Fréttasafn



20. maí 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður verði burðarstoð í verðmætasköpun

Fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur myndast. Hugverkaiðnaður skapaði tæp 16% af útflutningstekjum árið 2020 sem þýddi meðal annars að afgangur var af þjónustuviðskiptum í fyrra þrátt fyrir hrun einnar stærstu útflutningsgreinarinnar, ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður, sem að miklu leyti er drifinn áfram af fjárfestingu í nýsköpun, hefur alla burði til að stækka frekar á komandi árum og verða burðarstoð í verðmætasköpun hér á landi. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar. 

Hún segir að hins vegar sé alþjóðleg samkeppni um hugvit og þekkingu hörð. „Ef Íslandi á að farnast vel í þeirri samkeppni þarf stöðugt að huga að samkeppnishæfni landsins, meðal annars með tilliti til þeirra skilyrða sem atvinnulífið býr við þegar kemur að fjárfestingu í nýsköpun. Þriðji áratugur þessarar aldar getur hæglega orðið áratugur nýsköpunar og hugverkaiðnaðar ef réttar ákvarðanir eru teknar núna en það má engan tíma missa. Þetta er stærsta efnahagsmálið og það öflugasta sem við getum gert til að rétta efnahag landsins við eftir heimsfaraldurinn.“

Tími uppskeru framundan

Í grein Sigríðar kemur fram að undanfarin ár hafi verið stigin stór skref í að efla hvata og skilyrði til nýsköpunar þannig að sáð hafi verið í frjóan jarðveg og tími uppskeru gæti verið framundan. Afrakstur þess sé nú þegar farinn að líta dagsins ljós, en vöxtur hugverkaiðnaðar og aukin fjárfesting í rannsóknum og þróun á síðustu tveimur árum beri þess merki. Hún segir að vísbendingar séu um að fjárfestingar í nýsköpun hafi aukist talsvert árið 2020 en með því séu fyrirtæki landsins og fjárfestar að fjárfesta í hagvexti framtíðar og styrkja hugverkaiðnað, fjórðu stoð útflutnings, enn frekar í sessi. Mörg ríki heims hafi sett sér markmið í þessum efnum og sé þar gjarnan horft til fjárfestinga í rannsóknum og þróun (R&Þ) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, enda sé það skýr mælikvarði á stig nýsköpunar í hagkerfinu. 

Fjárfestingar í R&Þ 71 milljarður króna

Sigríður segir að veruleg aukning hafi verið á fjárfestingum í R&Þ á árinu 2019 samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofunnar. Samtals námu fjárfestingar í R&Þ tæplega 71 milljarði króna sem var 2,35% af landsframleiðslu og hafi ekki mælst hærra. Þar af var um 70% frá fyrirtækjum, eða tæpir 49 milljarðar og ríflega 30% frá háskólum og opinberum stofnunum, eða um 22 milljarðar króna. Árið áður námu fjárfestingar í R&Þ tæplega 57 milljörðum króna eða 2% af landsframleiðslu. Margt bendi til að árið 2020 hafi fjárfestingin verið enn meiri.

Í greininni fer Sigríður enn fremur yfir breytingar sem hafa verið gerðar á nýsköpunarumhverfinu, stuðningskerfi við nýsköpun á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda. Hún segir að stjórnvöld eigi hrós skilið fyrir aðgerðir til að örva nýsköpun á þessu kjörtímabili en að meira þurfi að koma til. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísbending, 18. tbl., maí 2021

Visbending-mai-2021