Fréttasafn



16. jún. 2022 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Hið opinbera stígi varlega til jarðar á raforkumarkaði

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Viðskiptablaðinu þar sem fjallað er um orkuskipti og samkeppni á raforkumarkaði en í blaðinu kemur fram að sífellt fleiri kvartanir berist til Samkeppniseftirlitsins á raforkumarkaði og hafi rannsókn á meintum brotum Orku náttúrunnar staðið yfir síðan 2020. Sigurður segir að hið opinbera verði að stíga varlega til jarðar vegna þeirrar yfirburðastöðu sem það hefur á raforkumarkaði. „Við sjáum það að einkaaðilum er því miður ekki alltaf gefið það rými sem þarf sem kemur í veg fyrir heilbrigða samkeppni á markaði og getur líka komið í veg fyrir að bestu lausnirnar verði innleiddar og nýttar á sem skilvirkastan hátt.“

Sigurður segir í Viðskiptablaðinu að staðan á raforkumarkaði sé viðkvæm enda séu þar aðilar eins og Landsvirkjun sem beri höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki á markaðnum. „Samkeppniseftirlitið hefur gert greiningar á flest öllum stórum mörkuðum sem lúta að neytendum í gegnum tíðina, hins vegar hefur aldrei verið gerð slík greining á raforkumarkaði á þeim hluta sem snýr að samkeppnismarkaði.“

Stjórnvöld leggi línurnar í gegnum orðræðu, löggjöf eða ákvarðanir

Í Viðskiptablaðinu segir að þó að Samkeppniseftirlitið eigi að koma í veg fyrir markaðshindranir bendi Sigurður á að stjórnvöld þurfi að leggja línurnar, hvort sem það er í gegnum orðræðu, löggjöf eða ákvarðanir. Viðfangsefni okkar tíma sé að innleiða nýja tækni sem dragi úr losun og þar geti stjórnvöld staðið sig betur. „Það er ekki nóg að finna nýja tækni til að draga úr losun, það þarf líka að finna hvatana svo hún verði innleidd á sem skjótastan hátt.“

Aukinni orkuframleiðslu forgangsraðað í þágu ákveðinna atvinnugreina umfram aðrar?

Þá segir Sigurður í Viðskiptablaðinu varðandi umræðuna um að aukin orkuframleiðsla rati í orkuskipti  að sú umræða sé flókin og bendir á að íslenskur iðnaður sé í rauninni eina útflutningsgreinin sem noti hreina orku, en bæði ferðaþjónusta og sjávarútvegur noti mikla orku í formi olíu. Flugvélar og rútur í tilviki ferðaþjónustunnar en olíuknúin skip í tilviki sjávarútvegs. „Það að ætla forgangsraða orku í þágu orkuskipta, eins og talað hefur verið um, er auðvitað mjög stórt skref. Ef það verður stefnan, yrði það skýr atvinnustefna af hálfu stjórnvalda um að forgangsraða orku í þágu ferðaþjónustu og sjávarútvegs og þá mögulega á kostnað iðnaðar. Það er vinkill í umræðuna sem minna hefur farið fyrir.“

Viðskiptablaðið, 16. júní 2022.

vb.is, 19. júní 2022.