Fréttasafn



1. júl. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Innhýsing hjá hinu opinbera heftir vöxt verkfræðistofa

Í nýrri greiningu SI kemur fram að innhýsing verkefna hjá hinu opinbera hefur dregið úr vexti verkfræðistofa á síðustu 12 mánuðum. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra verkfræðistofa. Niðurstöður könnunarinnar benda einnig til þess að framboð af sérmenntuðu vinnuafli verði takmarkandi þáttur fyrir vöxt fyrirtækja í greininni litið til næstu 12 mánaða. Af niðurstöðum könnunarinnar er hægt að draga þá ályktun að hægja muni á vexti í greininni á næstunni en velta og starfsmannafjöldi hefur verið vaxandi í greininni í um eitt og hálft ár.

Starfsemi verkfræðistofa er mikilvægur hluti af hugverkaiðnaði hér á landi en greinin byggir fyrst og fremst á því að virkja hugvit sérmenntaðs vinnuafls til sköpunar verðmæta í fjölbreyttum verkefnum á innlendum og erlendum vettvangi. Heildarveltan í greininni var tæplega 40 ma.kr. á síðustu tólf mánuðum og er heildarfjöldi starfandi í greininni ríflega 1.900.

Samantekt

  • Stjórnendur verkfræðistofanna eru spurðir að því hvort þeir telji að framboð af sérmenntuðu vinnuafli verði takmarkandi þáttur fyrir vöxt fyrirtækisins litið til næstu 12 mánaða. 75% eða þrír af hverjum fjórum svara því játandi. Nei segja ekki nema ríflega 8%. Benda niðurstöðurnar til þess að án aðgerða stjórnvalda muni skortur á sérmenntuðu vinnuafli í greininni standa í vegi fyrir vexti verkfræðistofa litið til næstu missera.
  • Stjórnendur verkfræðistofanna eru spurðir að því hvort þeir telji að innhýsing verkefna hjá hinu opinbera hafi dregið úr vexti fyrirtækisins þeirra á síðustu 12 mánuðum. Niðurstaðan er sú að innhýsingin hefur heft vöxt fyrirtækja sem standa að baki 83% af veltu allra þeirra fyrirtækja sem svara. Ríflega 12% svöruðu nei. Af þessu má ljóst vera að innhýsingar hins opinbera hafa haft víðtæk áhrif á vöxt verkfræðistofanna en innhýsingin dregur úr verðmætasköpun einkageirans bæði á innlendum og erlendum vettvangi og er mjög neikvæður þáttur fyrir nýsköpun og samkeppnishæfni greinarinnar.
  • Aukinn vöxtur hefur verið í veltu verkfræðistofa undanfarið en veltan í greininni byrjaði að taka við sér undir lok árs 2020. Stjórnendur verkfræðistofanna gera ráð fyrir því að á næstunni muni hægja á vextinum frá því sem verið hefur. Velta verkfræðistofanna jókst um 9,4% á síðasta ári frá fyrra ári. Í könnuninni eru stjórnendur verkfræðistofanna spurðir að því hver velta þeirra fyrirtækja hefði verið á síðustu 12 mánuðum og hver hún væri áætluð á næstu 12 mánuðum. Niðurstaðan er sú að stjórnendurnir áætla 3,5% veltuvöxt milli tímabilanna.
  • Hjá verkfræðistofum landsins starfa ríflega 1.900 manns. Starfsmannafjöldinn hefur farið vaxandi frá því í upphafi síðastliðins árs. Nemur vöxturinn á milli ára nær 11%. Stjórnendur fyrirtækjanna gera ráð fyrir að starfsmannafjöldi þeirra fyrirtækja muni fjölga um 5,7% á næstu 12 mánuðum. Af þessu má dæma að áframhaldandi vöxtur verði hjá verkfræðistofunum en að hægja mun á vextinum frá því sem verið hefur. Gangi þetta eftir og ef þessi vaxtatala er heimfærð upp á greinina í heild verður starfsmannafjöldi hennar orðin yfir 2 þúsund að ári liðnu.
  • Stjórnendur verkfræðistofanna eru spurðir að því til hve langs tíma þau verkefni sem eru í hendi hjá fyrirtækinu duga m.v. núverandi starfsmannafjölda. Svörin eru veltuvegin og niðurstaðan sú að verkefnin duga í tæplega 5½ mánuð. Viðmið í rekstri sem þessum er að fyrirtæki þurfi að vera með verkefni til næstu 5 mánaða. Niðurstaðan sýnir því að rekstur verkfræðistofanna stendur nokkuð vel út frá þessu viðmiði.

Verkfraedistofur

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.