Fréttasafn



26. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Iðnaður á Íslandi er lykilbandamaður

Ég treysti mér til að fullyrða að það geti orðið mjög góðir samhljómur á milli iðnaðarins í landinu og nýrrar ríkisstjórnar sem ég er í forsvari fyrir. Skilaboð okkar til atvinnulífsins eru skýr. Við ætlum að stækka kökuna og styrkja velferðina. Sem sagt, við þurfum að gera hvort tveggja, ekki bara annaðhvort. Og við skiljum mikilvægi iðnaðar á Íslandi sem er auðvitað lykilbandamaður í þessu verkefni. Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, meðal annars í ávarpi sínu á Iðnþingi 2025. 

Hún sagði hvort sem það væri byggingariðnaðurinn og þessi hefðbundni framleiðsluiðnaður, en ekki síður hugverkastoðin sem hafi vaxið svo hratt og hafi allt til þess að verða enn þá sterkari stoð í íslensku samfélagi. Tækifærin séu þess vegna svo sannarlega til staðar. Kristrún sagði að iðnaðurinn hafi svo sannarlega fengið ríkisstjórn sem lætur verkin tala. „Viðskiptavæna stjórn, verkstjórn sem er óhrædd við að hrista upp í hlutunum eins og þið sjái bara og fyrstu mánuðirnir gefa skýr merki um. Núna í vikunni þá kynntum við til dæmis tillögur hagræðingarhóps eftir að hafa virkjað þjóðina með okkur og kallað eftir aðkomu almennings og fyrirtækja. Þetta var gríðarlega mikilvægur áfangi í hagræðingarvegferð ríkisstjórnarinnar og ég er ótrúlega spennt að sjá hvað kemur út úr þessu, því við erum bara rétt að byrja. Nú erum við búin að fá tillögurnar í hendurnar og nú er okkar að framkvæma og vinna úr þessu.“

Fimm atriði til að stækka kökuna og sameinast um

Þá fór Kristrún yfir fimm atriði sem hún sagði að væri hægt að gera saman á næstu árum til að stækka kökuna og væru þetta áherslur sem ríkisstjórnin vilji sameina þjóðina um. Númer eitt sagði hún vera að ná aftur stöðugleika og sjá lækkun vaxta. „Og þetta hefur verið algjört forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar og þarna erum við svo sannarlega á réttri leið.“ 

Númer tvö sagði hún vera sátt um auðlindagjöld og orkuöflun. „Og þarna er til mjög mikils að vinna. Það er uppsöfnuð innviðaskuld í landinu eins og Samtök atvinnulífsins og iðnaðarins hafa svo sannarlega verið óþreytt við að benda á. Og almenn auðlindagjöld geta verið hluti af lausninni. Þá viljum við leiða breiða pólitíska sátt um jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar á orkuauðlindum. Og þarna vil ég segja, eins og ég held að flestir hérna hafa áttað sig á, hefur ný ríkisstjórn gengið sköruglega til verks. Og það er mikilvægt að fólk átti sig á því að þetta skiptir máli ekki bara fyrir hefðbundna iðnframleiðslu, heldur líka þennan græna iðnað sem er vaxandi og ýmis önnur svið hugverkaiðnaðar. Þannig að það er lykilatriði að þetta verði að veruleika og þarna höldum við vel af spöðunum og þarna hefur Ísland ákveðið forskot og mikla möguleika á stóra sviðinu og þetta erum við mjög meðvituð um.“ 

Númer þrjú er að lyfta aftur fjárfestingu hins opinbera. „Þetta er sérstakt áherslumál hjá mér sem forsætisráðherra og það er nauðsynlegt að við hefjumst handa við að vinna á innviðaskuldinni um land allt. En við þurfum líka að hvetja til aukinna fjárfestinga einkaaðila, þar með talið í innviðum, og við erum að skoða ýmsar leiðir í þeim efnum. Í fjórða lagi þarf að fækka stofnunum og styrkja stjórnsýsluna. Og þetta tvennt getur farið saman og raunar fer mjög oft saman. Og tækifærin hérna eru augljós. En það þarf að vanda til verka. Og ég segi það hérna inni að það skiptir máli hvernig þetta er gert, hvernig er talað um þetta. Og við tölum af virðingu við fólk og um fólk sem sinnir mikilvægum stofnunum hjá hinu opinbera. Stofnunum sem að þjónusta atvinnulífið og iðnaðinn og eru í gríðarlega mikilvægum störfum.“ Hún sagði að það væri líka hægt að ná rosalegum árangri og auknum slagkrafti með sameiningum, samrekstri og sterkari stofnunum. „Og við þurfum að horfa til þess að styrkja stofnanir um landið allt vegna þess að það þarf að skapa ný tækifæri fyrir alla landsmenn. Og þess vegna höfum við lagt sérstaka áherslu á það að ef að það verða til ný tækifæri, nýjar stofnanir, að það sé ekki bara horft á höfuðborgarsvæðið heldur landið allt. Og ég held að það skipti líka máli fyrir iðnaðinn og þá aðila sem hér eru inni.“

Síðast en ekki síst sagði hún að númer fimm væri atvinnustefna fyrir Ísland. „Og hér ætla ég að staldra aðeins við. Vegna þess að ég veit að mótun skýrrar atvinnustefnu skiptir iðnaðinn í landinu miklu máli. Og þetta snýst ekki um að stjórnvöld ætli að stýra öllu eða handvelja hvaða fyrirtæki eða hvaða geirar fái að vaxa eða dafna. Þetta snýst hins vegar um að horfast í augu við það að stjórnvöld hafa mikil áhrif á umgjörð allrar atvinnustefnunnar. Það eru hvatar, það eru ívilnanir í kerfinu en það er líka regluverk sem ræður ofboðslega miklu um hvaða atvinnugreinar það eru sem þrífast best og byggjast hérna upp. Í raun og veru er alltaf verið að reka einhvers konar atvinnustefnu. Spurningin er bara hvort hún sé meðvituð og byggð á einhverri sýn og mati til dæmis á hagsmunum Íslands eða hvort hún er tilfallandi og tekur þá helst miðað við hvað hver á einn ráðherra er að dúlla sér í sínu horni og kannski einhver annar ráðherra að gera eitthvað allt annað.“

Atvinnustefnuráð sem vinni á með ríkisstjórn Íslands

Kristrún varpaði fram nokkrum spurningum til gesta þingsins: Hvernig er skattaumhverfið og regluverkið? Hvernig er framleiðnin að þróast, hvað með álag á innviði, hver á að vera að fylgjast með þessu? Hver á að taka ábyrgð á þessu? Hvernig viljum við beita ívilnunum og hvernig á ríkið að fjárfesta? Erum við að taka nógu á fast á félagslegum undirboðum sem skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja og grafa undan heilbrigðum vinnumarkaði og sátt í samfélaginu? Kristrún sagðist hafa boðað að á þessu ári verði skipað atvinnustefnuráð sem heyri undir forsætisráðherra og vinni með ríkisstjórn Íslands þvert á ráðuneyti, með sérstaka áherslu á sjálfbæran vöxt atvinnugreina, vaxandi framleiðni og vel launuð störf. Því annars væri hvergi verið að leggja mat á þetta á einhvern heildstæðan hátt eða vinna skipulega að stefnumörkun og fylgja henni eftir í framkvæmd.

Ísland ætti að geta gripið tækifærin í gervigreindarkapphlaupinu

Þá sagði hún að flest muna líklega eftir samráðsvettvangi um aukna hagsæld sem skilaði að mörgu leyti góðum árangri. „Og við ætlum líka að líta til erlendra fyrirmynda. En ég mun án efa vafalaust kalla til fólk úr ykkar röðum til að taka þátt í þessari vinnu og ég hlakka til að hefjast standa, því þarna eru gríðarleg tækifæri í auknu samstarfi. Gervigreindarkapphlaupið, eins og Samtök iðnaðarins hafa kallað það, er til dæmis gott dæmi. Ísland ætti klárlega að geta gripið tækifærin þarna því við erum með öflug tækni- og hugverkafyrirtæki. Við erum með vel menntað vinnuafl og við erum með græna orku, til dæmis fyrir gagnaver.“

Kristrún sagði vanta upp á skýra umgjörð og lagaramma og ekki síst vanti afgerandi stefnu stjórnvalda í gervigreindarmálum. „Og þetta krefst allt saman samhæfingar. Við vitum vel að það gengur best þegar iðnaðurinn og hið opinbera stíga þennan leik og spila saman. Og þetta er ástæðan fyrir því að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar kemur þetta fram, að við fjöllum sérstaklega um gervigreindina og við fylgjumst líka með því sem stjórnvöld eru að gera í nágrannaríkjum okkar, eins og til dæmis ítarleg gervigreindaráætlun sem ríkisstjórn Bretlands kynnti nú fyrir skemmstu. Þarna þurfum við bara að setja okkur í gang. Og þetta er til dæmis tilvalið verkefni fyrir atvinnustefnuna þar sem Samtök iðnaðarins geta orðið að liði.“

Mikilvægt að klemmast ekki á milli í tollastríði milli Bandaríkjanna og Evrópu

Kristrún sagði okkur vera flestir vegir færir. „Og þó að ný ríkisstjórn ætli að leiða breytingar, þá vitum við öll að Ísland er frábært land og ég er bjartsýn. Staðan er á marga lund góð. Stýrivextir fara lækkandi og verðbólga hefur ekki verið lægri í fjögur ár. En það eru auðvitað ákveðnar blikur á lofti sem við verðum að horfast í augu við. Og ég er alveg eins og þið, meðvituð um þær sviptingar sem hafa orðið á alþjóðasviðinu síðustu misseri. Við í ríkisstjórninni gerum okkur fulla grein fyrir mikilvægi þess að klemmast ekki á milli í tollastríði á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Við vitum að þetta er risastórt hagsmunamál fyrir atvinnulífið. Óvissan er óþægileg. En það sem skiptir máli núna er að vera í virkum samskiptum við leiðtoga Evrópuríkja, og þessi samskipti hafa sjaldan eða aldrei verið þéttari. Og þá skiptir líka sköpum að halda áfram góðum samskiptum við Bandaríkin.“

Ríkur skilningur á að Evrópa megi ekki skaða viðskiptahagsmuni Íslands

Í máli Kristrúnar kom fram að hún hafi farið mjög víða í umróti síðustu vikna og hið sama ætti við um utanríkisráðherra. Hún nefndi til dæmis mikilvægan fundi í Munchen og Osló á dögunum með kollegum og ýmsu framafólki í stjórnmálum Evrópu. „Og ég get greint frá því hérna. Að á hverjum einasta fundi, með fulltrúa Evrópusambandsríkja, hef ég gætt hagsmuna Íslands sem EES og EFTA ríkis, gagnvart mögulegum aðgerðum í tollamálum. Þar hefur komið fram á öllum þessum fundum ríkur skilningur á að Evrópa megi ekki undir nokkrum kringumstæðum skaða viðskiptahagsmuni Íslands með aðgerðum sem ætlað er að bregðast við tollahækkunum annarra ríkja. Og þessi skilaboð hafa verið skýr.“

Hún sagði að utanríkisráðherra hafi haldið þessum sjónarmiðum til haga jafnframt og Norðmenn væru í sömu stöðu sem hafi einnig komið upp árið 2018, þegar að ESB svaraði Bandaríkjunum með sérstökum tollum á stál sem tóku til allra ríkja óháð viðskiptasamningum. „Og eins og þið vafalaust þekkið hérna inni, þá átti þetta upphaflega líka að leggjast á álið, en þá fengu Ísland og Noregur undanþágu sem er enn þá í gildi. Við munum líka standa föst á því gagnvart Bandaríkjunum að sérstakir tollar frá ESB nái ekki til Íslands. Enda eigum við ofboðslega mikið undir að viðskipti við Bandaríkin séu sem greiðust.“

Þarf að fjárfesta áfram í rannsóknum og þróun

Jafnframt sagði Kristrún að þó við værum lítil þjóð þá höfum við náð aðdáunarverðum árangri. „Eftir þessu hefur verið tekið á alþjóðavísu og þetta á auðvitað við mjög víða í íslenskum iðnaði en til dæmis á sviði hugverkaiðnaðar eru þarna fyrirtæki sem að þið þekkið mæta vel. Kerecis, Össur, Alvotech, fyrirtæki í tölvuleikjaiðnaði og ég gæti auðvitað haldið lengi áfram. Við erum stolt af þessu, hugvitin og fólkinu okkar og við eigum að vera það. Öflugur mannauður, sterkir innviðir og samstarf og traust langtímafjármögnun. Þetta eru einmitt þessar þrjár meginstoðir í stefnu stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar til tíu ára, sem verður lögð núna fram á Alþingi í vor.“ Hún sagði að væru meginstoðirnar til að efla samkeppnishæfni Íslands. „Til að tryggja hana til langtíma, þá þarf auðvitað að fjárfesta áfram í rannsóknum og þróun. Það þarf að þróa endurgreiðslukerfið enn þá frekar til að tryggja fyrirsjáanleika. Það þarf að tryggja sanngirni líka og það þarf að tryggja heilbrigt eftirlit. Eftirlit þannig að fjármagn rati á rétta staði og til að það verði áfram sátt um kerfið sem tryggir þennan fyrirsjánleika sem allir hérna inni vilja sjá.“ 

Gleðilegt að náðist nýlega samkomulag um framtíð og uppbyggingu Tækniskólans

Þá sagði Kristrún að ekki mætti gleyma því að til þess að vera samkeppnishæf þá þurfi við vel menntað fólk. „Við þurfum fólk sem er hæft í störf framtíðarinnar og það felast gríðarleg verðmæti í iðngreinunum okkar sem kalla á fjölbreytta flóru náms fyrir fjölbreytta einstaklinga og fjölbreytt atvinnulíf og samfélag. Þess vegna er mjög gleðilegt að nýlega náðist samkomulag um framtíð og uppbyggingu Tækniskólans. En sá áfangi var auðvitað bara byrjun og nú þarf að fylgja þessu fast á eftir.“

Við erum í harðri samkeppni um fólk

Kristrún sagði að til þess að laða að og halda í þennan mannauð væri lykilatriði að bjóða upp á góð laun og gott vinnuumhverfi á Íslandi. „Það þarf sterka velferð og það þarf gott samfélag. Gerum við það bara með því að lækka skatta, með því að létta álögur, með að framleiða meira eða hangir þetta meira og minna saman á öflugu velferðarkerfi? Við erum auðvitað öll að vilja gerð til að hagræða og fara vel með opinbert fjármagn. Ég held að það hljóti allir að átta sig á því. En við erum líka í harðri samkeppni um fólk. Harðduglegt, sprenglært ungt fólk sem ætlar sér stóra hluti á vinnumarkaði, erlenda sérfræðinga og ég ítreka að við viljum auðvitað bjóða upp á há laun. Við viljum eftirsóknarverð störf, við viljum aukna framleiðni, en við þurfum ekki síður að skapa hérna samfélag sem fólk vill búa í. Gott samfélag fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Þess vegna þarf að stækka kökuna og styrkja velferðina.“

Óvissutímar en líka spennandi tímar

Í lokaorðum sínum sagði Kristrún að það væru uppi óvissutímar. „Við vitum það öll. En þetta eru líka spennandi tímar. Þetta eru tímar hugvits, þróunar og tækifæra og þannig horfum við líka á það, þó við séum fullar ábyrgðar og við megum ekki missa sjónar af því. Og þess vegna legg ég áherslu á að við fetum þessar brautir samstíga. Þannig gerum við þetta best, öll saman. Þannig að ég vil bara segja takk fyrir mig og til hamingju með Iðnþingið og góða skemmtun í dag.“

Si_idnthing_2025-11

Si_idnthing_2025-15

Hér er hægt að nálgast upptöku af ávarpi forsætisráðherra á Iðnþingi 2025:

https://vimeo.com/1063493226