Fréttasafn30. des. 2021 Almennar fréttir Ímynd

Íslensk framleiðsla og jákvæð ímynd skiptir máli

Niðurstöður könnunar sem Maskína framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja sýna vel hve miklu máli það skiptir að ímynd íslenskra vara og þjónustu sé jákvæð og sömuleiðis að hvatt sé til kaupa á íslenskri framleiðslu og þjónustu umfram erlenda. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI. Þá eru svarendur könnunarinnar heilt yfir fremur sammála um að SI ættu markvisst að taka þátt í að efla ímynd íslenskrar framleiðslu og þjónustu og að samtökin taki virkan þátt í átaksverkefnum tengdum því að velja íslenskt umfram erlent.

Þegar stjórnendur iðnfyrirtækjanna eru spurðir að því hversu miklu eða litlu máli þeim finnst skipta að SI beiti sér fyrir jákvæðri ímynd íslensks iðnaðar svara ríflega 86% að það skipti mjög miklu eða fremur miklu máli. Rúm 10% svara því að það skipti í meðallagi miklu máli en aðeins tæp 4% segja að það skipti fremur litlu eða mjög litlu máli.

Samskonar niðurstaða fékkst þegar stjórnendur eru spurðir hvort það skipti miklu eða litlu máli að íslenskar vörur eða þjónusta hafi sömu ímynd og erlendar vörur eða þjónusta. Um 89% segja það skipta mjög miklu máli eða fremur miklu máli á meðan aðeins tæp 3% svara því að það skipti fremur litlu, mjög litlu eða alls engu máli. Þá segja um 8% að það skipti í meðallagi miklu máli.

Ljóst er að stjórnendum íslenskra iðnfyrirtækja þykir það skipta miklu máli að Íslendingar séu stoltir af íslenskum vörum og þjónustu. Um 95% svarenda segja að það sé mjög mikilvægt eða fremur mikilvægt að Íslendingar séu stoltir af íslenskri framleiðslu og þjónustu, 4% segja það í meðallagi mikilvægt og rúmt 1% segja það fremur lítilvægt.

Svarendur könnunarinnar eru á einu máli aðspurðir hvort það skiptir miklu eða litlu máli að SI hvetji til þess að valin sé íslensk framleiðsla eða þjónusta umfram erlenda þar sem því verður við komið. Tæplega 89% segja að það skipti mjög miklu eða fremur miklu máli en aðeins 2,4% að það skipti fremur litlu eða mjög litlu máli. Þá segja tæp 9% að það skipti í meðallagi miklu máli. Í framhaldinu eru þátttakendur spurðir hvort það skiptir þá miklu eða litlu máli að SI hafi forgöngu eða taki þátt í átaksverkefnum tengdum því að velja íslenskt umfram erlent. Þar svara rúm 84% að það skipti mjög miklu eða fremur miklu máli og tæp 12% að það skipti í meðallagi miklu máli. Um 4% segja að það skiptir fremur litlu, mjög litlu eða alls engu máli.

Mynd1_1640865674185

Mynd2_1640865698157

Mynd3_1640865718042

Mynd4_1640865735678

Mynd5_1640865752096

Hér er hægt að nálgast greininguna.