Fréttasafn17. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaðurinn hefur ótakmarkaða vaxtarmöguleika

Hér fyrir neðan er ávarp Árna Sigurjónssonar, formanns SI, á rafrænum viðburði þar sem nýtt myndband Samtaka iðnaðarins, Gerum Ísland að nýsköpunarlandi, var frumsýnt að viðstöddum forseti Íslands: 

Árið 2020, sem nú er senn á enda, verður lengi í minnum haft.

Án þess að geta slegið því föstu hér og nú, ætla ég að giska á að þess verði helst minnst í sögubókunum fyrir baráttu mannkyns við skæðan heimsfaraldur, þann versta í meira en öld. Sömuleiðis verður þess minnst fyrir upphaf dýpstu efnahags­kreppu síðari tíma sem beina afleiðingu af heimsfaraldrinum. Rétt eins og við Íslendingar minnumst ársins 1918 helst fyrir spænsku veikina, Kötlugos og frostaveturinn mikla. En við megum ekki gleyma að í svartnætti og á erfiðum tímum eiga góðir hlutir sér einnig stað.

Stórir sem smáir.

Síðla árs 1918 lauk fyrri heimstyrjöldinni og skömmu síðar varð Ísland frjálst og fullvalda ríki með sambandslagasáttmála við Danmerkur. Sannarlega bjartar stundir á erfiðu ári. Enn eigum við eftir að fá úr því skorið, í tímans rás, hvaða björtu punkta við tökum með okkur að liðnu krefjandi og erfiðu ári 2020, en þeir verða vafalaust margir.

Eins og ég vék að í ræðu minni á Iðnþingi í september síðastliðnum, þá kenna farsóttir mannkynssögunnar okkur að áhrif þeirra á líf, heilsu og efnahag eru mikil á meðan þeirra varir. Sagan kennir okkur líka, að farsóttir eru tímabundið ástand, og samfélög og hagkerfi rísa með kröftugum hætti upp að loknu slíku tímabili.

Á þeim grunni hefði ár nýsköpunar sennilega sjaldan átt betur við en á þessu ári. Bylgjur nýsköpunar eiga það nefnilega til að spretta upp úr áföllum í efnahagslífi – normin breytast og það hriktir í stoðum. Í slíku ástandi er nefnilega nauðsynlegt að staldra við og spyrja; hvað tekur við núna, getum við treyst á gömlu formúluna eða getum við mótað hagkerfið okkar þannig að það hvetji til verðmætasköpunar á nýjum grunni. Hvernig byggjum við upp og endurreisum? Og hvernig förum við að því?

Samtök iðnaðarins hafa komið því skýrt til skila á þessu ári nýsköpunar að að verkefni næstu þriggja áratuga sé að skapa 60 þúsund ný störf á Íslandi eða um 40 ný störf í hverri viku til að tryggja góð efnahagsleg lífsgæði landsmanna.

Við munum áfram byggja á sterkum en sveiflukenndum stoðum sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar og ferðaþjónustu en þurfum að leggjast á eitt við að skapa nýjar útflutningsgreinar og aukin verðmæti með nýsköpun, hvort sem það er af nýjum rótum eða í rótgrónum greinum.

Hugverkaiðnaður, fjórða stoðin, sem er nú þegar orðin öflug stoð í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, er grunnur að auknum stöðugleika og hagvexti til framtíðar og hefur ótakmarkaða vaxtarmöguleika, enda byggir hún á ótakmarkaðri auðlind. Sú stoð mun knýja vöxtinn til að viðhalda þeim lífskjörum sem við höfum búið við og kappkostum að bæta. Jarðvegurinn er frjór og uppskeran kann að verða ríkuleg.

Hápunktar ársins hvað nýsköpun snertir eru fjölmargir og ég er afar stoltur af þeirri vinnu sem hefur verið lagt í og þeim árangri sem náðst hefur. Stjórnvöld hafa tekið góðar ákvarðanir og látið verkin tala. Starfsumhverfi nýsköpunar hefur þannig tekið stakkaskiptum á skömmum tíma og áfram verður unnið að frekari úrbótum því verkefnin eru mörg. Fyrir það færi ég iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra og þeirra góða teymi þakkir. Það þarf framsýni, bjartsýni og trú á verkefnið til að láta þetta ganga.

Sömuleiðis færi ég ríkisstjórninni og þingheimi þakkir fyrir jákvæðar undirtektir og stuðning við þetta mikilvæga verkefni. Nýsköpun er nú orðinn mikilvægur þáttur í stefnumörkun fjölmargra verkefna af hálfu hins opinbera. Okkur kann að greina á um forgangsröðun, málshraða og útfærslur en lykilatriðið er að við sameinumst um markmiðið – að koma Íslandi í fremstu röð nýsköpunarríkja.

Bestu þakkirnar færi ég þó þeim sem vinna alla daga óþreytandi starf við nýsköpun af þeim eldmóði og þolgæði sem þarf til að ná árangri. Við treystum á ykkur að bæta nú enn frekar í og virkja hugvitið sem aldrei fyrr. Samtök iðnaðarins standa þétt við bakið á ykkur í þeirri vegferð, nú sem endranær.

Og nú lokum við ári nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins með formlegum hætti í þeirri von að það marki í raun upphafið að áratug þar sem hugvitið verður virkjað í enn meiri mæli en áður, Íslendingum öllum til hagsbóta. Það er einmitt von mín, að þegar við horfum til baka að tíu árum liðnum minnumst við ársins 2020 ekki bara fyrir þá erfiðu tíma sem við höfum glímt við á árinu heldur sem upphafið að blómaskeiði í íslensku atvinnulífi – áratug nýsköpunar.

Si_streymisfundur_16122020_arni-3Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Hér er hægt að nálgast myndbandið: 

https://vimeo.com/491678237