Fréttasafn



21. nóv. 2017 Almennar fréttir Menntun

Iðnnema vísað úr landi því iðnnám er ekki nám í skilningi laga

Miðað við breytingar sem voru gerðar á útlendingalögunum í fyrra þá stendur iðnnám ekki jafnfætis háskólanámi. Á hátíðis- og tyllidögum þá tala ráðamenn um það að það eigi að efla iðnnám og starfsnám í landinu en svo þegar á reynir þá fara svona breytingar í gegnum Alþingi án nokkurs mótatkvæðis. Þannig að það er í raun verið að vísa nemendunum úr landi þar sem iðnnám telst ekki vera nám í skilningi þessara laga. Það er eingöngu háskólanám sem telst vera nám. Þannig að ef að þessi tiltekni nemandi væri í háskólanámi þá fengi hann dvalarleyfi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í útvarpsþættinum Í bítínu á Bylgjunni í morgun hjá þáttastjórnendunum Heimi Karlssyni og Gunnlaugi Helgasyni. Tilefni viðtalsins er ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja ungum iðnnema um dvalarleyfi hér á landi. Um áramótin tók gildi lagabreyting sem gerir iðnnemum ekki kleift að fá dvalarleyfi á meðan þeir stunda nám hér, einungis þeir sem eru í háskólanámi fá dvalarleyfi.

Eigum að taka því fagnandi ef ungmenni frá öðrum löndum vilja læra iðnir hér

„Staðan hjá okkur er auðvitað sú að það er mikill skortur á iðnmenntuðu fólki í landinu og við eigum auðvitað að taka því fagnandi ef ungmenni frá öðrum löndum vilja læra iðnir hér hjá okkur. Það er mikil vinna sem bíður iðnnema að námi loknu og það er mikil eftirspurn eftir fólki með iðnmenntun. Iðnmenntaðir skapa svo sannarlega mikil verðmæti hér í samfélaginu.“ 

Sigurður segir að þetta birtist þannig að þetta sé enn eitt dæmið um sinnuleysi í garð iðnnáms. Hann segist halda að allir séu sammála að það séu mistök með þessi tilteknu lög en þetta sé engu að síður birtingamynd þess hvernig litið er á iðnnám meðal ráðamanna. Hann segir að ekki einn þingmaður hafi greitt atkvæði gegn þessari breytingu og að það sé hugsunarleysi.

Vonar að þetta sé meðal þess sem rætt er á maraþonfundunum í ráðherrabústaðnum

Sigurður segir í viðtalinu að það þurfi viðhorfsbreytingu. „Slíkar breytingar taka tíma og þær þurfa að eiga sér stað víða í samfélaginu en ráðamenn ættu auðvitað að fara fremstir í flokki og hampa iðnmenntun. Ég vona það svo sannarlega að á þeim maraþonfundum sem nú eiga sér stað þessa dagana í ráðherrabústaðnum að þá sé þetta meðal þess sem þar er rætt.“

Hann segir að það sé umhugsunarefni að þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna að hér hafi átt sér stað mistök að þá tekur kerfið þá ákvörðun að vísa iðnnemanum úr landi engu að síður. 

Miklu færri sem skrá sig í iðn- og starfsnám hér á landi en í Evrópu

Sigurður segir að í samanburði við ríki Evrópusambandsins séu miklu færri sem skrá sig í iðn- og starfsnám að loknum grunnskóla hér á landi heldur en þar. Þar er um helmingur nemenda sem skráir sig í iðn- og starfsnám á móti 14% hér. „Það er alveg himinn og haf á milli þess hvernig staðan er hér á landi og annar staðar. Þó að viðhorfsbreyting sé nauðsynleg þá nægir hún auðvitað ekki ein og sér til að efla iðnnámið vegna þess að iðnnám og verknám er dýrara heldur en bóknám, svoleiðis að það þarf fjármagn líka. Ríkisvaldið þarf að setja meiri peninga í iðnnámið.“

Aðspurður um hvernig framtíðin er með útskrifaða iðnnema? „Ég vona svo sannarlega að hún sé björt. Við höfum auðvitað verið að vinna að ímyndarbreytingum í Samtökum iðnaðarins. Við höfum líka verið að vinna í góðu samstarfi við ríkið að ákveðnum kerfisbreytingum til að bæta námið. Til þess að gera það einfaldara að vera í náminu og að framgangurinn sé eðlilegri. Þá er ég til dæmis að hugsa um að þegar nemandi skráir sig í nám að hann hafi meiri tryggingu fyrir því að hann eigi að geta klárað, komist á samning og annað.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið á Bylgjunni í heild sinni.