Fréttasafn20. júl. 2017 Almennar fréttir

Hvatt til aukinnar áherslu á starfsnám og tækninám

Í helgarútgáfu Morgunblaðsins skrifar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,  ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um mikilvægi þess að við reynum ekki að steypa alla í sama mótið heldur gefum hverjum og einum svigrúm og frelsi til að finna fjölina sína. Þar sem vangaveltur um tilurð umhverfis okkar dýpki virðingu okkar fyrir þeim sem hafa þekkingu og kunnáttu til að hanna, smíða og viðhalda hlutunum í kringum okkur og það ætti ekki að þurfa sérstaka hugarleikfimi til að skerpa á virðingu okkar fyrir þeim því mikilvægi þeirra blasi við. Hún nefnir að í janúar síðastliðnum hafi birst ánægjuleg frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem komið hafi fram að mun fleiri sæktu nú í iðnnám en áður og umsóknum í Tækniskólann fjölgi ár frá ári en vísbendingar séu um að það sé töluvert algengt að nemendur hætti við að fara í verk- og iðnnám og fari í staðinn stúdentsleiðina vegna þrýstings frá foreldrum.

Í greininni vitnar hún til eftirminnilegra orða Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, í ávarpi sínu á Iðnþingi fyrir rúmum tveimur árum, þar sem Guðrún gekkst við því með nokkurri eftirsjá að hafa beitt þrýstingi gagnvart 16 ára syni sínum og ráðið honum frá því að fara í Vélskólann, sagt hann of ungan, og skynsamlegra væri að taka stúdentsprófið fyrst. Tveimur árum síðar tók hann málin í eigin hendur og skráði sig í Vélskólann þar sem hann blómstraði og í kjölfarið voru þau mæðgin bæði himinlifandi með valið. „Hættum að líta á iðnnám sem síðri valkost,“ var hvatning Guðrúnar til foreldra. Þórdís segir tilfinningu sína vera að pendúllinn sé að snúast í rétta átt hvað þetta varðar. Fyrrnefnt ávarp Guðrúnar, sem og nýleg blaðagrein Þórlindar Kjartanssonar um bókvitið og askana, sem hafi vakið mikla og verðskuldaða athygli, feli í sér góð og áhrifamikil skilaboð sem styðji við þessa þróun. Þá segir hún að sömu straumar eigi aukinn hljómgrunn erlendis en í nýlegri úttekt tímaritsins Economist á menntamálum hvetji David Autor, hagfræðiprófessor við MIT-háskóla, Bandaríkin og aðrar þróaðar þjóðir til að leggja aukna áherslu á starfsnám og tækninám til hliðar við hefðbundið bóknám, líkt og Þjóðverjar hafa lengi gert.

Morgunblaðið, 15. júlí 2017.