Fréttasafn1. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Ísland má ekki verða undir í samkeppninni

Alþjóðlegur gagnaversiðnaður hóf innreið sína á Íslandi á árunum fyrir 2010 með stofnun Thor DC, sem síðar varð Advania Data Centers, og Verne Global, að sögn EYJÓLFS MAGNÚSAR KRISTINSSONAR, forstjóra Advania Data Centers. Gagnaversiðnaðurinn hefur þróast hratt hér á landi, þó enn sé nokkuð í land. Þó velti fyrirtækið sem Eyjólfur leiðir 6,5 milljörðum íslenskra króna í fyrra og hyggur á útrás, meðal annars til Svíþjóðar.

Við höfum undanfarið séð frábær nýsköpunarfyrirtæki ná árangri, ekki bara á Íslandi heldur á alþjóðlegum markaði.

 

„Fyrstu árin voru mjög erfið og ennþá er iðnaðurinn að glíma við frekar óþroskað stoðkerfi á Íslandi. Margt hefur þó áunnist og það er helsta ástæða þess að Advania Data Centers velti um 6,5 milljörðum króna á seinasta ári og hefur, síðan núverandi eigendur komu að félaginu í lok árs 2011, skilað jákvæðri afkomu á hverju ári. Við höfum í gegnum tíðina verið að berjast við raforkumarkað sem tekur kannski ekki alveg fullt tillit til þarfa gagnavera og annarra millistórra stórnotenda, há verð á gagnatengingum til og frá landinu og loks skattkerfi sem hefur þurft að aðlaga sig þeim stafræna heimi sem gagnaverin tilheyra. Þó svo margt hafi áunnist þá eigum við engu að síður þó nokkuð í land og þurfum stöðugt að berjast fyrir aðlögunarhæfni okkar stoðkerfis þar sem við störfum á alþjóðlegum markaði þar sem mikil samkeppni ríkir,“ segir Eyjólfur. 

Minna um rafmyntir 

Í upphafi voru fyrirspurnirnar mikið til frá risastórum tæknifyrirtækjum sem flest hafa keypt gagnaversþjónustu í helstu samkeppnislöndunum. „Ísland náði ekki árangri í þeirri bylgju sem þá reið yfir af ýmsum ástæðum en hins vegar gekk vel fyrir Ísland að laða til sín aðila sem vildu grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin þegar sú bylgja hófst árin 2013 og 2014. Sú eftirspurn hefur hins vegar dregist saman, aðallega vegna þróunar raforkuverðs víða annars staðar í heiminum, í samanburði við þróunina hér á landi. Okkar fókus í dag er allur á þjónustu við fyrirtæki sem þurfa mikið reikniafl til útreikninga, sem í flestum tilvikum eru stór alþjóðleg fyrirtæki,“ segir Eyjólfur og bætir við að sú þjónusta sem sé í hvað mestum vexti á Íslandi sé þjónusta við ofurtölvur sem notaðar eru við flókna útreikninga á líkönum sem nýta sér risastór gagnasöfn. „Dæmi um slíka útreikninga eru áhættugreiningar fjármálastofnana, spálíkön af ýmsum toga, til dæmis á veðri, straumfræðiútreikningar, þung verkfræðileg hönnun og svo framvegis. Við höfum náð stórum alþjóðlegum fyrirtækjum inn í gagnaverin okkar með þessa vinnslu,“ útskýrir Eyjólfur. Flestir viðskiptavinir Advania Data Centers eru frá Evrópu en eitthvað af viðskiptavinum koma frá Bandaríkjunum og Asíu. 

Þó svo margt hafi áunnist þá eigum við engu að síður þó nokkuð í land og þurfum stöðugt að berjast fyrir aðlögunarhæfni okkar stoðkerfis þar sem við störfum á alþjóðlegum markaði þar sem mikil samkeppni ríkir.

MagnusDatacenter_806A8124

Stór hluti starfsmanna tæknimenntaður 

Í dag starfa um 40 starfsmenn hjá Advania Data Centers, en mun fleiri starfa þó í kringum gagnaverin. „Margir viðskiptavina okkar eru með verktaka sem vinna við þjónustu á búnaði sem hýstur er í gagnaverunum. Eins eru fjölmargir verktakar á okkar vegum við vinnu í gagnaverum félagsins. Við erum með starfsfólk af öllum toga, en stór hluti er þó með tæknimenntun, það er iðnmenntun, tölvunarfræði eða verkfræði. Eftir því sem sérhæfing eykst verður erfiðara að finna starfsfólk á Íslandi og er það ástæða þess að við höfum þurft að leita utan Íslands með starfsfólk í einhverjum mæli,“ segir Eyjólfur. 

Gagnaver í miðri stórborg 

Velta Advania Data Centers hefur aukist stöðugt ár frá ári. Er raunhæft að halda að félagið muni halda áfram að vaxa jafn hratt og verið hefur? „Starfsemi okkar á Íslandi hefur vaxið hratt á undanförnum árum og gerum við nú ráð fyrir að hægja muni á þeim vexti, sem mun í staðinn færast erlendis. Við erum að byggja gagnaver í miðborg Stokkhólms sem stefnt er að því að verði tilbúið 2021 en nokkur önnur verkefni eru líka á teikniborðinu. Það er nauðsynlegt að hafa í huga að áætlaður árlegur vöxtur í gagnaversiðnaðinum í Evrópu er yfir 15% næstu 5 árin og við munum taka okkar sneið af því,“ segir Eyjólfur.

Mitt mat er að uppgangur gagnavera hafi verið töluvert meiri í okkar helstu samkeppnislöndum á undanförnum árum heldur en á Íslandi og ef samkeppnisumhverfi gagnavera verður ekki tryggt með afgerandi hætti mun Ísland ekki ná í sinn skerf af þeim vexti sem framundan er á þessum markaði.

MagnusDatacenter_806A8369

Verðið er ekki það eina sem skiptir máli 

Aðspurður um þær áskoranir sem gagnaversiðnaðurinn stendur frammi fyrir um þessar mundir segir Eyjólfur gagnaver þurfa góðar nettengingar, aðgang að hreinni orku og frábært starfsfólk. „Allir þessir þættir þurfa að vera samkeppnishæfir við það sem best gerist erlendis. Verð er ekki það eina sem skiptir máli heldur gæði og sveigjanleiki en á þeim þáttum stöndum við örlítið halloka gagnvart helstu samanburðarlöndum okkar. Einnig er mikilvægt að skatta - og lagaumhverfi standi jafnfætis því sem best gerist þannig að Ísland dragist ekki aftur úr á því sviði. Við höfum eytt miklum tíma í að vinna með aðilum á raforkumarkaði til að gera hann samkeppnishæfari fyrir gagnaver,“ útskýrir hann og segir að þó það hafi að einhverju leyti tekist, sé ennþá töluvert langt í land. 

„Þá er mjög mikilvægt að allir sem starfa í því umhverfi séu vakandi fyrir því að kostnaður við framleiðslu, flutning og dreifingu raforku vaxi ekki úr hófi fram og taki mið af þeim viðskiptavinum sem kerfið á að þjóna. Mitt mat er að uppgangur gagnavera hafi verið töluvert meiri í okkar helstu samkeppnislöndum á undanförnum árum heldur en á Íslandi og ef samkeppnisumhverfi gagnavera verður ekki tryggt með afgerandi hætti mun Ísland ekki ná í sinn skerf af þeim vexti sem framundan er á þessum markaði.“ 

Hann segir samkeppnina á þessum markaði einfaldlega gríðarlega harða. „Ekki er nóg með að fyrir eru á markaðnum risar með mjög sterka stöðu heldur er mikill fjöldi smærri gagnavera, eins og Advania Data Centers, að spretta fram á markaðinn þessi misserin.“ 

„Blessuð krónan“ hjálpar ekki frumkvöðlum 

„Nýsköpun hefur undanfarin ár verið að skipa sér sess sem hluti af eðlilegu og heilbrigðu atvinnulífi hér á landi þar sem við höfum undanfarið séð frábær nýsköpunarfyrirtæki ná árangri, ekki bara á Íslandi heldur á alþjóðlegum markaði,“ segir Eyjólfur. „Þegar vel hefur gengið er auðvelt að sofna á verðinum gagnvart því að styðja nýsköpunarverkefni bæði hjá nýjum fyrirtækjum sem og innan fyrirtækja sem sannað hafa getu sína til verðmætasköpunar. Hér á Íslandi þurfum við að vera leiðandi og gera enn betur við að laða til okkar erlenda sérfræðinga, einfalda rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja og eins að skapa hvata fyrir fyrirtæki og fjármagnseigendur til að fjárfesta í nýsköpun, þar þurfa stjórnvöld að halda áfram að vera leiðandi og gefa í frekar en hitt. Markaðurinn fyrir fjármögnun á nýsköpunarverkefnum er mjög grunnur hér á landi og þar er blessuð krónan heldur ekki að hjálpa.“ 

Íslenska loftið veitir forskot 

Sagt er að íslensk veðrátta henti mjög vel til reksturs gagnavera. Eyjólfur segir svala, íslenska loftið veita samkeppnisforskot, sem hafi þó dregist saman með tilkomu nýrrar tækni. „Tölvubúnaður í gagnaverum hitnar mjög mikið og er það einn af megin ferlum gagnavera að halda búnaðinum við kjörhitastig. Í því ferli notum við svalt íslenskt loft, sem er sjaldan heitara en 15°C nema í skamman tíma. Þær einstöku aðstæður gera það að verkum að íslensk gagnaver þurfa minni fjárfestingu í flóknum kælibúnaði og eins þarf minni orku í kæliferlið sem skapar okkur ákveðið samkeppisforskot. Hins vegar hefur þessi munur verið að dragast saman með nýrri tækni,“ segir Eyjólfur.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_