Fréttasafn



17. nóv. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Hvetja nýja ríkisstjórn til að lyfta þaki af endurgreiðslu

Forstjórar fjögurra nýsköpunarfyrirtækja skrifuðu grein í ViðskiptaMoggann þar sem þeir hvetja nýja ríkisstjórn til að afnema þak af endurgreiðslu vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun. Þeir segja það eitt stærsta skrefið sem hægt sé að stíga til að gera Ísland samkeppnishæfara við nágrannalöndin á sviði rannsókna og þróunar.

Forstjórarnir fjórir, Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP,  og Pétur Már Halldórsson, forstjóri Nox Medical, segja í greininni að hlutfall skattaendurgreiðslu vegna fjárfestinga í nýsköpun sé hærra í þeim löndum sem hafa markað sér skýra stefnu um að byggja upp hátækniiðnað. Í Ástralíu sé hlutfallið allt að 43% og í Kanada allt að 50% en á Íslandi er það nú 20%. Þá sé víðast hvar ekki sett þak á endurgreiðslur vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun, ólíkt því sem gert er á Íslandi. Ástæðan séu hin jákvæðu áhrif sem nýsköpun er talin hafa á hagkerfið. Í lok greinarinnar segja forstjórarnir það vera von sína að ný ríkisstjórn láti það verða sitt fyrsta verk að stíga þetta skref. 

Forstjorar

Lyftum-thakinu-af---Vidskiptamogginn-16.-november

Hér fyrir neðan er hægt að lesa greinina sem birtist í ViðskiptaMogganum í heild sinni:

Samkvæmt fréttum er stefnt að því að ný ríkisstjórn Íslands, sem nú er verið að mynda, sitji í fjögur ár. Gangi það eftir mun hún hafa mikið um það að segja hvernig Ísland er búið undir framtíðina. Fátt vegur þar eins þungt og að skilyrði séu til að stunda rannsóknir og þróun, í daglegu tali kallað nýsköpun. Birtingarmynd nýsköpunar er meðal annars hálaunastörf fyrir fólk með mikla þekkingu. Stórt skref til að bæta þessi skilyrði á Íslandi væri að afnema þak á skattaendurgreiðslum vegna fjárfestinga í nýsköpun. 

Sum öflugustu fyrirtæki landsins, sem fjárfest hafa fyrir milljarða á hverju ári undanfarin ár í rannsóknum og þróun, finna nú fyrir styrkingu krónunnar sem gert hefur umhverfið til að standa fyrir nýsköpunarstarfsemi hér á landi mun erfiðara. Skattaendurgreiðslan, sem komið var á fyrir fimm árum, nemur 20% af hverri milljón sem fjárfest er í nýsköpun. Rannís annast vottun þess að um raunverulega nýsköpun sé að ræða. Þetta er sama hlutfall og þekkist víða, en í löndum sem hafa markað sér skýra stefnu um að byggja upp hátækniiðnað er þetta hlutfall mun hærra. Í Ástralíu er endurgreiðsluhlutfallið allt að 43% og í Kanada allt að 50% svo einhver dæmi séu tekin. Þá er einnig ólíkt með Íslandi og öðrum löndum að hér er hámark á því hversu mikið fyrirtæki eru með þessum hætti hvött til að fjárfesta í nýsköpun. Stjórnvöld í sumum löndum þar sem fyrirtæki okkar eru með hluta af sinni starfsemi setja ekkert slíkt þak á endurgreiðslur vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun. 

Í kosningabaráttunni, sem nú er nýlokið, var mikið rætt um fjórðu iðnbyltinguna. Sé stjórnvöldum alvara með að styðja við rannsóknir og þróun í landinu væri ekki hægt að senda nein sterkari skilaboð heldur en að afnema þakið á endurgreiðslunum. Tæknivæðing fjórðu iðnbyltingarinnar mun gjörbylta verðmætasköpun og vinnumörkuðum vestrænna ríkja. Þetta vissu stjórnmálamenn þegar skattaendurgreiðslunni var fyrst komið á fyrir fimm árum og einnig þegar þakið var hækkað fyrir tveimur árum. Betur má þó ef duga skal. Reynslan af endurgreiðslunni hefur verið góð. Afnám þaksins nú mun kalla nýsköpun til landsins með tilheyrandi nýjum hátæknistörfum og þekkingu. Það er reynsla okkar allra eftir áratuga starf í nýsköpun um alla veröld að svona aðgerðir skipta máli. 

Rekstrarumhverfi alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi er ýmsum takmörkunum háð. Hátt vaxtastig, sveiflukenndur gjaldmiðill, fjarlægð frá mörkuðum og margt fleira hamlar uppbyggingu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Tækifærin eru hins vegar einnig mörg. Það felst líka styrkur í smæðinni, stuttum boð- leiðum og hugviti fólksins sem hér býr. 

Með því að lyfta þakinu af mun Ísland verða samkeppnishæfara við löndin í kringum sig þegar kemur að því að laða til sín áhugaverðar rannsóknar og þróunareiningar. Þessi endurgreiðsla er ein mikilvæg forsenda þess hvaða staðir eru valdir fyrir slíkar fjárfestingar. Ef við viljum að ungt fólk á Íslandi hafi aðgang að og val um fjölbreytt áhugaverð alþjóðlega samkeppnishæf störf þá er afnám þaksins afar mikilvægt skref. Það er von okkar að ný ríkisstjórn láti það verða sitt fyrsta verk að stíga þetta skref. 

ViðskiptaMogginn, 16. nóvember 2017.