Fréttasafn



11. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Húsnæði mæti kröfum markaðarins hverju sinni

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í pallborðsumræðum á fundi sem streymt var í dag frá Norræna húsinu um íbúðauppbyggingu undir yfirskriftinni Híbýlaauður. Sigurður var spurður út í almenn viðbrögð við því sem kom fram á viðburðinum, m.a. um að setja ætti auknar kröfur til dagsbirtu út frá þéttingu byggðar. Hver væru hagræn áhrif til lengri tíma? Sigurður svaraði því til varðandi gæðin og dagsbirtuna að rétt væri að ítreka að það ráðist enginn í byggingu á húsnæði nema telja talsverðar líkur á að geta selt það. Hann sagði þetta ráðast af því að húsnæði mæti kröfum markaðarins hverju sinni. „Þegar kemur að smáatriðum varðandi gæði reynir á hönnuðina og þar búum við býsna vel á Íslandi. Varðandi að byggja í takt við þarfir markaðarins stöndum við svolítið höllum fæti því okkur vantar yfirsýn yfir þarfir markaðarins.“ 

Ekki nægilega mikið byggt 

Sigurður sagði frá því að starfsmaður Samtaka iðnaðarins telji íbúðir í byggingu tvisvar á ári því opinber gögn endurspegli ekki uppbygginguna hverju sinni vegna tafa á að gögnin berist. Hann sagði að við værum einnig langt á eftir í stafrænni stjórnsýslu. „Uppbyggingin verður kostnaðarsamari en ella. Nú horfir þó tilbóta - HMS er að taka þetta sérstaklega fyrir og fulltrúi þeirra fylgdist með talningu SI síðast.“

Sigurður sagði húsnæðismálin vera bæði félagslegt og efnahagslegt mál. Hann sagði að öll þyrftum við þak yfir höfuðið en það væri vandamál að ekki væri nægilega mikið byggt. „Samtök iðnaðarins meta ekki þörfina sjálf en HMS hefur lagt mat á árlega þörf og það er talsvert meira en verið er að byggja.“

Átaksverkefni í íbúðaruppbyggingu á síðustu 100 árum

Í máli Sigurðar kom fram að með reglulegu millibili á síðustu 100 árum hafi þurft að ráðast í átaksverkefni í uppbyggingu. Það hafi síðast hafist 2018-19 og sé enn í gangi. Ríkið hafi gert sitt að einhverju leyti, t.d. með hlutdeildarlánum, atvinnulífið gerir sitt en sveitarfélög þurfi að gera betur. Hann sagði að sveitarfélögin þyrftu að flýta stafrænni tækni og afgreiðslu mála auk þess að hafa meira framboð af lóðum. Sigurður sagði löng afgreiðsla mála vera vandamál og það að þurfa að skila teikningum á prenti auki kostnað. Hann nefndi sem dæmi að prentkostnaður á einu verkefni hafi verið 2 milljónir króna.

Í umræðunum var farið inn á rannsóknir í byggingariðnaði og var Sigurður bjartsýnn á að það muni skila miklum árangri. Fleirum verði gert kleift að stunda rannsóknir en einungis starfsmönnum á tiltekinni stofnun því fyrirkomulagið verður opnara eftir að viðfangsefnið flyst til HMS.

Grænar áherslur í byggingariðnaði

Þá nefndi Sigurður grænar áherslur í byggingariðnaði. Í því samhengi sagði hann frá verkefninu Byggjum grænni framtíð sem er á vegum HMS, byggingariðnaðarins og fleiri aðila. Hann sagði að áherslurnar tengist því m.a. hvernigt hægt er að gera híbýlin vistlegri. „Þessu hefur ekki verið gefinn nægur gaumur á síðustu árum en mikill áhugi er til staðar og verið er að vinna að áætlun fyrir þennan iðnað í heild sinni.“ 

Sigurður ítrekaði í lokaorðum sínum að frumvandinn bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti væri að það eru ekki byggðar nægilega margar íbúðir. „Á því þarf að taka og það gerist ekki nema allir aðilar taki höndum saman.“