Fréttasafn



1. nóv. 2021 Almennar fréttir

Hjaltalín ∞ hlaut Hönnunarverðlaun Íslands

Hönnunarverðlaun Íslands 2021 hlaut plötuumslag Hjaltalín ∞. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti viðurkenninguna til Sigurðar Oddssonar, hönnuðar, og Matthíasar Rúnars Sigurðssonar, myndhöggvara. Gabríel Benedikt Bachmann, þrívíddarhönnuður, vann einnig  að gerð plötuumslagsins. 

Í orðum dómnefndar kemur fram að um sé að ræða tímalaust tímamótaverk í myndrænni og þrívíðri nálgun. Í hönnun fjórðu breiðskífu hljómsveitarinnar Hjaltalín veltir Sigurður Oddsson, grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi verksins, upp hugmyndum um varanleika og hlutgervingu tónlistar í samtali og samvinnu við myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann. „Ferlið við tónsmíðar og plötuútgáfu er hugræn meðganga, hugarfóstur tónlistarfólks sem í ferlinu tekur á sig mynd, vex og dafnar. Útgáfa plötunnar er svo fæðingin, tímamót og afurðin endanleg. Óhagganleg og eilíf, meitluð í stein. Í meðförum teymisins er hljóðheimur sköpunar hlutgerður sem úlfabarn, höggmynd úr basalti sem er jafnframt teiknuð og vistuð í þrívíðu stafrænu formi til þess að hámarka endingartíma og auðvelda birtingarmynd þess á ólíkum miðlum. Úlfabarninu er ætlaður endanlegur hvílustaður hjá Úlfarsfelli, sem þrívíður minnisvarði um tilvist útgáfunnar, sem nær langt umfram þá sem tíðkast hefur í plötuútgáfu til þessa. Myndræn framsetning er óaðfinnanleg. Samspil ljóss og skugga skapar einstaka kyrrð og hlýju. Stund frosin í tíma. Leturval er vel við hæfi og táknróf plötunnar vísar smekklega í gyllta plötu Voyager geimfarsins sem er flöskuskeyti mannkyns út fyrir okkar sólkerfi. Það er mat dómnefndar Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021 að hönnun plötuumslags og heildarútfærsla „∞“ sé einstaklega sterkt heildrænt verk og metnaðarfullur minnisvarði um samspil tónlistar og hönnunar til framtíðar.“

Í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021 sátu María Kristín Jónsdóttir/Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn, Hönnunarsafn Íslands, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ, Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A, Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI, Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi, MH&A, og Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður, og framkvæmdastjóri Edelkoort Inc., MH&A.

Aðrar tilnefningar voru fatalína fatahönnuðarins Magneu Einarsdóttur, MAGNEA - made in reykjavík, söluhús við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta, Konur sem kjósa eftir Snæfríði Þorsteins, Hildigunni Gunnarsdóttur og Agnar Frey Stefánsson og hönnunarverkefnið Þykjó eftir hönnuðina Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Ninnu Þórarinsdóttur, Sigurbjörgu Stefánsdóttir og Erlu Ólafsdóttur. 

Að verðlaununum standa Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Myndir/Aldís Pálsdóttir.

20x30cm-HVI_W8A9122

20x30cm-HVI_W8A9314_1635781885536

20x30cm-HVI_W8A9316Í fyrsta sinn á Hönnunarverðlaunum Íslands hlaut verkefni sérstakt hrós dómnefndar en það var Við erum öll almannavarnir - en Embætti landlæknis, Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og Hvíta húsið veittu viðurkenningunni viðtöku. 

20x30cm-HVI_W8A9327_1635782279534

20x30cm-HVI_W8A9344_1635782303558

20x30cm-HVI_W8A9352_1635782328313

20x30cm-HVI_W8A9304_1635782349238

20x30cm-HVI_W8A9427Guðrún Sóley stýrði afhendingunni.

20x30cm-HVI_W8A9434María Kristín Jónsdóttir, formaður dómnefndar.

Myndir/Aldís Pálsdóttir.

Hér er hægt að nálgast myndband um Hönnunarverðlaun Íslands:

https://vimeo.com/640398294

Heiðursverðlaun

20x30cm-Gunnar_W8A8792

Gunnar Magnússon, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt, hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti viðurkenninguna til afkomenda Gunnars þar sem hann átti ekki heimangengt. 

Í orðum dómnefndar kemur fram að höfundareinkenni Gunnars séu fögur form og næmni fyrir efnisnotkun í bland við notagildi og vandaða smíð. Snilldarlausnir sem byggi á einfaldleika og virðingu fyrir efninu. Verk Gunnars séu auðþekkjanleg – geometrísk form séu áberandi og gleði og leikur skíni gjarnan í gegn. Tímalaus hönnun eins og sannast meðal annars á því að ungt íslenskt hönnunarfyrirtæki, Fólk, sé um þessar mundir að hefja endurframleiðslu á völdum verkum hans. „Gunnar er fæddur á Ólafsfirði árið 1933. Hann lauk sveinsprófi frá trésmiðjunni Víði árið 1956 þar sem hann lærði hjá Guðmundi blinda og kynntist fjölbreyttri framleiðslu húsgagna. Samtímis sótti hann tíma í Iðnskólanum í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskólanum, þar sem hann naut leiðsagnar Sveins Kjarval í undirstöðu í húsgagnateiknun. Í kjölfarið starfaði Gunnar um tíma hjá hinum þekkta húsgagnaframleiðanda Fritz Hansen áður en hann hóf nám í húsgagna- og innanhússhönnun við Kunsthandværkerskolen árið 1959. Strax á námsárum sínum vann Gunnar til ýmissa verðlauna og hönnun hans fór í framleiðslu hjá fyrirtækjum á borð við Sören Holm og Christensen & Larsen. Að námi loknu starfaði Gunnar um skeið með Börge Mogensen, sem var sá danski meistari sem hann hafði hvað mestar mætur á, áður en hann flutti aftur heim til Íslands árið 1963.

Fyrsta árið eftir heimkomu starfaði Gunnar hjá Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt en stofnaði síðan sína eigin stofu sem hann rak til ársins 2002. Gunnar bjó í Danmörku á miklu blómaskeiði danskrar hönnunar og kom til baka með innsýn og reynslu sem hann miðlaði til nemenda sinna í Iðnskólanum í Reykjavík. Þar kenndi hann húsgagna-, innanhúss- og húsateikningu og rúm-, flatar- og fríhendisteikningu í yfir þrjátíu ár, samhliða afkastamiklum ferli sínum sem húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt. Gunnar hafði þannig mótandi áhrif á kynslóðir smiða, bólstrara, hönnuða og arkitekta.

Yfir fjörutíu ára starfsferill Gunnars spannar afar fjölbreytt verk að umfangi og skala. Má þar nefna skákborðið fyrir „einvígi aldarinnar“ þegar Fischer og Spassky mættust árið 1972, hönnun innréttinga í skip og flugvélar, hönnun húsgagna fyrir framleiðslufyrirtækin Skeifuna og Kristján Siggeirsson auk margs konar samstarfs við fjölda húsgagnaverkstæða sem nutu góðs af þekkingu hans í smíði og framleiðslu auk afburða hæfileika sem hönnuðar.

Gunnar lagði ávallt áherslu á að skapa hentugt andrúmsloft fyrir hvert rými, hvort sem um var að ræða eldhús, banka eða skólastofnun en hann hannaði húsgögn og innréttingar fyrir fjölda heimila, fyrirtækja og stofnana – til dæmis innréttingar og húsgögn fyrir Hótel Holt, Verslunarbankann og Kennaraskóla Íslands. Með tilkomu nýrra lífs- og viðskiptahátta hafa margar þessara innréttinga orðið frá að hverfa á meðan aðrar lifa enn góðu lífi í höndum aðila sem kunna að meta sígilda og vandaða hönnun.

Í gegnum árin hefur Gunnar tekið þátt í fjölda sýninga og unnið til alþjóðlegra verðlauna. Um leið og verk hans endurspegla tíðarandann í norrænni hönnun á seinni hluta síðustu aldar eru höfundareinkenni Gunnars auðþekkjanleg og skapa verkum hans sérstöðu sem glæsilegir fulltrúar blómlegs tímabils í íslenskri húsgagnahönnun.“

20x30cm-HVI_W8A9525Afkomendur Gunnars Magnússonar, tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd föður síns. 

Hér er hægt að nálgast myndband um heiðursviðurkenninguna:

https://vimeo.com/640391523

Myndir

Myndir/Áldís Pálsdóttir.

20x30cm-HVI_W8A8873

20x30cm-HVI_W8A8929

20x30cm-HVI_W8A8942

20x30cm-HVI_W8A8961

20x30cm-HVI_W8A8914

20x30cm-HVI_W8A8945

20x30cm-HVI_W8A8952