Fréttasafn



12. des. 2016 Almennar fréttir

Hengjum ekki bakara fyrir smið

Neytendasamtökin (NS) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa farið fram á að Matvælastofnun (MAST) veiti opinberar upplýsingar um öll helstu frávik í eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu mörg ár aftur í tímann. Krafan er til marks um þá réttlátu reiði sem ríkt hefur í samfélaginu vegna hins svokallaða Brúneggjamáls. Þar virðast framleiðendur hafa brugðist skyldum sínum gagnvart neytendum og eftirlitsaðilum. Það má líka færa rök fyrir því að ýmislegt hefði betur mátt fara hvað varðar vinnulag MAST í þessu tilfelli. Um einstætt og fordæmalaust mál er að ræða.

Við hjá Samtökum iðnaðarins erum ekki sammála því að knýja eigi MAST í að opinbera gögn um öll þau fyrirtæki sem e.t.v. hafa ekki annað frávik á samviskunni en eina ófyrirséða yfirsjón, sem hvorki stangast á við lög né ganga gegn hagsmunum neytenda. Við viljum miklu frekar vinna með MAST í að greina hvað hægt er að gera betur frekar en að vera með ásakanir.

Afleiðingarnar gætu orðið þær að samkeppnisstaða innlendra framleiðenda gæti skaðast verulega gagnvart innfluttum matvælum. Það hefur ekki komið fram krafa frá NS né SVÞ um sambærilega upplýsingaskyldu á erlenda framleiðendur. Neytendur mundi þannig skorta upplýsingar um hugsanlega annmarka á innfluttri matvælaframleiðslu.  

Það sem er jákvætt við hið neikvæða Brúneggjamál er að mikil vakning hefur orðið í neytendamálum og er það vel. En herferð gegn innlendri matvælaframleiðslu er þó ekki svarið. Þá fyrst hefði skussinn sigrað ef allt það góða starf sem hér er unnið daglega við matvælaframleiðslu yrði tortryggt. Það hefur ekki þótt gefast vel að hengja bakara fyrir smið.

Innlend matvælaframleiðsla er einn af hornsteinum þessa samfélags. Langflesta daga höfum við ástæðu til að fyllast stolti, ýmist sem framleiðendur eða neytendur. Ef sá á fræjum tortryggni í hvert skipti sem innlend vara kemur til umræðu verður ansi þungt að verja íslenskan matvælaiðnað sem glímir þó fyrir við ýmsar áskoranir. Með því er ekki sagt að aldrei megi gera betur. Það er alltaf hægt að gera betur.

Brúneggjamálið gefur okkur tækifæri til að velta við hverjum steini. Í því felast tækifæri fyrir framleiðendur að bæta vandaða innlenda vöru enn frekar og tækifæri fyrir eftirlitsaðila til að skoða verkferla sína og gera enn betur. Samtök iðnaðarins eru reiðubúin í umræðu um þessi brýnu hagsmunamál fyrirtækja í matvælaiðnaði svo hægt verði að finna lausnir atvinnulífinu öllu til hagsbóta og neytendum til góðs. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.

Morgunblaðið, 10. desember 2016.