Fréttasafn



24. okt. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Ísland í einstakri stöðu til að þróa áfram sjálfbær matvælakerfi

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í umræðum á einni af málstofum Arctic Circle Assembly í Norðurljósum í Hörpu sem bar yfirskriftina „Bolstering Resilient Food Systems in a Changing Arctic“ og norræna ráðherranefndin stóð fyrir í samstarfi við Arctic Council og World Food Programme. Fjallað var um helstu áskoranir og tækifæri tengd matvælaöryggi á Norðurslóðum.

Sigurður sagði í umræðunum að Norðurslóðir stæðu frammi fyrir áskorunum vegna matvælaöryggis en á sama tíma væru tækifæri til nýsköpunar og tækifæri til að leiða þróunina í því að skapa sjálfbær matvælakerfi. Hann sagði loftslagsbreytingar vera einn helsta þátturinn sem hafi áhrif á bæði landbúnað og sjávarútveg á svæðinu, þar sem hlýnandi veðurfar hafi áhrif á framboð náttúruauðlinda. Sigurður sagði að þó að þessar breytingar væru áskorun búi Norðurslóðir einnig yfir miklum möguleikum til nýsköpunar með sjálfbærum lausnum, eins og nýtingu jarðvarma og þörungaræktunar.

Þegar talið barst að áskorunum vegna flutninga og aðfangakeðja sagði Sigurður að þar sem samfélög á Norðurslóðum væru háð innflutningi væru þau viðkvæm fyrir truflunum í aðfangakeðjum. Lausnirnar fælust í að auka innlenda matvælaframleiðslu með nýstárlegri tækni, eins og gróðurhúsatækni sem nýti endurnýjanlega orku, ásamt framleiðslu á nýjum matvælategundum líkt og ræktuðu kjöti og plöntupróteinum. Hann sagði að þessi tækni, sem Ísland hafi þegar þróað að einhverju leyti með jarðvarmaknúnum gróðurhúsum, gæti verið leiðin til að tryggja matvælaöryggi fyrir Norðurskautssvæðin.

Sigurður sagði í tengslum við framfarir á sviði nýsköpunar í matvælaframleiðslu væri Ísland í fararbroddi með tækni eins og jarðvarmaknúnum gróðurhúsum sem geri kleift að framleiða matvæli allt árið um kring. Þessi tækni hafi sýnt fram á möguleikana í því að mæta áskorunum Norðurskautssvæðisins, en hún sé enn háð annarri orku fyrir lýsingu yfir dimmustu vetrarmánuðina. Hann nefndi Finnland einnig sem dæmi um hvernig tryggja megi langtíma orkuöryggi með nýsköpun, þar sem landið leggi mikla áherslu á orkustöðugleika og verndun innviða.

Þá kom fram í máli Sigurðar að Ísland væri leiðandi í sjálfbærri fiskveiðistjórnun. Hann tók dæmi um hvernig landið hafi byggt upp styrk á sviði sjávarútvegs með sjálfbærum veiðiaðferðum og að Ísland hafi verið í fararbroddi í þessum málum á heimsvísu. Hann sagði jafnframt að með áframhaldandi áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda, gæti Ísland styrkt stöðu sína sem áreiðanlegur framleiðandi matvæla, sérstaklega í ljósi truflana í alþjóðlegum aðfangakeðjum.

Í umræðum um stefnumótun og reglur í matvælaframleiðslu sagði Sigurður að stefnur sem styðji við nýtingu endurnýjanlegrar orku, sérstaklega í jarðvarmanotkun, hafi verið grundvallaratriði í sjálfbærni á Íslandi. Hins vegar benti hann á að flókið regluumhverfi tengt líftækninýsköpun hindri stundum hraða þróun í þessum málum. Hann sagði að íslensk stjórnvöld gætu tekið mið af nálgun Finnlands, þar sem samvinna opinberra og einkaaðila væri höfð í hávegum til að flýta fyrir samþykkt nýrrar tækni og innviða.

Sigurður sagði að Norðurlöndin væru í lykilstöðu því þau væru í fararbroddi í matvælaöryggi með nýtingu endurnýjanlegrar orku og stafrænum lausnum. Hann sagði að Ísland, sem væri leiðandi í jarðvarma- og vatnsorku, væri í einstakri stöðu til að þróa áfram sjálfbær matvælakerfi og verða fyrirmynd annarra Norðurslóðaríkja.

Þá kom fram í máli Sigurðar að ef við tileinkum okkur heildræna öryggishugsun geti Ísland og Norðurslóðasvæðið breytt stjórnkerfum sínum í þá átt að vera sveigjanleg, sjálfbær og aðgengileg. Það gæti tryggt að við séum ekki aðeins að bregðast við áskorunum, heldur værum einnig fyrri til að tryggja öryggi matvælakerfa.

A002_09121532_S026

A002_09121524_S021

_MG_7628

1z5a9973_54074836315_o

L1000174

L1000177