Fréttasafn28. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Hlutdeildarlánin eru framboðshvetjandi úrræði

Sighvatur Bjarnason, blaðamaður, ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í ViðskiptaMogganum um möguleg áhrif hlutdeildaralána á byggingaiðnaðinn en lög um lánin taka gildi um mánaðarmótin. „Ég hef áhyggjur af því að í stærsta sveitarfélaginu verði lítið um íbúðir af þessu tagi. Þetta mál hefur farið frekar hljótt en ég man ekki eftir úrræði á húsnæðismarkaði sem er jafn framboðshvetjandi.“ 

Sigurður segir að þarna sé kominn hvati til að byggja nýtt og hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem vöntun sé á og telur að ákveðinn markaðsbrestur hafi átt sér stað þar sem ekki var byggt í takt við þarfir kaupenda. Ákall hafi verið eftir hagkvæmum íbúðum en „áherslan hafi verið á dýrari íbúðir miðsvæðis“. Þess vegna sé hið nýja kerfi mjög gagnlegt til að koma af stað ákveðinni leiðréttingu á þessum markaði. 

Í fréttinni er haft eftir Sigurði að kerfið sé líka hagstjórnartæki og það sé hægt að minnka umsvif þess í þenslu og gefa í þegar samdráttur ríkir. Þannig geti það virkað sem sveiflujafnari á hagkerfið. Hann segir að sveiflur verði almennt meiri í byggingariðnaði en öðrum geirum, sem geti verið býsna kostnaðarsamt. Því sé mjög eftirsóknarvert að geta dregið úr þeim og aukið stöðugleika á þessum markaði. 

Leiðir til aukins framboðs á hagstæðu húsnæði

Í fréttinni kemur fram að samkvæmt þeim drögum að reglugerð sem liggi fyrir sé gert ráð fyrir að þær íbúðir sem rúmist innan kerfisins séu af ákveðinni gerð t.d. hvað varðar stærð, herbergisfjölda og söluverð. Þegar Sigurður er spurður um áhuga félagsmanna segist hann hafa orðið var við áhuga og þeir fylgist vel með framvindu málsins og séu farnir að „máta sig inn í þetta kerfi“. 

Sigurður segist eiga von á því að þetta muni leiða til aukins framboðs á hagstæðu húsnæði eins og að er stefnt og íbúðir verði byggðar innan þessa nýja ramma. Um áhyggjur þess efnis að ramminn verði of þröngur, t.d. hvað varðar söluverð og áhrif mögulegrar hækkunar á byggingarverði, segist Sigurður ekki hafa orðið var við sérstakar áhyggjur þar að lútandi. Vissulega þurfi að endurskoða forsendurnar reglulega eftir því sem tímar líða en eins og þetta líti út og hefur verið kynnt sé ekki ástæða til annars en að telja þetta „fyllilega raunhæft“. 

Reynir á sveitarfélögin að skaffa lóðir 

Í fréttinni vísar blaðamaður til verkta sem hafi bent á að lóðaskortur og hækkandi lóðaverð sé orðinn vaxandi vandi. Um þann þátt segir Sigurður við blaðamanninn að nú reyni ekki bara á byggingariðnaðinn að framleiða íbúðir, heldur líka á sveitarfélögin að gera það sem að þeim snýr, þ.e. skaffa lóðir, skipuleggja og tryggja leyfisveitingar. Vilji þau taka þátt í þessari nýju tegund af hagkvæmri uppbyggingu verði þau að spila með og bjóða fram ný byggingarsvæði. „Því verður ekki náð fram á þéttingarreitum, þannig er hinn kaldi veruleiki,“ segir Sigurður um hvaða hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað. 

60 af 66 íbúðum í Reykjavík á vegum óhagnaðardrifinna félaga

Niðurstöður úr nýjustu íbúðatalningu segir Sigurður að gefi til kynna samdrátt á nýbyggingum og fá ný verkefni séu í farvatninu. Hvað varðar íbúðir á síðari stigum bendir hann á að 66 íbúðir hafi verið taldar í Reykjavík og af þeim séu 60 á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Af því megi ráða að almenni markaðurinn hafi ekki farið af stað með verkefni í Reykjavík upp á síðkastið og „það sýni svart á hvítu hvernig staðan sé núna í þessu sveitarfélagi. Það kæmi mér ekki á óvart að sveitarfélög úti á landi yrðu viljugri að stuðla að slíkri uppbyggingu hjá sér.“ 

Tryggja að ekki verði skortur á íbúðarhúsnæði eftir nokkur ár

Í niðurlagi fréttarinnar kemur fram að Sigurður telur líklegt að tilkoma hlutdeildarlána muni að einhverju leyti leiða til samkeppni milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í stærra samhengi segir hann í fréttinni að þetta úrræði sé einmitt það sem þurfi við núverandi aðstæður, þ.e. að reyna að tryggja að ekki verði skortur á íbúðarhúsnæði eftir nokkur ár því sagan hafi kennt okkur hvert það leiði; til hækkunar fasteignaverðs; ólgu á vinnumarkaði og óraunhæfrar kjarasamningsgerðar.  

Morgunblaðið, 28. október 2020.

VidskiptaMoggi-28-10-2020