Fréttasafn  • Borgartún 35

11. feb. 2016 Almennar fréttir

Kosning 2016

Í samræmi við lög Samtaka iðnaðarins fara fram kosningar í tengslum við Iðnþing og þar hefur hver félagsaðili atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2015. Hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með því að greiða vangoldin félagsgjöld ársins 2015.

Árlega er kosið um formann og að þessu sinni er kosið um fimm almenn stjórnarsæti. Alls bárust níu framboð.

Félagsmenn hafa fengið sendar nánari upplýsingar og lykilorð.

Smelltu hér til að kjósa.

Í kjöri til formanns SI

Passamynd-gudrunGuðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís
Ég er fædd inn í fjölskyldufyrirtækið Kjörís ehf. í Hveragerði og hef setið þar í stjórn í yfir tuttugu ár ásamt því að gegna þar ýmsum stjórnunarstöðum. Ég var kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins vorið 2011 og kjörin formaður á Iðnþingi árið 2014.

Breiddin í Samtökum iðnaðarins er mikil og gæta þarf hagsmuna allra, smárra sem stórra fyrirtækja. Víðtækt samráð þarf að eiga sér stað við félagsmenn um stefnumótun samtakanna og tryggja að við tölum einni röddu.

Ég vil vinna að því að því að íslenskur iðnaður búi við framúrskarandi starfsskilyrði og  að unga fólkið okkar líti á íslenskan iðnað sem spennandi starfvettvang til framtíðar litið.

Í kjöri til stjórnar SI

Agnes Ósk Guðjónsdóttir, snyrtifræðingur og eigandi GK snyrtistofu
AgnesÉg er snyrtifræðingur með meistararéttindi og eigandi GK snyrtistofu í Mosfellsbæ og hef ég verið með stofuna síðan 2007. Ég hef sinnt fjölmörgum störfum innan Félags íslenskra snyrtifræðinga var þar á meðal formaður frá 2012 til 2015 og þar á undan gjaldkeri og varaformaður. Einnig sit ég í starfsgreinaráði, nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Ég býð krafta mína fram í þágu samtakanna og vegna þess að ég álít að þekking mín og reynsla úr atvinnulífinu geti gagnast SI vel. Ég tel að í stórum samökum líkt og SI sé mikilvægt að við stjórnarborðið sitji bæði fulltrúar stærri og minni fyrirtækja og að stjórnin endurspegli þannig þá miklu breidd fyrirtækja sem sannarlega er innan SI. Fjölbreytileiki er gríðarlega mikilvægur í hraða nútímans til að ná til sem flestra. Auka þarf á verðmætasköpun með betra skipulagi og stjórnun, fyrirtækjum og starfsfólki í hag. Nái ég stjórnarkjöri mun ég beita mér fyrir eflingu iðnaðar í landinu og starfsskilyrða hans.  

Áherslur:  Tryggja íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði, fjölga verk- og tæknimenntuðum,  efla endurmenntun í iðnaði, efla stuðning við nýsköpun og þróun, berjast gegn ólöglegri atvinnustarfsemi í þágu samfélagsins. 

Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur Marel
Arni-marelÉg hef starfað hjá Marel frá árinu 2009 og tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu bæði hérlendis og utan landsteinanna. Það er í senn áskorun og forréttindi að breiða út íslenskt hugvit, verklag, tækniþekkingu og framleiðslu. Sprotinn og grunnurinn að starfsemi félagsins er engu að síður hér á Íslandi, sem er okkar lykilstarfsstöð. Ég hef lengi fylgst með því metnaðarfulla og árangursríka starfi sem unnið hefur verið hjá Samtökum iðnaðarins og býð nú fram krafta mína til áframhaldandi góðra verka. 

Að mörgu er að hyggja á komandi misserum af hálfu Samtaka iðnaðarins. Með stöðugt aukinni alþjóðavæðingu þarf að standa vörð um og efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, auk þess að stuðla að auknum fjárfestingum. Skerpa þarf umræðu um iðnmenntun og mikilvægi hennar. Síðast en ekki síst þarf að tryggja iðnfyrirtækjum viðunandi starfsumhverfi og viðeigandi regluverk, sem stöðugt þarf að leitast við að einfalda. 

Ég tel að menntun mín og reynsla úr íslensku atvinnulífi muni hjálpa til í þeim fjölmörgu umbótaverkefnum sem bíða nýrrar stjórnar Samtaka iðnaðarins og auki þá breidd sem er nauðsynleg í forystusveitinni. Því óska ég eftir stuðningi ykkar í stjórnarkjörinu sem framundan er. 

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri ÍSAM
BergthoraBergþóra er menntuð dýralæknir en hefur unnið við stjórnun frá árinu 1994.  Hún hefur auk þessa stundað nám rekstrar og viðskiptafræði við H.Í og markaðsfræðum frá The Chartered Institute of Marketing í Bretlandi í gegnum Háskólann í Reykjavík .  Bergþóra gegnir nú stöðu forstjóra ISAM var áður framkvæmdastjóri Fastus frá 2012 og Líflands og Kornax frá árinu 2007-2012. 

Bergþóra er gift Auðunni Hermannssyni mjólkurverkfræðingi en hann starfar sem framleiðslu og tæknistjóri hjá Mjólkusamsölunni. Þau eiga tvær dætur. ISAM er ein af elstu heildsölum landsins stofnuð 1964. Í dag rekur félagið auk þessa framleiðslufyrirtækin, Mylluna, Frón, Kexsmiðjuna Akureyri og ORA. 

Ég sækist eftir stjórnarsetu í SI þar sem ég hef víðtæka stjórnunarreynslu bæði úr fyrirtækjum sem stunda iðnaðarframleiðslu og öðrum atvinnurekstri. Það væri mér ánægja að geta miðlað af reynslu minni í góðum hópi stjórnarmanna.

Egill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs Össurar
Egill_Jonsson_headshotÍ auknum mæli starfa íslensk fyrirtæki í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og því mikilvægt að hér ríki stöðugleiki og sterk samkeppnishæfni á sem flestum sviðum. Ein af lykilforsendum þess að okkur takist að reka hér samfélag sem stenst fyllilega samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar á næstu árum er að bæta framleiðni  og skilvirkni í samfélaginu.

Að sjávarútveginum undanskildum hafa alþjóðlegar athuganir sýnt að hér skortir á og það er sannarlega mikil áskorun og allra hagur að bæta úr því. Einnig þarf að búa svo um að nýsköpun og iðnmenntun skapi hér hærri sess en raun ber vitni.

Samtök iðnaðarins, gegna mikilvægu hlutverki við að móta framtíðarstefnu sem tryggir sem best öflugan atvinnurekstur, stöðugleika og aukna framleiðni í samfélaginu. Ég býð mig fram til stjórnar í Samtökum iðnaðarins til að leggja slíkri stefnumótun og umbótum lið.

Ég er vélaverkfræðingur og á liðlega 30 ára starfsferli mínum hef ég starfað við ýmsar verklegar framkvæmdir og iðnaðaruppbyggingu, þar af hef ég síðustu 20 árin  leitt hraða uppbyggingu framleiðslusviðs Össurar hérlendis og erlendis.

Það er von mín að reynsla mín úr atvinnulífinu og  einskær áhugi minn á að efla íslenskt atvinnulíf, öllum til hagsbóta, nýtist vel á þessum vettvangi. 

Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri iðnaðar hjá Mannviti
Ég hef unnið í tengslum við íslenskan iðnað alla tíð, er húsasmiður að mennt og lauk síðar doktorsnámi byggingarverkfræði.  Íslenskur  iðnaður  hefur verið mér hugleikinn um langan tíma, bæði vöxtur hans og viðgangur. Undanfarin 20 ár hef ég verið í stjórnunarstörfum í íslenskum iðnaði þar af forstjóri Mannvits hf og forvera þess í 12 ár. Frá því í mars 2014 hef ég setið í stjórn Samtaka iðnaðarins og síðastliðið ár verið varaformaður samtakanna auk þess að sitja í stjórn Samtaka atvinnulífsins. Nú býð ég mig fram til stjórnarsetu á nýjan leik til næstu 2 ára til að vinna fyrir ykkur öll sem Samtök iðnaðarins mynda.

Íslenskur iðnaður er mikilvæg undirstaða í íslensku samfélagi. Það er endalaus vinna að tryggja gott umhverfi fyrir íslensk iðnfyrirtæki til að efla samkeppnishæfni þeirra en samkeppnishæfni fyrirtækja er ein forsenda þess að hér haldist og byggist upp öflugur iðnaður til framtíðar. Til að svo megi verða þarf rekstrarumhverfi að vera sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.  Stöðugleiki í starfsumhverfi okkar þarf að vera tryggður og það er best gert með öflugum málsvara eins og Samtök iðnaðarins eru. Ég vil vinna að því að efla verk- og tæknimenntun og halda áfram að styðja það góða starf sem unnið er á ýmsum sviðum innan Samtaka iðnaðarins fái ég til þess brautargengi.
Áhugamál: Útivist, veiði og ferðalög. 

Guðrún Jónsdóttir, fjármálastjóri Héðins hf.
Gudrun-Jonsd-mynd1Ég hef unnið hjá málmiðnaðarfyrirtæki í yfir 30 ár með hléum og fylgst með þróun iðnaðargreinarinnar allan þann tíma. Ég tel að þekking mín og reynsla geti nýst samtökunum í áframhaldandi vinnu við að efla íslenskan iðnað. 

Til að iðnaður geti vaxið þarf að gæta þess að menntun í iðnaði verði samkeppnishæf við aðrar greinar. Það þarf að skapa öruggt rekstarumhverfi fyrir fyrirtæki til að þau geti vaxið og dafnað og þar eiga samtökin að koma sterk inn. Tækninni í málmiðnaði hefur fleygt fram síðustu árin, vélar og tæki þróast í átt að aukinni sjálfvirkni og tölvutæknin að verða meira ráðandi. Þrátt fyrir nútímavæðingu í greininni þá hefur ásókn í iðnnám verið að dragast saman á síðustu árum sem skilar sér í fækkun málmiðnaðarmanna sem skerðir hæfni fyrirtækjanna til eðlilegrar endurnýjunar stafsmanna. Hvort um er að ræða að námsskráin sé ekki í takt við þarfir eða iðnnám sé ekki nógu áhugaverkjandi er verkefni sem þarf að taka á til framtíðar. Til leggja sitt lóð á vogaskálarnar fór Héðinn hf. í samstarf við Iðnskólann í Hafnarfirði og önnur málmiðnaðarfyrirtæki á svæðinu í prufuverkefni vorið 2013 þar sem fyrirtækin bjóða nemum örugga sumarvinnu og í framhaldinu að komast á samning sem framlag til að auka aðsókn í greinina.

Þetta verkefni hefur skilað árangri sem vonandi á eftir að eflast og festast í sessi til framtíðar. Samtökin eru réttur vettvangur til að efla sambærileg samstarf/samvinnu á sem breiðustum grunni innan allra iðnargreina. 

Skólaganga mín er hefðbundin frá barnaskóla út framhaldsskóla, ég hef farið tvisvar í gegnum Háskóla Íslands í fyrra skiptið tók ég BSc. í Hjúkrun og í seinna skiptið BSc. í Viðskiptafræði. 

Heiðar Guðjónsson, formaður stjórnar Vodafone
Eykon-picture-HGÉg er hagfræðingur og hef starfað alþjóðlega lengst af, í New York, London og Zurich þangað til ég flutti aftur til landsins fyrir rúmu ári síðan. Ég hef fjárfest og tekið þátt í uppbyggingu fjarskiptafyrirtækja í yfir áratug og er nú formaður stjórnar Vodafone (Fjarskipti hf).  

Upplýsingatæknin og fjarskiptin eru í hraðri þróun og munu leika lykilhlutverk í aukinni framleiðni iðnaðar á Íslandi á næstu árum.  Það skiptir því miklu máli fyrir samkeppnishæfni Íslands að við stöndum framarlega á þessum sviðum enda munu aðrar greinar njóta góðs af því.  Skýr sýn á framtíðina er nauðsynleg og tenging við alþjóðlega markaði er það sömuleiðis. Ég hef skrifað bók um mína sýn, Norðurslóðasókn um tækifæri Íslands með tilliti til hnattrænnar staðsetningar, sem náði metsölu árið 2013.  Eins hef ég verið þátttakandi í stærstu alþjóðlegu ráðstefnunum um þróun  atvinnulífsins í Bandaríkjunum og Evrópu. 

Þó að líta megi á mig sem fulltrúa upplýsingatækni og fjarskipta þá geri ég mér grein fyrir samspili ólíkra greina og mun berjast fyrir hagsmunum allra. Í störfum mínum hef ég auðmýkt að leiðarljósi og trúi því að góðir stjórnarhættir, öguð fagleg vinnubrögð og uppbyggileg gagnrýni leiði af sér heilsteyptari útkomu. Ég hef gaman af liðsvinnu og tel mig geta lagt mitt af mörkum til að efla gott starf Samtaka iðnaðarins enn frekar öllum félagsmönnum til heilla.

Jón Gunnar Jónsson, framkvæmdastjóri Actavis á Íslandi
_DSC3712Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Samtökum iðnaðarins. Á undanförnum misserum hefur verið kallað til nýrrar sóknar undir merkjum menntunar, nýsköpunar og framleiðni.  Samkeppnishæfni fyrirtækja skiptir miklu máli og með stærð sinni og fjölbreytni  hefur SI slagkraft til áhrifa í atvinnulífinu. Með sterkum samtökum er hægt að hafa áhrif til hagsbóta fyrir fyrirtækin í landinu. Hagvöxtur verður ekki tryggður nema með uppbyggingu atvinnugreina sem skila arði í þjóðarbúið.  

Ég vil áfram leggja mín lóð á vogarskálarnar í þessum og fleiri framfaramálum. Bakgrunnur minn sem verkfræðingur ásamt reynslu frá rekstri iðnfyrirtækja getur nýst vel í stjórn SI. Þó skiptir mestu máli að aðildarfélög nýti sér tækifærið til að velja stjórn sem endurspeglar breidd og fjölbreytni fyrirtækja og fulltrúa þeirra í atvinnulífinu.  Helstu áhugamál mín eru ferðalög og útivera, bæði á sjó og landi.