Fréttasafn2. jan. 2019 Almennar fréttir

Í upphafi skal endinn skoða

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, sendi félagsmönnum kveðju á síðasta degi ársins undir yfirskriftinni Í upphafi skal endinn skoða. Hér fyrir neðan er hægt að lesa kveðjuna:

Árið 2019 er gengið í garð með öllum sínum væntingum og vonum. Á sama tíma lítum við yfir farinn veg og minnumst þess sem liðið er. Hvar gengum við götuna til góðs og hvar hefði betur mátt fara?

Síðasta ár var í mörgum skilningi gott ár og hagsælt fyrir íslenska þjóð. Góður gangur var í hagkerfinu, metfjöldi erlendra ferðamanna sótti landið okkar heim, karlalandsliðið í knattspyrnu komst á heimsmeistaramót. Við höfum það heilt á litið afskaplega gott hér á landi þó vitaskuld séu lífskjör okkar misjöfn.

Síðustu vikur hafa einkennst af kjarasamningsumræðum en nú um áramót urðu kjarasamningar lausir og ekki tókst að semja við launþega áður en kjarasamningar runnu sitt skeið á enda. Ljóst er að kröfugerð launþega er meiri en flestir atvinnurekendur ráða við. Það er því verkefni samningsaðila næstu vikur að finna sameiginlegan tón öllum til heilla. Það er gríðarlega mikilvægt að vel takist til. Mikilvægt er að tryggja kaupmátt fólks og stöðugleika í atvinnulífinu. Atvinnurekendur og launþegar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. 

Á síðasta ári var mikill kraftur í starfi Samtaka iðnaðarins. Á Iðnþingi í mars birtu samtökin skýrsluna Ísland í fremstu röð -  eflum samkeppnishæfnina og vakti sú útgáfa mikla athygli. Í október gáfum við út menntastefnu samtakanna undir yfirskriftinni Mætum færni framtíðarinnar og í nóvember kom út skýrslan Mótum framtíðina saman - atvinnustefna fyrir Ísland sem er okkar innlegg til umræðu um atvinnustefnu sem gæti verið rauði þráðurinn í stefnumótun hins opinbera. Í byrjun árs munum við síðan kynna nýsköpunarstefnu SI. Það er ljóst að ef við viljum vera í fremstu röð þjóða þá verðum við að móta þá framtíð saman og við verðum að gera það núna því framtíðin er handan við hornið. Til að halda uppi því velferðarsamfélagi sem við viljum þá verðum við að eiga öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Ísland þarf að bjóða upp á fjölbreytt og áhugaverð störf svo unga fólkið finni sér farveg hér á landi.

Í upphafi árs eru 25 ár síðan Samtök iðnaðarins tóku formlega til starfa. Þeirra tímamóta munum við minnast með margvíslegum hætti á árinu. Þá sameinuðustu í ein heildarsamtök iðnaðar, Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Félags íslenska prentiðnaðarins, Verktakasamband Íslands, Samband málm- og skipasmiðja og Meistara- og verktakasamband byggingamanna. Eitt af markmiðum hinna nýstofnuðu samtaka var að auka áhrif iðnaðar í þjóðfélaginu og vinna að bættum starfsskilyrðum iðnaðar sem og nýsköpun og menntamálum. Enn þann dag í dag hefur ekki verið hvikað frá þessu höfuðmarkmiði Samtaka iðnaðarins. Sú staðfesta hefur skilað þeim árangri að í dag eru Samtök iðnaðarins ein öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Við Íslendingar höfum í gegnum áratugina oft og tíðum mátt þola ýmislegt mótlæti. En í mótlætinu er nauðsynlegt að vita hvert skuli stefna. Fyrir 25 árum komu saman stórhuga menn sem sáu tækifærin í því að nýta samtakamátt sinn í einum öflugum heildarsamtökum. Þeir áttu sér markmið og þeir settu sér stefnu en ofar öllu var þó trúin á að með samtakamætti myndum við ná árangri til að byggja hér upp enn öflugra atvinnulíf.

Í dag eru um 1.400 fyrirtæki innan raða Samtaka iðnaðarins. Þessi fyrirtæki eru hryggjarstykkið í atvinnulífi okkar Íslendinga. Innan þeirra raða starfar vel menntað og harðduglegt fólk sem leggur sig fram við að skapa verðmæti fyrir land og þjóð. Þessi fjölbreytta flóra fyrirtækja gerir það að verkum að SI eru eins öflug samtök og raun ber vitni. Samtök iðnaðarins hafa sjaldan verið öflugri og bæði starfsmenn og stjórn leggja sig alla fram við að vinna iðnaðinum til heilla.

Um leið og ég óska félagsmönnum SI velfarnaðar á nýju ári vil ég einnig nota tækifærið og þakka fyrir einkar ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.

Gleðilegt ár!

Með kveðju frá Hveragerði,

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.

Áramótakveðja frá formanni SI.