Fréttasafn17. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður getur orðið helsta útflutningsstoðin

Hér fyrir neðan er ávarp Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á rafrænum viðburði þar sem nýtt myndband Samtaka iðnaðarins, Gerum Ísland að nýsköpunarlandi, var frumsýnt að viðstöddum forseti Íslands:

Fyrir hönd Samtaka iðnaðarins vona ég að ykkur hafi líkað myndbandið en skilaboðin eru meitluð og skýr. Með því að hvetja til nýsköpunar og skapa góð skilyrði getur hugverkaiðnaður orðið okkar helsta útflutningsstoð, skapað eftirsótt störf og mikil verðmæti. Þannig er nýsköpun eina leiðin fram á við. Fjölmargir félagsmenn komu að gerð myndbandsins og þakka ég þeim fyrir sitt framlag. Þessi skilaboð bera með sér von um betri tíma og eiga sannarlega erindi við landsmenn alla.

Með ári nýsköpunar vildu Samtök iðnaðarins stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi nýsköpunar, vekja máls á því að nýsköpun ætti sér stað alls staðar, í öllum greinum, rótgrónum iðnaði og sprotafyrirtækjum og síðast en ekki síst að hvetja til frekari umbóta á umgjörð nýsköpunar á Íslandi.

Kólnun hagkerfisins var staðreynd áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á af fullum þunga á fyrstu mánuðum ársins. Þeirri spurningu var ósvarað hvað myndi drífa hagvöxtinn á næstu árum og áratugum. Svar Samtaka iðnaðarins við þeirri spurningu er skýrt. Hugverkaiðnaður – fjórða stoðin – verður aflvaki vaxtar ef rétt er á málum haldið. Á sama tíma þarf að hlúa að öðrum greinum og skapa þeim samkeppnishæf skilyrði.

Helstu útflutningsgreinar Íslands byggja á nýtingu náttúruauðlinda en hugvit er óþrjótandi og án landamæra. Það felur í sér í senn að okkar helsta tækifæri til vaxtar liggur í virkjun hugvitsins en um leið að umgjörð nýsköpunar á að vera með því besta sem þekkist svo Ísland sé eftirsóttur staður til búsetu og starfa.

Samtök iðnaðarins hvetja til frekari nýsköpunar hér á landi enda getur nýsköpun skapað fyrirtækjum forskot í samkeppni, skapað verðmæti og eftirsótt störf svo ekki sé minnst á að með nýsköpun leysum við helstu áskoranir framtíðarinnar um leið og við styrkjum samkeppnishæfnina

Ár nýsköpunar hófst formlega 20. janúar með viðburði í höfuðstöðvum Völku. Við höfum staðið fyrir fjölmörgum öðrum viðburðum á árinu þar sem nýsköpun í allri sinni fjölbreytni hefur verið gerð skil og eftirtektarverður árangur hefur verið verðlaunaður.

Í júní kom út glæsilegt tímarit um nýsköpun þar sem fjölmargir frumkvöðlar segja frá sínum viðfangsefnum, árangri og áskorunum. Tímaritið hefur farið víða og hlotið verðskuldaða athygli.

Iðnþing var að þessu sinni helgað nýsköpun og atvinnuuppbyggingu framtíðar. Í tengslum við Iðnþing var fjallað um hugverkaiðnað og ljósi varpað á tækifærin við uppbyggingu hans. Í kjölfarið birtu samtökin greiningu þar sem hugverkaiðnaður var nánar skilgreindur. Þar kemur fram að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar munu nema 140 milljörðum króna í ár eða um 15%. Það sýnir að fjórða stoðin er raunveruleg og því rétt að tala um fjórar stoðir útflutnings auk annars, en ekki bara þrjár.

Þá vil ég nefna þær gríðarlegu umbætur á umgjörð nýsköpunar sem urðu á árinu. Endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar hafa stóraukist, framlög í Tækniþróunarsjóð hafa aukist um milljarða, ráðherra hefur stofnað Kríu sem fjárfesta mun í sprotafyrirtækjum og hvatt hefur verið til fjárfestinga að öðru leyti í sprotafyrirtækjum. Samtök iðnaðarins ásamt Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafa staðið fyrir verkefninu Work in Iceland sem miðar að því að laða erlenda sérfræðinga til Íslands meðal annars með samnefndri vefsíðu þar sem finna má allar helstu upplýsingar á einum stað. Tek ég undir hrós formanns SI til ríkisstjórnar og alþingis fyrir að veita þessum, og tengdum málum brautargengi á árinu.

Starfsmenn SI eiga þakkir skilið fyrir sitt framlag til verkefnisins. Langar mig sérstaklega að nefna Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs, Margréti Kristínu Sigurðardóttur, almannatengsla- og samskiptastjóra SI og Ingólf Bender, aðalhagfræðingi SI fyrir sín góðu störf í þágu verkefnisins. Allir starfsmenn auk stjórnar SI og fjölmargra félagsmanna hafa með einum eða öðrum hætti komið að verkefninu og eiga einnig þakkir skildar.

Forseti Íslands og frú Eliza Reid hafa tekið þátt í viðburðum ársins og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir, ekki síst fyrir að vera með okkur hér í dag.

Þó ári nýsköpunar ljúki hér með formlega þá er verkefnið rétt að byrja. Áratugur nýsköpunar er hafinn. Með umbótum er jarðvegurinn frjósamur og með hugviti frumkvöðla og annarra hefur fræjum verið sáð. Tími uppskeru er framundan ef rétt er á málum haldið.

Si_streymisfundur_16122020_sigurdur-1Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Hér er hægt að nálgast myndbandið:

https://vimeo.com/491678237