Fréttasafn



13. júl. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Hversu ljótar tölur haustsins verða fer m.a. eftir hagstjórnaraðgerðum

Í helgarútgáfu Morgunblaðsins er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um stöðuna á byggingamarkaði en í fréttinni kemur fram að starfandi fólki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafi fækkað verulega á undanförnum misserum og að sú þróun hafi raunar þegar átt sér stað fyrir heimsfaraldur kórónuveiru, sé litið til marsmánaðar sjáist að fækkaði um 11,5% í samanburði við sama mánuð í fyrra en þessi neikvæða þróun hafi þegar verið hafin haustið 2019. Einnig kemur fram í fréttinni að atvinnuleysi á meðal iðnaðarmanna á þessu sviði hafi aukist en samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun hafi atvinnuleysi í greininni verið 9,3% í mars í ár en hafi verið 3,5% í sama mánuði í fyrra. Þá segir Ingólfur að 42% fækkun fram að fokheldu Í talningu Samtaka iðnaðarins frá því í febrúar og mars sé skýr birtingarmynd þeirrar niðursveiflu sem fram undan sé. Einnig sjái samtökin þessa þróun skýrt í atvinnuvegafjárfestingu, sem hafi dregist mikið saman undanfarið. 

Fjárfestingarátak í samgönguáætlun er jákvætt

Ingólfur segir í fréttinni að lækkun vaxta og bætt aðgengi að fjármagni til framkvæmda hjálpi til við að draga úr samdrættinum í fjárfestingum og hagstjórnaraðgerðir í þá veru undanfarið dragi því úr niðursveiflunni, það geri einnig aðgerðir hins opinbera sem miðað hafi að því að létta álögum af fyrirtækjum og skapa hagkerfinu viðspyrnu með m.a. auknum opinberum fjárfestingum. Í þessu sambandi segir Ingólfur að fjárfestingarátak stjórnvalda sem birtist í nýsamþykktri þingsályktun um samgönguáætlun sé jákvætt, en gert sé ráð fyrir að 8.700 störf verði til í tengslum við framkvæmdirnar á næstu fimm árum. Þá kemur fram í fréttinni að stjórnvöld hafi áform uppi um frekara fjárfestingarátak á tímabilinu 2021-2023 fyrir allt að 60 milljarða króna. Þar koma til greina ýmis verkefni í samgönguinnviðum sem hafi verið í undirbúningi, m.a. í vegagerð. „Þetta hjálpar í byggingageiranum og hagkerfinu í það heila en þetta kemur ekki í veg fyrir niðursveifluna. Það er verið að draga úr dýpt hennar og skapa störf og viðspyrnu fyrir efnahagslífið, sem er svo mikilvægt um þessar mundir.“ Ingólfur ítrekar að nú sé tíminn til þess að ráðast í innviðauppbyggingu, en með því sé dregið úr fjárfestingarslaka sem myndast hafi hér á síðustu árum og byggt undir hagvöxt framtíðarinnar. 

Stóra verkefnið að draga úr miklu atvinnuleysi

Þá kemur fram í fréttinni að Ingólfur hafi aftur á móti áhyggjur af miklu atvinnuleysi og í því sambandi fyrrnefndri þróun um fjölda starfandi í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð. „Tölurnar sýna hvað það var komin mikil niðursveifla við upphaf Covid-19. Það er klárt mál að mánuðirnir á eftir, apríl og maí, líta verr út,“ segir Ingólfur og tekur fram að litið til næstu missera sé stóra verkefnið það að draga úr miklu atvinnuleysi með því að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og skapa þannig störf. „En ég hef áhyggjur af haustinu þegar við sjáum áhrifin af samdrættinum í hagkerfinu og slæma stöðu margra fyrirtækja birtast í minni fjárfestingu einkaaðila. Ég reikna með að tölur haustsins verði ljótar. En hversu ljótar þær verða fer m.a. eftir hagstjórnaraðgerðunum og virkni þeirra. Þetta fer eftir því hversu mikið við náum að koma hagkerfinu af stað.“

Morgunblaðið / mbl.is, 11. júlí 2020.

Morgunbladid-11-07-2020