Hugverkaiðnaður sú atvinnugrein sem er í mestri sókn
Hugverkaiðnaður er sú atvinnugrein sem er í mestri sókn hér á landi. Stórkostlegar framfarir hafa orðið á fáum árum innan geirans og vöxtur hennar verið stöðugur. Þetta segir Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri lyfjafyrirtækisins Coripharma og varaformaður SI, í grein á Vísi með yfirskriftinni Við erum rétt að byrja! Hún segir að fyrir tilstilli ríkisstjórna með framtíðarsýn hafi hér verið hlúð að umhverfi nýsköpunarfyrirtækja þannig að eftir því sé tekið. Ef allt gangi eftir muni greinin skapa um 320 milljarða í útflutningstekjur á árinu og hafi hún þá tvöfaldast á aðeins fimm árum. Aukin umsvif skapi skilyrði fyrir enn betri lífskjör á Íslandi.
Jónína segir að tækifæri í nýjum útflutningsiðnaði hafi skapað verðmæt og eftirsóknarverð störf, en starfsfólk í tækni- og hugverkagreinum hér á landi telji nú hátt í 18.000. Þessi störf séu að öllu jöfnu hálaunastörf þar sem framleiðni, þ.e. sköpuð verðmæti á hverja vinnustund, sé talsvert meiri en almennt gengur og gerist í efnahagslífi þjóðarinnar.
Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar mikilvægasti liðurinn
Þá segir Jónína í greininni að mikilvægasti liðurinn í því að sækja fram á sviði hugverkaiðnaðar séu skattahvatar vegna rannsókna og þróunar. Þannig styðji ríkið við og stuðli að áframhaldandi vexti útflutningstekna til framtíðar á sviði nýsköpunar, hugverka og tækni. Jákvæðir hvatar og hófleg skattheimta séu undirstöður fyrir þá miklu fjárfestingu sem hafi átt sér stað í vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Hún segir að auðvelt sé að auka tekjur ríkissjóðs með rauðum pennastrikum og hærri sköttum á grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, þar sem fjórða stoð hugverkaiðnaðar sé sú sem hraðast vaxi. „Ég kalla hins vegar eftir stjórnmálamönnum sem hafa langtíma framtíðarsýn fyrir Ísland; eru til í að leggjast á árarnar til að berjast fyrir samkeppnishæfu umhverfi innlendra fyrirtækja í kvikum heimi þar sem samkeppnin er þvert á landamæri.“
Þarf að skapa stöðugleika og fyrirsjáanleika
Jafnframt segir Jónína að tækifærin til að efla efnahag Íslands felist í því að einfalt sé fyrir hugmyndaríka frumkvöðla að setja á fót fyrirtæki og að regluverk sé einfalt og gott og eftirlit skilvirkt – að það laði að innlenda og erlenda fjárfestingu frekar en að leggja stein í götu hennar. Hún segir að nýsköpunarumhverfið á Íslandi sé gott en það þurfi að skapa hér stöðugleika og fyrirsjáanleika svo hægt sé að þróa lausnir til framtíðar og sækja tækifærin. „Um þetta allt mun ég hugsa þegar ég stíg inn í kjörklefann þann 30. nóvember næstkomandi og vonandi landsmenn allir. Því við í hugverkaiðnaði erum bara rétt að byrja – til hagsbóta fyrir okkur öll.“
Vísir, 21. nóvember 2024.