Innviðagjald Reykjarvíkurborgar hækkar byggingarkostnað
„Þegar horft er til þróunar á skatttekjum Reykjavíkurborgar á hvern íbúa á árabilinu 2002 til 2016 kemur í ljós að þær voru í sögulegum hæðum á árinu 2016, á verðlagi dagsins í dag. Útsvarstekjur á mann höfðu þá aldrei verið hærri. Líklegt er að þær hafi hækkað enn frekar milli áranna 2016 og 2017,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu í dag í frétt Baldurs Arnarssonar, blaðamanns.
Tilefni fréttarinnar er sú stefnumörkun borgaryfirvalda að innheimta innviðagjald þar sem byggðin er þétt og þar sem borgin hyggst fyrst og fremst byggja upp á slíkum svæðum næstu ár muni innviðagjaldið leggjast á hátt hlutfall nýrra íbúða. Nýir íbúar geti því átt von á að innviðagjaldið komi til viðbótar útsvarinu.
Sigurður segir þessa gjaldtöku bætast við miklar skatttekjur sveitarfélagsins. „Í samanburði við önnur sveitarfélög er Reykjavík með háar tekjur af hverjum íbúa en samanburður yfir tíma sýnir að flest sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins voru með sögulega háar tekjur af íbúum á árinu 2016. Það skýtur því skökku við að Reykjavíkurborg bæti við innviðagjaldi sem jafnvel finnst ekki lagastoð fyrir, sem á síðan að standa undir borgarlínu sem allir íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa hag af. Ef af þeirri framkvæmd verður verður hún væntanlega fjármögnuð af öllum sveitarfélögum og ríkinu.“
Þá segir Sigurður í fréttinni að það liggi fyrir álit lögmanna þar sem færð eru rök fyrir því að gjaldtaka Reykjavíkurborgar í formi innviðagjalds sé ólögmæt. Í álitinu segi meðal annars að það dugi að nefna að það séu ekki til staðar sett lög frá Alþingi sem mæla fyrir um álagningu innviðagjaldsins. Þá geti stjórnvöld, á borð við sveitarfélög, ekki ákveðið að standa fyrir gjaldheimtu til almennrar tekjuöflunar nema fyrir því sé skýr lagaheimild. Það líti því út fyrir að innviðagjaldið sé a.m.k. að stórum hluta tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standi nú þegar til boða á grundvelli laga.
Í fréttinni kemur fram að byggingarkostnaður fjölbýlishúss á 4-5 hæðum er um 340 þúsund krónur á fermetra samkvæmt reiknilíkani sem stuðst er við. Því er ljóst að 1,5 milljóna króna innviðagjald á hverja 100 fermetra hækkar byggingarkostnað fjölbýlis um 4-5%. „Þótt erfitt sé að fullyrða um áhrif á fasteignaverð, þar sem það er háð markaðsaðstæðum, blasir við að þetta hefur teljanleg áhrif á byggingarkostnað,“ segir Sigurður í Morgunblaðinu í dag.
Morgunblaðið / mbl.is, 24. janúar 2018.