Fréttasafn



8. jún. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Iðnaðurinn með 44% af 332 tillögum um samdrátt í losun

Fulltrúar ellefu atvinnugreina afhentu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi sem fór fram í Hörpu í gær í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins. Af 332 tillögum eru 44% þeirra eða 146 tillögur komnar frá iðnaðinum; 74 tillögur í mannvirkjaiðnaði, 44 tillögur í áliðnaði og 28 tillögur í kísiliðnaði.

Í tilkynningu segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt — stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til að halda verkefninu áfram.”

Samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins eru samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Í tilkynningunni kemur fram að Ísland hafi sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hafi lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skipti sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg séu til að sett markmið náist. Enn fremur sé aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varði regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti. Í því skyni hafi verið ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á legg, en markmið verkefnisins sé að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum sé að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið sé frammi fyrir.

Rauður þráður í kynningu vegvísa á Grænþingi

Á Grænþingi í Hörpu í gær kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var:

  • Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku
  • Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda
  • Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni
  • Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu
  • Nýsköpun og rannsóknir
  • Bætt hringrás

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa, sem hafa margir hverjir mælanleg markmið. Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tók við 332 tillögum atvinnulífsins á Grænþingi sem fór fram í Hörpu í gær. Fulltrúarnir sem kynntu og afhentu loftslagsvegvísana eru, talið frá vinstri, Gylfi Gíslason - mannvirkjagerð, Katrín Georgsdóttir - farþegasiglingar, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir - fjármálafyrirtæki, Steinunn Dögg Steinsen - álframleiðsla, Álfheiður Ágústsdóttir - kísilver, Ólafur Marteinsson - sjávarútvegur, Jens Garðar Helgason - fiskeldi, Kristín Linda Árnadóttir - orka og veitur, Heiða Njóla Guðbrandsdóttir - flug, Birgir Guðmundsson - ferðaþjónusta og Egill Jóhannsson - vegasamgöngur.