Fréttasafn



24. ágú. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Íbúðauppbygging stefnir í öfuga átt

Í nýrri greiningu SI sem ber yfirskriftina Íbúðauppbygging stefnir í öfuga átt segir að líklegt sé að leiguíbúðum með opinberum stuðningi muni fjölga meira en íbúðum fyrir séreignamarkað þrátt fyrir að meginþorri landsmanna kjósi að búa í eigin húsnæði. Samtök iðnaðarins telja að of lítil áhersla sé lögð á uppbyggingu séreignahúsnæðis í rammasamkomulagi stjórnvalda um uppbyggingu 35 þúsund íbúða fram til ársins 2032. Gert sé ráð fyrir að fram til þess tíma muni leiguíbúðum með aðkomu hins opinbera fjölga um 85%, að þær fari úr 9.500 talsins í 17.600. Í greiningunni segir að það sé mat Samtaka iðnaðarins að stjórnvöld eigi að hjálpa landsmönnum að eignast sitt eigið húsnæði frekar en að festa fólk á leigumarkaði.

Í greiningunni segir jafnframt:

  • Meginþorri landsmanna kýs að búa í eigin húsnæði. Áherslur stjórnvalda hafa hins vegar verið á uppbyggingu íbúða með aðkomu hins opinbera og svo verður áfram miðað við stefnuáherslur. Ef stjórnvöld, þ.e. ríki og sveitarfélög, leggja megináherslu á slíka uppbyggingu þá er framleiðslugeta markaðarins nýtt þar en ekki í uppbyggingu séreignarhúsnæðis þar sem eftirspurnin er.
  • Líklegt er að leiguíbúðum með opinberum stuðningi muni fjölga meira hlutfallslega en íbúðum fyrir séreignamarkað á tíma rammasamkomulags stjórnvalda um uppbyggingu 35.000 íbúða sem undirritaður var á síðasta ári og nær til ársins 2032. Á tímabilinu er í samkomulaginu gert ráð fyrir að íbúðum í séreign fjölgi um tæp 19% og leiguhúsnæði með aðkomu hins opinbera um ríflega 85%, þ.e. leiguíbúðir með aðkomu hins opinbera fara úr 9.500 í 17.600. Þá mun hlutfall leiguhúsnæðis á vegum hins opinbera fara úr því að vera 6% íbúðamarkaðarins í 9% á tíma samningsins.
  • Samtök iðnaðarins telja að of lítil áhersla sé lögð á uppbyggingu séreignarhúsnæðis í rammasamkomulagi stjórnvalda um uppbyggingu 35.000 íbúða. Á þeim markaði er skortur á íbúðum og mikil uppbyggingarþörf. Fólk vill færa sig úr leiguhúsnæði yfir í séreignarhúsnæði og ættu uppbyggingaráform og áherslur stjórnvalda að taka mið af því. Uppbyggingaráform virðast stefna í öfuga átt þar sem félagslegt húsnæði vex í fjölda og sem hlutfall af íbúðamarkaðinum ef markmið samningsins ganga eftir. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að stjórnvöld, ríki og stærstu sveitarfélög landsins, breyti þessu og stígi inn með aðgerðum til að tryggja að fjöldi og samsetning fullbúinna íbúða sem koma inn á íbúðamarkaðinn á næstu árum verði í takti við þarfir og óskir landsmanna.
  • Samtök iðnaðarins telja ólíklegt að markmið rammasamnings stjórnvalda um 35.000 íbúðir náist, nema stjórnvöld beiti sér með markvissum hætti fyrir því að auka uppbyggingu íbúða umfram það sem nú er gert. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, áætlar að á fyrstu 3 árum samningsins verði fjöldi nýbyggðra íbúða undir þörf og markmiðum samningsins sem nemur 4.360 íbúðum samanlagt. Þá aukist ójafnvægið á milli fjölda fullbúinna íbúða og áætlaðrar þarfar eftir því sem líði á spátímann. Líklegt er að munurinn verði mestur í uppbyggingu íbúða fyrir séreignamarkað.
  • Stór hluti þeirra sem nú leigja húsnæði vilja frekar eiga sitt eigið húsnæði. Í könnun sem Prósent hefur á undanförnum árum gert á meðal leigjenda kemur fram að ekki nema um 10% þeirra sem eru á leigumarkaði velja að vera þar. Ríflega 72% segjast vera leigjendur af nauðsyn. Hlutfallið hefur farið hækkandi síðustu ár en árið 2019 var það 57%. Ef þeir leigjendur sem myndu frekar vilja eiga en leigja fengju ósk sína uppfyllta myndi hlutfall leigumarkaðarins fara niður í 5,8%. Ef einnig er horft til fjárhagslegrar getu fækkar þeim sem geta eignast eigið húsnæði og verða að leigja en þannig mætti setja upp sviðsmynd um húsnæðismarkað í jafnvægi þar sem horft er til vilja fólks og fjárhagslegrar getu þannig að 85% markaðarins væri eigin húsnæði og 15% leiguhúsnæði sem að hluta til væri opinbert leiguhúsnæði.
  • Það er mat Samtaka iðnaðarins að stjórnvöld eigi að hjálpa landsmönnum að eignast sitt eigið húsnæði frekar en að festa fólk á leigumarkaði. Sveitarfélögin bera þar ríkulega ábyrgð að skapa forsendur til þess að framboð íbúða sé nægjanlegt og að þær séu á viðráðanlegu verði. Reykjavík hefur t.a.m. lagt áherslu á þéttingarverkefni og íbúðir innan almenna íbúðakerfisins. Hvoru tveggja mætir ekki þörfum og óskum landsmanna.
  • Það úrræði sem upp á síðkastið hefur sannað gildi sitt eru hlutdeildarlán en þau fela í sér stuðning ríkis til tekju- og eignaminni aðila til að fjárfesta í eigin húsnæði. Úrræðið hefur brúað eiginfjárkröfu við íbúðarkaup fyrir þau sem þess þurfa og styðja við framboðshlið íbúðamarkaðsins með því að hvetja byggingaraðila til að ráðast í ný verkefni.
  • Samtök iðnaðarins telja það rangnefni að kalla íbúðir innan almenna íbúðakerfisins hagkvæmar íbúðir enda eru þær fyrst og fremst íbúðir sem eru niðurgreiddar af hinu opinbera. Að mati Samtaka iðnaðarins er það ekki hagkvæmni að láta kostnaðinn falla á skattgreiðendur.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.

Greining-agust-2023_2

 

Morgunblaðið, 24. ágúst 2023.

mbl.is, 24. ágúst 2023.

Vísir, 24. ágúst 2023.

Bylgjan/Vísir, 24. ágúst 2023.

Viðskiptablaðið, 24. ágúst 2023.

Viljinn, 24. ágúst 2023.

Bylgjan, 25. ágúst 2023.