Fréttasafn11. jan. 2021 Almennar fréttir

Iðnaðurinn sýnir styrk sinn við krefjandi aðstæður

Árni Sigurjónsson, formaður SI, segir í rafrænu bréfi til félagsmanna Samtaka iðnaðarins að það hafi verið aðdáunarvert að sjá hvernig félagsmenn hafa náð að halda uppi sköpun verðmæta við einstaklega erfiðar og krefjandi aðstæður. Á undraskömmum tíma hafi fyrirtækjum tekist að umbylta starfsemi sinni til að takast á við breyttan veruleika, veruleika sóttvarna og samkomutakmarkana. Með heimavinnu, fjarfundum, breytingum á rýmum, hólfaskiptingum í framleiðslu og öðru því sem til þurfti hafi tekist í meginatriðum að halda uppi starfsemi. Hann segir að eftir síðasta efnahagsáfall hafi iðnaður veitt viðspyrnu umfram umfang sitt og það geti hann svo sannarlega gert nú ef rétt er á málum haldið.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa bréf formannsins í heild sinni: 

Kæru félagar,

Ég þakka ykkur fyrir samfylgdina og samstarfið á árinu 2020 og óska ykkur öllum gleði, farsældar og góðrar heilsu á nýju ári.

Í upphafi nýs árs er til siðs að líta um öxl og gera upp hið liðna. Það gerir okkur betur í stakk búin að draga lærdóm af því sem liðið er, stilla af væntingar um framhaldið og setja okkur raunhæf framtíðarmarkmið. Á þeim grunni langar mig með nokkrum orðum til ykkar að stikla á stóru í starfi og helstu áherslumálum Samtaka iðnaðarins á árinu sem er nú er liðið. Af mörgu er að taka enda starfsemi Samtaka iðnaðarins umfangsmikil og fjölþætt.

Blikur á lofti en bjartsýni í upphafi árs

Mér er í fersku minni þær vonir sem bundnar voru við árið 2020 eftir róstursamt og krefjandi ár 2019, bæði í atvinnulífi og veðurfari. Erfið, langvinn og býsna hörð samningalota á vinnumarkaði leiddi til undirritunar Lífskjarasamnings í apríl 2019 en eftir eitt lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hér á landi var kólnun hagkerfisins engu að síður farin að gera áþreifanlega vart við sig. Eitt versta óveður til fjölda ára reið yfir landið í byrjun desember 2019 og varpaði enn og aftur ljósi á viðkvæma stöðu innviða landsins.

Það er því óhætt að segja að blikur hafi verið á lofti en þrátt fyrir það héldum við bjartsýn af stað inn í nýja árið. Væntingar um mjúka lendingu hagkerfisins fengu þó skjótan enda þegar Covid-19 veiran gerði strandhögg hérlendis í lok febrúar. Versta efnahagskreppa í rúma öld skók Ísland og heimsbyggðina alla – og gerir enn. Öllum fyrri áætlunum var vikið til hliðar og við tók björgunarstarf í kappi við tímann.

Iðnaður sýnir styrk sinn við krefjandi aðstæður

Það hefur verið aðdáunarvert að sjá hvernig félagsmenn hafa náð að halda uppi sköpun verðmæta við einstaklega erfiðar og krefjandi aðstæður. Á undraskömmum tíma tókst fyrirtækjum að umbylta starfsemi sinni til að takast á við breyttan veruleika, veruleika sóttvarna og samkomutakmarkana. Með heimavinnu, fjarfundum, breytingum á rýmum, hólfaskiptingum í framleiðslu og öðru því sem til þurfti tókst í meginatriðum að halda uppi starfsemi. Eftir síðasta efnahagsáfall veitti iðnaður viðspyrnu umfram umfang sitt og það getur hann svo sannarlega gert nú ef rétt er á málum haldið.

Markvissar aðgerðir í efnahagskreppu – verjum og sköpum störf

Samtök iðnaðarins létu ekki sitt eftir liggja í vinnu varðandi nauðsynlegar aðgerðir sem svar við kreppunni, sendu stjórnvöldum skýr skilaboð og létu þeim í té vel ígrundaðar tillögur, sem margar hverjar hafa komið til framkvæmda og haft jákvæð áhrif á krefjandi tímum. Má þar nefna lækkun tryggingagjalds, átakið Allir vinna, aukin framlög til Tækniþróunarsjóðs, auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar, auknir fjármunir til iðn- og starfsnáms, stóraukin framlög til innviðauppbyggingar og aukning á öðrum opinberum framkvæmdum. Lágar skuldir hins opinbera og ábyrg hagstjórn síðustu ára gerðu það að verkum að við vorum í kjörstöðu fyrir niðursveifluna og í mun betri stöðu en flest önnur ríki til að bregðast við ástandinu.

Forgangsröðunin skiptir einnig miklu máli í aðgerðum stjórnvalda. Þar höfum við verið ánægð með áherslur á nýsköpun, innviði, menntun og aðgerðir á sviði starfsumhverfis. Um er að ræða aðgerðir sem ættu að skapa góða viðspyrnu fyrir hagkerfið þegar við náum vopnum okkar á ný – auka verðmætasköpun og skapa störf, sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Þá skulu árangursríkar aðgerðir Seðlabanka Íslands ekki undanskildar en markvissar vaxtalækkanir hafa dregið úr áhrifum samdráttar í framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði, sem verður engu að síður að teljast verulegur.

Á tímabili leit út fyrir mun verri efnahagsskell árið 2020 en raunin varð en á móti kemur að viðspyrnan verður ekki eins hröð og vonir stóðu til. Sagan kennir okkur þó að farsóttir eru tímabundið ástand og samfélög og hagkerfi rísa jafnan upp að loknu slíku tímabili með kröftugum hætti. Hið litla og fremur einsleita íslenska hagkerfi er viðkvæmara en flest önnur fyrir þeim miklu áföllum sem átt hafa sér stað á árinu.

Af sömu rótum getum við vænst þess að viðspyrnan kunni af þessum sökum að verða hraðari á Íslandi en víða annars staðar þegar veiran gefur eftir og við náum aftur vopnum okkar. Þá eru bólusetningar til varnar veirunni að hefjast sem gefa góð fyrirheit um framhaldið. Þó það glitti í ljósið við enda ganganna, skulum við engu að síður stilla væntingum í hóf um skjótan viðsnúning. Allt hefur sinn tíma, þó öll séum við orðin óþreyjufull og langþreytt á stöðunni. En teiknin eru sannarlega jákvæð, höldum áfram einbeitingunni og þá mun okkur farnast vel.

Ár nýsköpunar – mjór er mikils vísir

Í janúar tilkynntum við að árið 2020 yrði helgað nýsköpun hjá Samtökum iðnaðarins. Þrátt fyrir að efnahagskreppan hafi vegið þungt í okkar verkefnum og hefðbundin starfsemi riðlast vegna samkomu­takmarkana, höfum við verið einbeitt í því að halda á lofti með ýmsum hætti merkjum nýsköpunar og mikilvægi hennar fyrir framtíð Íslands. Glæsilegt tímarit helgað nýsköpun kom út í júní þar sem finna má viðtöl við fjölmarga félagsmenn úr fjölbreyttum geirum atvinnulífsins sem hafa látið til sín taka á vettvangi nýsköpunar. Þá var Iðnþing, sem við frestuðum frá mars til september vegna samkomutakmarkana, tileinkað nýsköpun. Ári nýsköpunar var svo formlega lokað um miðjan desember með gerð myndbands til að undirstrika þau skilaboð sem við höfum sent frá okkur á árinu og útskýra mikilvægi viðfangsefnisins. Þessu til viðbótar var efnt til fjölmargra viðburða þar sem nýsköpun var gerð skil í öllum sínum fjölbreytileika.

Markverður árangur hefur náðst í nýsköpunarmálum á árinu. Segja má að vitundarvakning hafi orðið um mikilvægi nýsköpunar, umræðan hefur aukist og starfsumhverfið hefur tekið stakkaskiptum þar sem áherslur SI og félagsmanna okkar hafa hlotið hljómgrunn hjá stjórnvöldum og á Alþingi. Stórstígar framfarir hafa orðið á umgjörð nýsköpunar með hækkun á endurgreiðsluhlutfalli og þaki rannsókna og þróunarkostnaðar, hækkun á framlögum í Tækniþróunarsjóð og öðrum umbótum. Stjórnvöld hafa þannig greitt leið nýsköpunar með breytingum á regluverkinu, styrkjum, hvötum og frádráttarheimildum. Áhrifarík nýsköpunarstefna snýst ekki bara um það að búa til efnilega sprota heldur þarf að búa þannig um hnútana að nýsköpun sé hluti af daglegum rekstri sem flestra rótgróinna fyrirtækja.

Þessar breytingar munu bera ávöxt á skömmum tíma og styrkja hugverkaiðnað sem fjórðu stoðina í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, sem er grunnur að auknum stöðugleika og hagvexti til framtíðar. Samkvæmt greiningu SI sem birt var í byrjun desember aflaði fjórða stoðin um 15% af heildargjaldeyristekjum landsins á liðnu ári og var greinin líklega sú þriðja stærsta í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins á eftir sjávarútvegi og ál- og kísiljárnframleiðslu.

Átök á vinnumarkaði

Í ljósi þess efnahagsáfalls sem við stóðum óvænt frammi fyrir á fyrsta ársfjórðungi leituðu Samtök atvinnulífsins og önnur samtök atvinnurekenda eftir samtali í mars og apríl við ASÍ og viðsemjendur á vinnumarkaði um ýmsar leiðir til breytinga á Lífskjarasamningnum og þeim tímasettu launahækkunum sem hann kveður á um, með það fyrir augum að verja störf. Ljóst væri að forsendur slíkra hækkana væru brostnar og svigrúmið sem áætlað var að myndi skapast á samningstímanum væri horfið og miklu meira en það. Skemmst er frá því að segja að öllum slíkum hugmyndum var hafnað af hálfu verkalýðsforystunnar og kusu þau þannig fremur að standa vörð um samningsbundnar hækkanir en að vernda störf sinna umbjóðenda.

Þessi staða leiddi til þess að fram fór á haustmánuðum ítarleg umræða innan stjórnar og framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins, í nánu samráði við atvinnurekendur um land allt, hvort segja ætti Lífskjarasamningnum upp á grundvelli forsendubrests. Hugmyndum SA um frestun launahækkana og lengingu kjarasamnings sem frestuninni nam, tímabundna lækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði og tímabundna frestun á endurskoðun kjarasamningsins var enn og aftur öllum hafnað umræðulaust.

Sú staða þvingaði Samtök atvinnulífsins til að leita samstarfs við stjórnvöld um mótun sameiginlegra viðbragða við gerbreyttri stöðu atvinnulífsins frá því þegar Lífskjarasamningurinn var undirritaður. Brugðust stjórnvöld skjótt við þessari erfiðu stöðu og kynntu aðgerðir í átta liðum sem að umfangi nema 25 milljörðum króna, til þess að koma til móts við íslenskt atvinnulíf – og um leið störf hér á landi – vegna áhrifa kórónukreppunnar. Á grundvelli þessa var það samhljóða ákvörðun framkvæmdastjórnar SA að Lífskjarasamningurinn gilti áfram, þó ljóst sé að þær launahækkanir sem komu til framkvæmda nú um áramótin veiki stöðu atvinnulífsins og mörg fyrirtæki þurfi að bregðast við þeim kostnaði.

Sátt á vinnumarkaði er afar mikilvæg, ekki síst á krepputímum, og því hafa samskipti við forystu launþegahreyfingarinnar og viðbragðsleysi þeirra valdið miklum vonbrigðum á árinu. Því fer fjarri að nú ríki sátt en með ákvörðun sinni um að kjarasamningur héldi gildi sínu öxluðu SA og stjórnvöld sameiginlega ábyrgð og sýndu vilja sinn í verki til þess að leiða samfélagið í gegnum kreppuna. Sáttin umtalaða verður hins vegar ekki keypt á hvaða verði sem er og áfram má því búast við átökum á vinnumarkaði.

Aukin áhersla á umbætur í menntamálum og byggingu nýs Tækniskóla

Á grundvelli menntastefnu Samtaka iðnaðarins sem gefin var út árið 2018, höfum við unnið hörðum höndum á liðnu ári við að knýja á um mikilvægar umbætur í menntamálum. Þar hefur fókusinn einkum verið á iðn-, starfs- og tækninámi auk svokallaðra STEM-greina á háskólastigi, en atvinnulífið kallar stöðugt eftir aukinni tækni- og verkþekkingu til að mæta færniþörf á hverjum tíma. Við höfum átt afar gott samstarf við mennta- og menningarmálaráðherra sem hefur sýnt vilja sinn í verki við að gera iðn- og starfsnám hærra undir höfði og jafna stöðu þess við bóknám.

Þá eru drög að reglugerð um vinnustaðanám komin fram, en um er að ræða eitt mesta framfaramál í lengri tíma sem rímar við hugmyndir meistaradeildar SI allar götur frá 2014 sem og við samstarfsyfirlýsingu menntamálaráðuneytis, SI og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirrituð var á vormánuðum 2020. Breytingar lúta að því að auka öryggi nemenda um námslok með svokallaðri skólaleið sem og að miða við hæfni hvers og eins frekar en tímalengd samnings. Það verður spennandi að sjá hversu fljótt þær kerfis- og reglubreytingar sem farið hefur verið í á liðnu ári og þær sem eru nú þegar í farvatninu muni bera ávöxt.

Þá höfum við lagt þunga áherslu á að ráðist verði tafarlaust í byggingu nýs Tækniskóla þar sem núverandi aðbúnaður skólans stendur iðn-, verk- og starfsnámi fyrir þrifum og skortir jafnframt nauðsynlegan sveigjanleika fyrir námskröfur framtíðarinnar. Mikill vilji er til aðgerða af hálfu ríkis og sveitarfélaga sem gefur okkur væntingar um jákvæða niðurstöðu áður en langt um líður.

Nám í jarðvirkjun verður loks að veruleika en það er samstarfsverkefni Félags vinnuvélaeigenda, Tækniskólans, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Samtaka iðnaðarins. Framfarasjóður iðnaðarins styrkti verkefnið. Fram til þessa hefur ekkert formlegt nám verið í boði fyrir fólk sem starfar hjá jarðverktökum m.a. við landmótun, mokstur, efnisflutning, jarðlagnavinnu, vegagerð o.fl. Þetta er framfaramál fyrir mannvirkjagerð á Íslandi, ekki síst varðandi nýliðun í greinina, aukin gæði, öryggi og aukna skilvirkni.

Sjálfbært Ísland, Íslenskt gjörið svo vel og Láttu það ganga

Kórónuveirufaraldurinn varpaði ljósi á mikilvægi þess að við Íslendingar séum eins sjálfbær í framleiðslu og unnt er, einkum í matvælum. Til viðbótar við innlenda framleiðslu treystum við á innflutt aðföng og hráefni en þegar aðfangakeðjur rofna líkt og gerðist á árinu vandast málið. Mikil tækifæri liggja í íslenskum framleiðsluiðnaði og vitund landsmanna um mikilvægi þess að styðja við innlenda framleiðslu hefur sjaldan verið meiri. Átaksverkefnin Íslenskt gjörið svo vel og Láttu það ganga hafa verið áberandi og undirstrika þau mikilvægu skilaboð okkar að stuðningur við innlenda framleiðslu skapi störf og verðmæti fyrir samfélagið allt. Þá kynntu stjórnvöld á dögunum nýja matvælastefnu fyrir Ísland sem er fagnaðarefni og skipuðu Samtök iðnaðarins sinn fulltrúa í hópinn sem vann stefnuna.

Byggingariðnaður – skýrsla OECD

Stór hagsmunamál er varða byggingariðnaðinn hafa náð fram að ganga á árinu. Einna stærst þeirra eru breytingar á mannvirkjalögum er lúta að eftirliti og flokkun mannvirkja. Þetta er mikið framfaramál sem unnið hefur verið að lengi og ötullega, bæði á vettvangi SI og Byggingavettvangsins. Þetta er veigamikið skref í átt að umbótum á starfsumhverfi byggingariðnaðar og verða fleiri slík stigin á næstu mánuðum.

Þá vakti skýrsla OECD um samkeppnishindranir í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, sem kynnt var í nóvember 2020, mikla athygli. Í skýrslunni gerði OECD alls 316 tillögur til úrbóta á lögum og reglugerðum í byggingariðnaði með það að markmiði að afnema meintar samkeppnishindranir eða einfaldlega óþarfa reglubyrði, s.s. gjaldtöku sveitarfélaga, skipulagsmál, útgáfu leyfa og tímafresta. Margt í skýrslunni rímar vel við málflutning Samtaka iðnaðarins síðustu árin, sem ber að fagna, með þeirri undantekningu þó að í fyrirkomulagi meistarakerfisins felist samkeppnishindranir en þar erum við algerlega ósammála OECD. Þeim sjónarmiðum hefur verið komið rækilega til skila og náið samráð haft við meistarafélögin um hvaða skref skuli stíga í málinu. Með breytingum menntamálaráðherra á verknámi eru nemendum tryggð námslok að því gefnu að þeir uppfylli kröfur. Þar með verður ekki séð að sjónarmið OECD um samkeppnishindranir eigi við.

Orkumál í brennidepli

Frá því að SI kynnti skýrslu sína Íslensk raforka – Ávinningur og samkeppnishæfni síðla árs 2019 hafa orkumál verið í brennidepli. Fundað hefur verið reglulega með stjórnvöldum, stofnunum og hagsmunaaðilum varðandi áherslur og sjónarmið SI um samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar og raforkumál, sem hefur borið árangur. Í október kynnti iðnaðarráðherra langtíma orkustefnu fyrir Ísland, þá fyrstu sem unnin er með þessum hætti, undir yfirskriftinni „Orkustefna til ársins 2050: Sjálfbær orkuframtíð“, þar sem tekið er undir fjölmörg áherslumál okkar í þeim efnum. Ljóst er að raforkumál munu halda áfram að verða í brennidepli, enda mikið hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf og fjölskyldur í landinu að samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar verði ekki skert.

Umhverfis- og loftslagsmál

Unnið hefur verið ötullega að umhverfis- og loftslagsmálum á árinu, einkum innan Grænvangs sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Umhverfis- og loftslagsmál hafa fengið aukið vægi undanfarin ár. Auknar kröfur eru gerðar til fyrirtækja og gjaldtaka hefur aukist. Í loftslagsmálum felast bæði áskoranir og tækifæri fyrir fyrirtæki.

Breytt hugsun neytenda og auknar kröfur hins opinbera kalla á breytingar á ferlum og notkun ýmissa efna, svo dæmi séu tekin. Þessi þróun er hafin og sem dæmi má nefna að losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn af áli er nú 75% minna en það var í kringum árið 1990. Með rafvæðingu og uppbyggingu hitaveitna á síðustu öld nýtum við endurnýjanlega orku og höfum byggt upp einstaka þekkingu á því sviði. Þá hafa íslensk fyrirtæki þróað grænar lausnir sem nýtast við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þessi þekking og þróun lausna geta hjálpað öðrum ríkjum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum. Af þeirri ástæðu var Grænvangur stofnaður – til að kynna íslensk fyrirtæki á þessu sviði erlendis. Þá hafa verið lögð drög að loftslagsáætlun atvinnulífsins, sem vænta má að fái frekari kynningu fljótlega á þessu ári. Atvinnulífið lætur sitt ekki eftir liggja í þessum málum – það hefur bæði metnað og vilja til að gera betur og meira.

Verkefnin framundan

Eins og ég vék að í ræðu minni á Iðnþingi í september, hefur það ekki farið hátt að iðnaður lagði afar mikið af mörkum til endurreisnar á liðnum áratug eftir síðustu kreppu. Umfang iðnaðar er mikið. Eitt af hverjum fimm störfum er í iðnaði, íslenskur iðnaður skapar ríflega fimmtung landsframleiðslunnar með beinum hætti og 40% til útflutnings. Þriðjungur vaxtar eftir hrun átti sér stað í iðnaði. Íslenskur iðnaður lagði þannig meira til endurreisnarinnar heldur en stærð hans gaf til kynna og iðnaðurinn getur á enn kröftugri hátt verið drifkraftur viðspyrnu hagkerfisins nú.

Á þessu kosningaári, sem reikna má með að verði viðburðaríkt, munum við – stjórn og starfsfólk Samtaka iðnaðarins – leggja okkur fram um að gæta áfram hagsmuna íslensks iðnaðar í hvívetna. Verkefni þjóðmálanna og atvinnulífsins eru ekki árennileg nú um stundir en það glittir í viðspyrnu og endurreisn úr þessari miklu kreppu. Því göngum við áfram bjartsýn til verka, fullviss um að þær áherslur og hugmyndir sem við leggjum af mörkum muni hljóta brautargengi.