Fréttasafn5. des. 2017 Almennar fréttir Menntun

Iðnnám orðið hornreka í skólakerfinu

„Okkur sárvantar iðnmenntað fólk. Þarna hefur sprungið í andlitið á okkur það viðhorf sem margir hafa til iðnnáms. Ráðamenn hafa talað um það oft og mikið á tyllidögum að það þurfi fleiri að velja sér iðnnám, fleira ungt fólk þurfi að fara í þessar greinar. En fyrir mér er þetta bara meira í orði en á borði. Það þarf að koma til viðhorfsbreyting. Ég held að það sem hefur gerst síðustu áratugina á Íslandi og ég ætla bara að leyfa mér að segja það að við höfum farið að snobba fyrir bóknámi á kostnað iðnnáms þannig að iðnnám má segja að sé orðið hornreka í skólakerfinu. Það þykir óæðra bóknámi.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. 

Hún segir að hvert einasta samfélag þurfi á vel menntuðu fólki að halda á öllum sviðum. „Ég geri engan greinarmun á fólki sem hefur valið sér iðnnám eða fólki sem hefur farið í gegnum hefðbundið langskólanám, bóknám í háskóla.“

Þegar þáttastjórnendur spyrja Guðrúnu hvort þurfi að stýra menntun þjóðarinnar að einhverju leyti svarar hún því til að auðvitað eigi fólk að velja sér nám eftir sínu áhugasviði fyrst og fremst því þá gangi manni vel í náminu og að fólk fái meiri lífsfyllingu. „Það er einmitt svo átakanlegt að unga fólkið okkar í grunnskóla hefur mjög jákvætt viðhorf til verklegra greina í grunnskólanum, svo sem eins og smíði, matreiðslu, handavinnu og svoleiðis. Þegar þau standa svo frammi fyrir valinu nokkrum mánuðum seinna þá velja þau ekki að fara í þessa átt heldur velja þau að fara hefðbundna stúdentsleið. Það segir manni þá líka að stór hluti ungs fólks er ekki að velja eftir sínu áhugasviði og fer þá kannski námsleið sem mun í fyllingu tímans ekki valda lífsfyllingu.“

En hvað ræður þessu? „Skólakerfið og samfélagið hefur ýtt ungu fólki í bóknám með því að líta á iðnnám sem eitthvað óæðra námi. Það vill enginn vera í óæðri námi heldur en einhver annar. Við höfum leyft okkur það að það sé einhvern veginn miklu æðra að setja upp hvítan koll þegar maður er tvítugur heldur en iðnnámskollinn.“

Guðrún segir jafnframt í viðtalinu að það sé mjög víða í samfélaginu sem þurfi viðhorfsbreytingu. „Þegar þú ætlar að breyta viðhorfi heillar þjóðar þá tekur það langan tíma. Mig langar að benda á það að félagsvísindadeild Háskóla Íslands gerði mjög viðamikla rannsókn á árganginum sem er fæddur 1975 og þar kemur í ljós að helmingur þess árgangs hefur lokið stúdentsprófi og 6% af þeim árgangi lauk iðnnámi. Við gætum heimfært þessar tölur yfir miklu fleiri árganga en bara þá sem eru fæddir 1975. Þetta er í hrópandi ósamræmi við flestar Evrópuþjóðir sem við erum að bera okkur saman við hvort sem það er í Skandinavíu eða meginlandinu þar sem um eða yfir 50% árganga er að velja starfsnám eða iðnnám.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Guðrúnu í heild sinni í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.