Fréttasafn9. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Ísland verði nýsköpunarparadís fyrir frumkvöðla

KRISTINN ASPELUND er annar tveggja stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Ankeri, sem stofnað var í desember 2016. Hann segir fyrirtækið enn að koma sér fyrir á mörkuðum þó að þar starfi fimm starfsmenn og tekjur félagsins hafa vaxið um rúmlega 150% í fyrra. Fyrsta vara Ankeris fór á markað síðari hluta árs 2018, en um er að ræða hugbúnað sem tengir saman eigendur flutningaskipa og leigjendur þeirra – þannig geta þessir tveir hópar deilt með sér gögnum um skipin. Gögn fyrir yfir 500 gámaflutningaskip frá meira en 50 eigendum hafa farið í gegnum Ankeri, sem samsvarar um 10% af heimsflotanum. Kristinn segir ákveðna óvissu ríkja um umhverfi nýsköpunar hér á landi og vill að stjórnvöld stígi fram og láti aðgerðir fylgja flottum orðum. Ísland hafi alla burði til þess að verða nýsköpunarparadís fyrir frumkvöðla.

Ég tel að öflugt frumkvöðlastarf sé algjör forsenda fyrir því að við náum að skapa lífskjör hér á landi til framtíðar.

„Hugmyndin að okkar fyrirtæki kom þannig til að við Leifur Kristjánsson, félagi minn, störfuðum saman hjá Marorku að hugbúnaði fyrir skipaflota. Við þekktum þennan geira orðið nokkuð vel og langaði að taka nýja nálgun á hlutina – hvernig væri hægt að hjálpa fyrirtækjum að vinna saman að því að bæta rekstur flutningaskipa.“ 

Kristinn segir algengt að 60% rekstrarkostnaðar flutningaskipa sé olíukostnaður. „Markaðnum hefur hins vegar ekki tekist að búa til hvata fyrir félög að fjárfesta í olíusparnaði, því eigendur skipanna fá ekkert endilega betri samninga þó skip þeirra eyði minni olíu. Við höfum því skrifað hugbúnað sem keyrir í skýinu og gerir upplýsingar um skipin aðgengilegri. Við viljum auka gagnsæi, sem á að geta auðveldað leigutökum valið á hagkvæmum skipum fyrir þau verkefni sem þau eru ætluð í. Þetta er bæði umhverfisvænna og betri bisness.“ 

Peningar til sprotafyrirtækja búa til störf strax 

Ankeri skilgreinir sinn heimamarkað sem alla Norður -Evrópu. „Allur okkar markaður er á ensku. Flest sprotafyrirtæki eru auðvitað að hugsa út fyrir landsteinana, með hausinn í einu landi og líkamann annars staðar,“ útskýrir Kristinn en þeir félagar eru ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. „Skip eru langumhverfisvænasta leiðin til að flytja vörur á milli landa. Flutningaskipaiðnaðurinn er einn stærsti iðnaður í heimi. Um 90% af öllum vörum sem eru framleiddar í dag eru fluttar á einhverjum tíma á milli svæða með skipum.“ 

Líkt og áður segir starfa fimm einstaklingar hjá Ankeri og tekjur félagsins jukust um 153% í fyrra. „Nú þegar hafa gögn frá um það bil 10% af heimsflotanum; 500 gámaflutningaskip frá 50 eigendum, farið í gegnum kerfið okkar. Það er ágætis byrjun, myndi ég telja. En fram á veginn viljum við halda áfram að vaxa, breyta því hvernig dýnamíkin á milli eigenda skipanna og leigutakanna í þessum iðnaði er. Byggja á gagnadrifnum ákvarðanatökum og ná fram markmiðum varðandi umhverfisþáttinn og ekki síður umtalsverðri hagræðingu í rekstri heimsflutninga,“ segir Kristinn. 

Þegar þeir Kristinn og Leifur stofnuðu Ankeri fengu þeir nokkra styrki, samtals tæplega 30 milljónir króna, auk þess sem þeir fengu reyndan frumkvöðul inn í stjórn fyrirtækisins á byrjunarstigi. „Það er margt ágætt sem gert er í þessu umhverfi hér á Íslandi, en það sem manni finnst erfitt að horfa upp á, sérstaklega núna þegar maður heyrir um aukið atvinnuleysi, er að verið sé að skera niður stuðning við sprotafyrirtæki. Þetta eru peningar sem búa til störf strax og búa til gjaldeyri. Í okkar tilviki höfum við þegar greitt alla styrki sem við höfum fengið til baka, á þremur árum, í formi staðgreiðslu og tryggingagjalds,“ segir hann. 

Flest sprotafyrirtæki eru auðvitað að hugsa út fyrir landsteinana, með hausinn í einu landi og líkamann annars staðar .

KristinnAnkeri_806A6412

Fáum fólk á heimsmælikvarða til að setjast að á Íslandi 

„Hér er sóknarfæri. Hugmyndin um fjárfestingasjóðin Kríu er ábyggilega flott og verður gaman að sjá hana verða að veruleika, vonandi verður útfærslan þannig að hún nýtist sprotafyrirtækjum sem best. Ég myndi einnig vilja sjá lífeyrissjóðina beita sér af krafti fyrir því að byggja upp atvinnulífið til framtíðar með því að fjárfesta í sprotum. Endurgreiðsla þróunarkostnaðar kemur vel út. En á sama tíma er verið að skera niður stuðning til sprotafyrirtækja, til dæmis hafa úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði minnkað um tæpar 200 milljónir króna frá 2017 og á að minnka um 50 milljónir á ári næstu árin. Eins hefur verið hætt með Átak til atvinnusköpunar sem voru litlir styrkir fyrir verkefni á frumstigi,“ segir Kristinn. 

„Þannig að staðan í dag er ekkert sérstaklega björt fyrir sprotafyrirtæki. Það er dauðafæri hér og samfélagslega mikilvægt að búa til almennilegt umhverfi á Íslandi. Við gætum markaðsett okkur sem landið sem frumkvöðlar koma til, til að taka fyrstu skrefin í stofnun sprotafyrirtækja. Það er hægt að gera með því að einfalda alla umgjörð, þannig að alþjóðlegir fjárfestar sjái hag sinn í að fjárfesta í verkefnum hér. Við eigum einfaldlega að hugsa, hvernig fáum við fólk á heimsmælikvarða til að setjast að á Íslandi og byggja upp sín fyrirtæki hér? Það er ennþá dálítið hipp og kúl að vera á Íslandi, þetta er lítið samfélag sem gerir það að verkum að það er raunhæft að eiga fjölskyldu og vera frumkvöðull um leið. Við þurfum ekki að eyða mörgum klukkustundum á dag í bíl til að komast á milli staða. Svona gætum við stækkað hagkerfið og laðað fleiri til landsins, búið til verðmæt störf og fengið þekkingu til landsins. Ég tel að öflugt frumkvöðlastarf sé algjör forsenda fyrir því að við náum að skapa lífskjör hér á landi til framtíðar.“ 

Frumkvöðlasamfélagið stendur saman 

Kristinn ráðleggur þeim sem eru nú að feta sín fyrstu skref að vera ekki að bíða of lengi með að fara með hugmyndina út á markað og hitta mögulega viðskiptavini. „Við gerðum það á öðrum mánuði. Við keyptum okkur flug til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og hittum þar mögulega viðskiptavini fyrir hugmyndina okkar. Eina sem var til af vörunni þá var ein PowerPoint glærukynning. Mjög stutt. Með því að kynna hugmyndina slípaðist hún til og varð miklu betri fyrir vikið.“ Kristinn og Leifur hittu líka fólk úr nýsköpunargeiranum hér. „Það er mín reynsla að allir taka mjög jákvætt í að hitta mann og gefa manni endurgjöf á hugmyndir. Það eru allir til í að hjálpa manni. Ég tel það mjög mikilvægt og nokkuð sem við þurfum að passa upp á og fóstra aðeins.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_