Fréttasafn13. jún. 2019 Almennar fréttir Framleiðsla

Íslensk hönnun og húsgögn til umræðu á Hringbraut

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræðir við Sigmund Erni Rúnarsson, um íslenska hönnun og húsgögn á Hringbraut í tilefni þess að nú prýða suðurstofu Bessastaða íslensk hönnun og húsgögn. Í samtali þeirra kemur meðal annars fram að næstkomandi sunnudag verði opið hús á Bessastöðum þar sem húsgögnin verða til sýnis. Sigmundur Ernir segir þetta merkilega sýningu og af þeim kynningarbæklingi sem gefinn var út í tilefni þessa segir hann að sjáist hversu íslensk hönnun hafi um langt árabil verið framarlega og merkilegt hvað þessi fámenna þjóð hafi getað hannað merkilega hluti.

Sigurður segir hefð vera fyrir þessu. „Það er heilmikil hefð fyrir þessu hér á Íslandi. Það voru fjölmörg fyrirtæki starfandi í þessari grein, sem dæmi þá voru árið 1972 hátt í 300 fyrirtæki sem störfuðu á sviði húsgagnaframleiðslu á landinu út um allt land. Þetta á sér mikla sögu hér á landi, sama er með húsgagnahönnun. Árið 1955 stofnuðu hönnuðir með sér félag, þá voru 8 hönnuðir starfandi, en þeim fjölgaði talsvert mikið á næstu áratugum. Ég mundi segja að þessi framleiðsla einkennist af gæðum, þetta eru vandaðar vörur sem standast fyllilega samanburð við það sem gerist annars staðar.“

Áhugi og metnaður til að gera vel 

Sigmundur Erni spyr Sigurð af hverju húsgagnaframleiðsla hafi verið í slíkum blóma hér á landi á 5., 6., 7. og 8. áratugunum og hvort það hafi verið vegna þess að Ísland hafi verið í höftum og menn hafi orðið að bjarga sér sjálfir? „Að einhverju leyti var það það. Þessi iðnaður þreifst vel í skjóli hafta sem breyttist síðar. En svo var kannski líka áhugi og metnaður til að gera vel og leyfa hugmyndaauðginni að njóta sín. Við vitum að hönnun er í raun samtal þriggja aðila sem eru hönnuðir, framleiðandi og síðast en ekki síst notandinn. Við viljum auðvitað að það samtal eigi sér stað hér á landi. Það skiptir því miklu máli að hér séu hönnuðir og hér séu framleiðendur sem geti látið hugmyndirnar verði að veruleika.“

Stjórnvöld hafa mikið um það að segja hvað þrífst og hvað ekki

Sigmundur Ernir nefnir EFTA samninginn og með tilkomu hans hafi orðið breytingar. En húsgagnaframleiðsla hefur samt lifað af þessa milliríkja og alþjóðlegu samninga? „Hún hefur gert það. Hér á landi eru mörg frambærileg fyrirtæki í framleiðslu og hönnun á þessu sviði sem standa sig fyllilega í erlendri samkeppni og keppa þá á gæðum og þjónustu ekki síst, en líka eru verðin sambærileg. Þannig að þessi fyrirtæki dafna vel. En það skiptir auðvitað máli og þá komum við aftur að þessu verkefni sem við erum að ræða hér. Það skiptir auðvitað máli að stjórnvöld horfi til þess sem er verið að gera hér á landi, hvort sem það eru húsgögn eða annað, öll önnur framleiðsla eða iðnaður. Vegna þess að stjórnvöld, hið opinbera, sveitarfélög og ríki, eyða 40 krónum af hverjum 100 í hagkerfinu. Með vali sínu hefur hið opinbera svo ofboðslega mikið um það að segja hvað þrífst og hvað ekki og þess vegna vildum við lyfta húsgögnum upp. Vegna þess að húsgögn eru allt í kringum okkur, á heimilum, vinnustöðum, alls staðar, svoleiðis að þetta stendur okkur nærri. Hér á landi er þetta blómlegur iðnaður. Það er verið að gera margt mjög gott og hönnuðir hafa verið að standa sig vel svo við vildum hampa þessu. Ég fór að velta því fyrir mér fyrir nokkrum árum síðan hvað það væri skrýtið að koma inn í opinberar byggingar, t.d. eins og í ráðuneyti þar sem skandinavísk húsgögn mæta manni eða inn í opinberar byggingar aðrar, söfn eða skólar eða stofnanir. Af hverju erum við ekki að velja íslenskt í meira mæli. Rétt eftir að ég hóf störf hjá Samtökum iðnaðarins þá skoruðum við á forseta Íslands að prýða Bessastaði með íslenskri hönnun og íslenskum húsgögnum og hann tók áskoruninni fagnandi og síðan fórum við að vinna saman að því að gera þessa hugmynd að veruleika sem gerðist svo núna nýverið.“

Kannski má gera betur í að kynna hönnun og framleiðslu

Sigmundur Ernir veltir upp af hverju þetta sé með þessum hætti á Íslandi og nefnir Finnland þar sem stofnanir státa af finnskri hönnun, Svíþjóð, Bandaríkin og Þýskaland, þar sem þýskri hönnun og þýskri vöru er hampað í almannarýmum í opinberri eigu. En það sé annað á Íslandi þar sem við hömpum síður því sem er íslenskt sem sé þó á pari í verði og gæðum og það sem kemur að utan. Sigurður segir það heilmikið umhugsunarefni af hverju þetta sé svona hér hjá okkur. Hann segir að kannski megi gera betur í því að kynna það sem er verið að gera hér á landi og þetta verkefni á Bessastöðum sé auðvitað liður í því. „Við hljótum auðvitað vilja að hér á landi séu hönnuðir sem séu að hanna framúrskarandi vörur og hér séu framleiðendur sem láti þær hugmyndir verða að veruleika. Það gerist ekki öðruvísi en að við sjálf veljum og horfum til þess sem er verið að gera og veljum það. Val endurspeglar sjálfsmynd.“ Hann tekur dæmi af forseta Þýskalands sem hljóti að aka um á þýskum bíl í sínu heimalandi en velur ekki japanskan bíl. „Þetta skiptir máli og sérstaklega í opinberum byggingum eigum við að vera með íslensk húsgögn.“

Sigurður segir að kannski sé að einhverju leyti þörf á vitundarvakningu um þessi mál en úrvalið sé mjög gott og hönnuðir og framleiðendur hafi staðið sig mjög vel í að skapa framúrskarandi vörur sem endurspegla gæði. „Við eigum að sjálfsögðu að líta til þess.“

EES-samningurinn reynst mjög vel síðasta aldarfjórðunginn

Sigmundur Ernir segir að núna séum við í EES-samningum og margir séu að horfa á hann sem einhverja grýlu. Þú ert í þeirri stöðu annars vegar að verja íslenskan iðnað en jafnframt að verja þá samninga sem gera það að verkum að við getum flutt okkar vörur til útlanda á þá góðu markaði sem þar er að finna og gefa okkur góða framleiðniaukningu og virðisauka, hvernig fer þetta saman? Þú ert annars vegar að gæta að innlendri framleiðslu og hins vegar að hlúa að erlendum milliríkja samningum? „Þetta er alveg hárrétt, en grundvallaratriðið er að innlenda framleiðslan er fyllilega samanburðarhæf við það sem gengur og gerist, af því gefnu að starfsumhverfi fyrirtækjanna sé sambærilegt. Þannig að þetta getur vel farið saman. Fyrirtæki sem eru að framleiða hér á landi þurfa aðföng og það auðvitað kallar á frjáls viðskipti milli landa. Í mínum huga og okkar huga þá fer þetta vel saman en þá skiptir auðvitað máli að fyrirtækin hvort sem þau eru hér eða annars staðar keppi á jafningjagrunni. Að við séum ekki að búa til einhverjar heimatilbúnar hraðahindranir á okkar fyrirtæki sem að hinir erlendu keppinautar þurfa ekki að glíma við.“

Erum við að gera það? „Á sumum sviðum erum við að gera það og ég held að ef við förum aðeins yfir í EES-samninginn þá hefur hann reynst okkur mjög vel síðasta aldarfjórðunginn. En það er margt sem má fara betur og þar held ég að við þurfum að líta í eigin barm. Það lítur þá kannski að tvennu, annars vegar það að við þurfum að fara inn í málin fyrr í ferlinu þegar við getum raunverulega haft áhrif og reyna þá að draga línu í sandinn þar sem það á við. Hitt er þegar kemur svo að innleiðingunni endanlega að þá sé horft til þessara hagsmuna atvinnulífsins að við séum ekki að setja óþarflega háar girðingar á fyrirtæki hér, ganga lengra í innleiðingu á regluverkinu heldur en gert er annars staðar þannig að það skekki ekki samkeppnisstöðuna hér fyrir innlend fyrirtæki á móti erlendum fyrirtækjum.“

Sigurður segir að við innleiðingu á regluverkinu þá þurfum við að hugsa í meira mæli um hagsmuni atvinnulífsins og máta það við Ísland. „Allavega ekki að vera að setja meiri skorður á fyrirtækjarekstur hér á landi en gengur og gerist annars staðar. Það eina sem gerist er að það skaðar samkeppnishæfni landsins sem þýðir bara minni verðmæti. Um leið og verðmætin verða minni þá verður minna til skiptanna fyrir okkur öll. Þannig að þetta hefur bein áhrif á lífskjör okkar allra.“

Sigmundur Ernir spyr Sigurð hvort við höfum vanrækt samninginn og leyft honum að rúlla sína leið? „Ég held að þetta snúist um að koma fyrr inn í málin, þar sem það á við. leggja línurnar strax í upphafi. Við sjáum það of oft að það er farið það seint inn í málin að það er erfitt að breyta einhverju en ef það er gert snemma þá getum við haft áhrif. Við eigum að horfa til þess í meira mæli.“

Þegar Sigmundur Ernir spyr Sigurð hvort hann mundi vilja hverfa aftur til baka til gömlu haftaáranna svarar hann: „Nei við viljum ekki gera það. Staðan er auðvitað ekki fullkomin í dag en þarna hefur sannarlega orðið framgangur sem hefur verið okkur til góða og skilað okkur heilmiklum lífskjarabótum.“ Um EES-samninginn segir hann að hann hafi heilt yfir reynst mjög vel. „Auðvitað er eitt og annað og þá sér í lagi í innleiðingu mála sem hefði mátt betur fara en svona heilt yfir þá hefur hann reynst vel. Það eru komnar yfir 9.000 reglur sem við höfum innleitt þaðan og heilt yfir eru þær til mikilla bóta.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Sigurð. 

SH-hringbraut-juni