Fréttasafn3. sep. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Ís­land fell­ur í 21. sæti í ný­sköp­un

„Við þurfum að gera enn betur og hreyfa okkur hraðar þar sem samkeppnin um hugvit og nýsköpun og þar með verðmætasköpun er gríðarleg á milli landa,” segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu um nýja mælingu á nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofunnar, Global Innovation Index 2020, en Ísland fellur um eitt sæti á milli ára og skipar nú 21. sætið. Vísitalan mælir árangur landa í nýsköpun og nýsköpunargetu þjóðarbúa.

Sigríður segir að niðurstaðan varpi ljósi á að „við þurfum að gera enn betur og hreyfa okkur hraðar þar sem samkeppnin um hugvit og nýsköpun, og þar með verðmætasköpun, er gríðarleg á milli landa. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú þegar atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og blikur eru á lofti varðandi gjaldeyrissköpun.”

Sviss í efsta sæti

Í fréttinni kemur fram að Sviss skipi efsta sæti listans af löndum þar sem laun eru há, Svíþjóð sé í öðru sæti, Bandaríkin því þriðja, Bretland í fjórða, Holland í fimmta, Danmörk í sjötta, Finnland í sjöunda og Singapore í áttunda sæti.

Sigríður segir í fréttinni að enn séu til staðar veikleikar og hindranir á Íslandi sem ryðja þurfi úr vegi. Þær snúi meðal annars að framboði af áhættufjármagni og menntakerfinu. „Brýnt er að auka áherslu á nám í vísindum, tækni og raungreinum þannig að hlutfall brauðskráðra úr þeim greinum aukist. Við erum aftarlega á því sviði,” segir hún.

Laða til landsins frumkvöðla og erlenda sérfræðinga

Þá kemur fram að Ísland skipi áttunda sæti listans þegar litið sé til skapandi afkasta (e. creative output); 14. sæti þegar komi að stofnunum en þar sé litið til stjórnmála, regluverks og umhverfi viðskiptalífsins; 28. sæti hvað varði mannauð og rannsóknir; 31. sæti í innviðum; 34. sæti í afköstum í þekkingu og tækni (e. knowledge and technology outputs) og 54. sætið þegar litiðsér til hve þróaður fjármálamarkaðurinn sé fyrir nýsköpun. Ísland sé til dæmis í 88. sæti hvað varði aðgang að lánsfé.

Í lok fréttarinnar segir að á meðal styrkleika Íslands sé hve miklu fé sé varðið í menntakerfið en Ísland skipi fimmta sæti listans þegar miðað sé við útgjöld til menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu. „Við ættum einnig að leggja kapp á að markaðssetja Ísland gagnvart frumkvöðlum og erlendum sérfræðingum með það að markmiði að laða þá til landsins. Það mun án efa hafa jákvæð áhrif á nýsköpunargetu þjóðarbúsins.“ 

Fréttablaðið, 2. september 2020.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna Global Innovation Index 2020 í heild sinni.