Fréttasafn



20. des. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Húsnæðisverð hefur hækkað umfram laun

Í Viðskiptablaðinu í dag skrifar Ingvar Haraldsson, blaðamaður, um íbúðamarkaðinn og ræðir meðal annars við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir ljóst að ekki hafi verið byggt fyrir þann hóp þar sem þörfin sé mest. „Framboðið á íbúðarhúsnæði hefur að miklu leyti verið dýrar íbúðir á þéttingarreitum. Það hefur skort á hagkvæmari kosti, minni íbúðir og íbúðir í úthverfum á ódýrari lóðum. Verkefnið sem blasir við er að tryggja íbúðir sem henta þessum kaupendahóp. Ég sé ekki hvernig það er gert án þess að byggja fyrir þennan hóp.“ Hann segir það vera meðal annars verkefni kjarasamninga að skapa þetta framboð. „Við vonum að menn nái einhverjum samnefnara því þetta er mikið hagsmunamál fyrir heimilin í landinu. Þetta hefur verið að rýra hag þeirra. Húsnæðisverð hefur verið að hækka talsvert umfram laun sem gerir það að verkum að erfiðara er að eignast fyrstu íbúð sem þýðir að fólk festist í leiguhúsnæði.“ 

Aukin óvissa hefur áhrif á íbúðamarkaðinn

Þá kemur fram í Viðskiptablaðinu að ljóst sé að hægari gangur í hagkerfinu muni hafa áhrif á fasteignamarkaðinn. „Það sem við erum að upplifa að einhverju leyti núna, er að aukin óvissa sem hefur verið að færast yfir hagkerfið á allra síðustu mánuðum, fyrst og fremst í ferðaþjónustunni, getur dregið úr eftirspurninni á fasteignamarkaði. Bæði vegna þess að  Airbnb íbúðir koma inn á fasteignamarkaðinn og því vinnuafli sem hefur verið að starfa í greininni fækkar eitthvað. Það hefur áhrif á þessa þörf.“ Jafnframt segir Ingólfur að sveiflurnar í hagkerfinu geri langtímaáætlanagerð á fasteignamarkaði mun erfiðari enda líði langur tími frá því að hverfi séu skipulögð þar til flutt sé inn í íbúðir. 

Tryggja þarf stöðugra umhverfi fyrir byggingageirann

Ingólfur segir að miðað við fólksfjöldaspá Hagstofu Íslands þurfi að byggja um 55 þúsund íbúðir hér á landi fram til ársins 2050. „Menn þurfa að vera með augun á þessari langtímasýn og velta fyrir sér hvernig við ætlum að byggja upp og mæta þessari þörf.“  Hann segir að sveiflur í byggingageiranum séu meiri en í hagkerfinu almennt. „Byggingageirinn sveiflast ofboðslega mikið og með ýktum hætti með hagsveiflunni. Verkefnið er að draga úr þessum sveiflum svo við séum ekki að lenda í því að það sé verið að byggja of lítið eða of mikið. Það er verkefni Seðlabankans, ríkisstjórnarinnar og ekki síst aðila vinnumarkaðarins að tryggja að við fáum stöðugra umhverfi fyrir þennan geira.“ 

Góður tími til að fara í innviðaframkvæmdir

Ingólfur segir ennfremur að  SI kalli eftir því að stjórnvöld stígi inn þegar ljóst sé að hægari vöxtur verði í hagkerfinu á næstunni. „Við höfum sagt að þetta sé góður tími fyrir hið opinbera að fara í innviðaframkvæmdir. Sérstaklega samgönguframkvæmdir til að mæta uppsafnaðri þörf og þörf fyrir nýfjárfestingar á þessu sviði. Þá væru menn að mæta niðursveiflunni og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma.“

Viðskiptablaðið, 20. desember 2018.