Fréttasafn14. feb. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Íslensk fyrirtæki vilja leggja meiri áherslu á loftslagsmál

„Við höfum fengið skýr skilaboð frá meðlimum SI um að íslensk fyrirtæki vilja leggja meiri áherslu á loftslags- og umhverfismál,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu þar sem fjallað er um nýja greiningu SI  þar sem skoðað er að hvaða marki íslensk iðnfyrirtæki hafa gripið til aðgerða í þágu loftslagsmála. Sigurður segir tilefni greiningarinnar vera að samtökin vildu sjá betur hver staðan væri í málaflokknum.

Græn iðnbylting drifin áfram af ákvörðun stjórnvalda

Sigurður segir í fréttinni að fyrirtæki finni fyrir þrýstingi frá bæði stjórnvöldum og neytendum um að láta ekki sitt eftir liggja. Krafan sé sú að fyrirtæki lágmarki kolefnisspor sitt og umhverfisáhrif og sé reynt að hampa nýjum lausnum og nýjum vinnubrögðum sem hjálpa atvinnulífinu að fikra sig í þessa átt. „Græna iðnbyltingin er ólík fyrri iðnbyltingum að því leyti að hún er drifin áfram af ákvörðun stjórnvalda frekar en að ný og hagkvæmari tækni eða ferlar hafi litið dagsins ljós og rutt úr vegi því sem fyrir var. Er áskorunin m.a. fólgin í því að þær lausnir sem atvinnulífið þarf á að halda eru ekki endilega allar til í dag, en kröfurnar fara bara vaxandi í takt við stefnu stjórnvalda og eins þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað hjá almenningi.“ 

54% telja loftslagsaðgerðir mikilvægar fyrir ímynd fyrirtækis þeirra

Í fréttinni kemur meðal annars fram að könnun sem gerð var meðal aðildarfyrirtækja SI sýni að rétt rúmlega helmingur iðnfyrirtækja hefur sett sér markmið á sviði loftslagsmála og hækkar hlutfallið upp í 70% hjá fyrirtækjum með meira en einn milljarð króna í veltu. Sögðust 54% svarenda telja mikilvægt fyrir ímynd fyrirtækis þeirra að ráðast í aðgerðir á sviði loftslagsmála en 24% sögðu slíkar aðgerðir hafa litil áhrif á ímyndina. Aftur mátti sjá greinilegan mun á afstöðu fyrirtækja eftir stærð en stjórnendur félaga með yfir milljarð króna í veltu svöruðu í 75% tilvika að loftslagsaðgerðir væru mikilvægar fyrir ímynd þeirra á meðan aðeins 41% stjórnenda félaga með veltu undir milljarði var á sömu skoðun. 

Íslenskt atvinnulíf getur skipað sér í fremstu röð í loftslagsmálum

Sigurður segir í Morgunblaðinu að íslenskt atvinnulíf sé að mörgu leyti í sterkri stöðu til að skipa sér í fremstu röð í loftslagsmálum og grænu iðnbyltingunni og njóti íslensk fyrirtæki m.a. góðs af því hvernig tekist hefur að beisla vatnsafl og jarðhita til rafmagnsframleiðslu og húshitunar auk þess sem tækni- og þekkingarstig er hátt. „Þetta forskot felur það líka í sér að á Íslandi hefur orðið til dýrmæt þekking sem getur nýst öðrum löndum og orðið útflutningsvara. Hefur þannig reynsla Íslendinga af hönnun og smíði vatnsfalls- og jarðvarmavirkjana verið nýtt í uppbygginarverkefni í fimm heimsálfum. Við getum haldið áfram að byggja ofan á þessa þekkingu og lagt grunninn að mjög verðmætri útflutningsgrein.“ 

Morgunblaðið, 14. febrúar 2022.

Morgunbladid-14-02-2022