Fréttasafn17. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Ísland vel staðsett milli stórra markaðssvæða

SESSELJA ÓMARSDÓTTIR er framkvæmdastjóri lyfjagreiningardeildar Alvotech. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknilyfshliðstæðu eða svo kallaðra „biosimilars“. „Þetta eru flóknar lyfjasameindir úr próteinum sem eru notuð til meðferðar á langvinnum sjúkdómum eins og krabbameini og sjálfsofnæmissjúkdómum eins og liðagigt og psoriasis,“ útskýrir Sesselja.

Alvotech er eftirsóknarverður vinnustaður, sem dregur að sér hæfileikaríkt starfsfólk hvaðanæva að úr heiminum og margir hafa sest hér að.

Fyrirtækið er nú með átta líftæknilyf í þróun sem eru komin mislangt í ferlinu. Þetta eru allt hliðstæður af þekktum frumlyfjum á markaði og munu einkaleyfi þeirra renna út á næstu árum. „Á þessu ári mun Alvotech sækja um markaðsleyfi fyrir líftæknilyfshliðstæðu frumlyfsins Humira hjá lyfjayfirvöldum í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta var söluhæsta lyfið á heimsvísu á síðasta ári og seldist þá fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala.“ 

 Alvotech ætlar sér stóra hluti og mark miðið er að verða leiðandi fyrirtæki í þróun og framleiðslu líftæknilyfshliðstæða. „Fyrirtækið er byggt upp á þann hátt að næstum öll þróun og framleiðsla fer fram innanhúss, allt frá því að frumulínan sem framleiðir lyfið er þróuð, yfir í framleiðslu og skráningu. Þróunar­ og framleiðslusetur Alvotech á Íslandi er búið fullkomnustu tækjum og búnaði og hefur fengið gæðavottun til að framleiða lyf til rannsókna á mönnum og mun sækja um gæðavottun til framleiðslu á markað á þessu ári. Alvotech rekur auk þess þrjár þróunareiningar í Þýskalandi og Sviss sem hver um sig býr yfir sérhæfingu á ákveðnum sviðum þróunar.“

Nýta græna orku í alla framleiðslu 

Auk alls þessa hefur Alvotech samstarfssamninga við leiðandi fyrirtæki í markaðssetningu lyfja um allan heim. En hvers vegna vill félagið hafa höfuðstöðvar á Íslandi þar sem oft er rætt um að dýrt og flókið sé að reka fyrirtæki? Einnig með tilliti til þess að starfsfólk fyrirtækisins kemur frá öllum mögulegum löndum? „Í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi er Ísland vel staðsett á milli stærstu markaðssvæða Alvotech, Bandaríkjanna og Evrópu. Þá er einkaleyfaumhverfið hagkvæmt fyrir fyrirtæki eins og Alvotech þar sem engin einkaleyfi eru skráð á Íslandi fyrir líftæknilyf og gerir það fyrirtækinu kleift að bæði þróa og framleiða sín lyf áður en einkaleyfi frumlyfja renna út. Hér nýtum við græna orku í alla framleiðsluna sem er ótvíræður kostur,“ útskýrir hún og heldur áfram. „Það er frábært framtak hjá Róberti Wessman, stofnanda fyrir tækisins, að byggja upp þennan ört vaxandi hátækniiðnað hér á landi. Það er sýn okkar að Alvotech og Ísland verði leiðandi í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja til framtíðar og veiti þar af leiðandi fleiri sjúklingum í heiminum aðgang að þessum lyfjum.“ 

Í röðum Íslendinga eru afskaplega reynslumiklir og færir vísindamenn, sérfræðingar og tæknifólk en Alvotech er alþjóðlegur vinnustaður með starfsmenn af ríflega 40 þjóðernum að sögn Sesselju. Starfsmenn eru orðnir 450 talsins og er menntunarstig hátt, rúmlega helmingur starfsmanna hefur lokið meistara­ eða doktorsprófi. „Þetta er fjölbreytt umhverfi, við vinnum vel saman, höfum skýra sýn og rétta hugarfarið til að ná okkar markmiðum. Alvotech er eftirsóknarverður vinnustaður, sem dregur að sér hæfileikaríkt starfsfólk hvaðanæva að úr heiminum og margir hafa sest hér að. Lífsskilyrði eru góð á Íslandi miðað við víða annars staðar, hátæknisetrið mjög vel útbúið, staðsett á besta stað í borginni og allur aðbúnaður fyrir starfsfólk með besta móti. Íslensk náttúran, hreint loft og víðátta til útiveru spillir auðvitað ekki fyrir.“ 

Sesselja segir stjórnendur fyrirtækisins hafa víðtæka alþjóðlega þekkingu á sínu sviði og leggja ríka áherslu á þjálfun vísindamanna og stjórnendur framtíðarinnar. „Það að byggja upp fyrirtæki og iðnað af þessu tagi er mjög mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf og jafnframt er þetta einstakt tækifæri fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk á þessu sviði að fá störf við hæfi. “ 

SesseljaAlvotech_806A6776

Þetta er nýsköpun sem skapar fjölda starfa fyrir vel menntað starfsfólk og getur verið mjög arðbær iðnaður.

Styðja betur við grunnrannsóknir 

Sesselja bendir þó á að mjög flókið sé að þróa og framleiða lyf. Það taki langan tíma og krefjist mikillar sérþekkingar, sé kostnaðarsamt og krefjist þolinmóðs fjármagns. „Það tekur þó nokkur ár að þróa lyfið, framleiða það eftir ströngum gæðakröfum, gera klínískar rannsóknir og svo sækja um markaðsleyfi og markaðssetja lyfið. Þetta er nýsköpun sem skapar fjölda starfa fyrir vel menntað starfsfólk og getur verið mjög arðbær iðnaður,“ útskýrir Sesselja sem segir að ýmislegt hafi verið vel gert til að styðja við íslenska nýsköpun. „Til dæmis með framlögum til sjóða sem styðja við nýsköpun og hagnýtar rannsókn ir sem og hækkun á endurgreiðsluþaki og hlutfalli vegna rannsóknar­ og þróunarstarfa. En betur má ef duga skal. Stjórnvöld verða að hafa skýra sýn og stefnu. Við verðum að búa til umhverfi hér á landi sem er aðlaðandi fyrir hátæknifyrirtæki eins og lyfja­ og líftæknifyrirtæki til að tryggja að þessi starfsemi byggist upp og viðhaldist hér og þekkingin fari ekki úr landi. Einnig er lykilatriði að styðja mun betur við grunnrannsóknir en gert hefur verið, ekki síst til þess að búa til jarðveg fyrir sprotafyrirtæki, því þetta helst allt í hendur. Því betur sem er stutt við þetta því fleiri störf höfum við fyrir vel menntaða Íslendinga, því frjórri jarðvegur fyrir frekari þróunarstarfsemi og allt skilar þetta að endingu tekjum í ríkissjóð.“

Við verðum að búa til umhverfi hér á landi sem er aðlaðandi fyrir hátæknifyrirtæki eins og lyfja- og líftæknifyrirtæki til að tryggja að þessi starfsemi byggist upp og viðhaldist hér og þekkingin fari ekki úr landi.

Markmiðið að mennta fleiri vísindamenn 

Hátæknisetrið er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni og er um
13 þúsund fermetrar að stærð. Það var opnað með formlegum hætti í júní 2016. Árið 2018 undirrituðu Alvotech og HÍ samstarfssamning, með það að markmiði að efla samstarf um mótun menntunar, framgang rannsókna og vísindalegrar þekkingar sem og nýsköpunar á þeim fræðasviðum sem snúa að starfsemi Alvotech. Með þessum samningi verður til skapandi þverfaglegt samstarf í kennslu, rannsóknum og nýsköpun, enda báðir aðilar sammála um mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt atvinnulíf og
samfélag. 

„Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og afraksturinn er meðal annars sá að á síðasta ári var stofnuð ný þverfagleg námslína í iðnaðarlíftækni á meistarastigi og hófu fyrstu nemendurnir nám síðastliðið haust. Markmiðið er að mennta enn fleiri vísindamenn á þessu sviði bæði með það fyrir augum að sumir þeirra muni starfa hjá Alvotech að námi loknu eða hjá öðrum líftæknifyrirtækjum í landinu eða jafnvel stofna fyrirtæki sjálfir. Þetta er líka mikilvægt skref í því að efla enn frekar nýsköpun og frumkvöðlastarf í líftækni og lyfjavísindum. Ég hef fengið tækifæri til að kenna í þessari nýju námsleið og það er mjög gefandi og skemmtilegt,“ segir Sesselja. 

 Sesselja segir samstarfið á milli aka demíu og atvinnulífs afar mikilvægt og að þverfagleg nálgun sé beinlínis nauðsynleg. „Draumur minn er að í framtíðinni verði líftækniklasi stofnaður í Vísindagörðum þar sem stór og lítil fyrirtæki, frumkvöðlar og háskólafólk vinni ötullega að því að efla þennan spennandi vísindavettvang bæði með grunn­ og hagnýtum rannsóknum.“

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_