir jafnframt að nauðsynlegt sé að rjúfa tengsl milli Landsvirkjunar og Landsnets hið fyrsta til að aðskilnaður verði milli framleiðslu- og flutningsfyrirtækja raforkunnar. Það þurfi til að tryggja heilbrigðari markað og gagnsæi á raforkumarkaði. Þá segir að Landsvirkjun hafi yfirburðastöðu á íslenskum raforkumarkaði með framleiðslu á um 70% allrar raforku í landinu á sama tíma og Landsnet hafi einokunarrétt á flutningi á raforku. Þetta sé óeðlilegt og óæskilegt. Auk þess sé Landsnet að miklu leyti fjármagnað af Landsvirkjun og séu bæði eignatengsl og fjármögnunartengsl óheppileg.

Vikið er að mikilvægi samkeppni enda sé frjáls samkeppni öflugasta tækið til að draga fram það besta og hagkvæmasta í allri atvinnustarfsemi. Sökum stærðar sinnar á markaði hafi Landsvirkjun yfirburðastöðu, bæði gagnvart stórum notendum og almennum notendum. Þegar eitt fyrirtæki á samkeppnismarkaði sé með yfir 70% markaðshlutdeild sé vandséð að ávinningur frjálsrar samkeppni náist fram að fullu. Því sé nauðsynlegt að hlutdeild Landsvirkjunar í raforkuframleiðslu minnki. Mikilvægt sé að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði en um leið að stuðla að samkeppnishæfni í alþjóðlegu samhengi.

Í stefnunni er bent á að í þróuðum ríkjum sé raforka keypt og seld í gegnum markaði sem einkennast af frjálsri verðmyndun og gagnsæi en svo sé ekki á Íslandi. Því sé nauðsynlegt að setja á fót skammtímamarkað meða raforku. Það myndi auka gagnsæi í verðmyndun á raforku og minnka hættuna á að markaðsaðilar misnoti stöðu sína enda sé skammtímamarkaður með raforku til þess fallin að auka skilvirkni og samkeppni.

Í niðurlagi stefnunnar er fjallað um mikilvægi þess að tryggja samkeppnishæfni ólíkra raforkukaupenda þar sem nýjar atvinnugreinar séu að spretta upp sem hafi aðrar orkuþarfir en hefðbundnir orkunotendur á Íslandi. Þá segir að líklegt sé að samsetning orkunotenda muni breytast á næstu árum þar sem millistórum notendum muni fjölga. Það sé mikilvægt að þeir notendur njóti þess í kjörum umfram smærri notendur.

Hér er hægt að nálgast raforkustefnu SI í heild sinni.