Fréttasafn17. okt. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Íslensk stjórnvöld móti stefnu í raforkumálum

Íslensk stjórnvöld verða að móta sér stefnu í raforkumálum. Geri þau það ekki er hætt við því að stórnotendur raforku ákveði að flytja starfsemi sína úr landi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Jóhann Bjarna Kolbeinsson í fréttum RÚV en Samtök iðnaðarins kynntu í gær nýja skýrslu um íslenska raforkumarkaðinn. Í henni koma fram tillögur að úrbótum auk þess sem þar má finna upplýsingar um uppbyggingu og sérstöðu raforkumarkaðarins, skipulag og stjórnsýslu, raforkunotendur og raforkusamninga. „Helstu niðurstöðurnar eru kannski þær að það vantar stefnumótun í málaflokknum. Og kannski ákveðna samhæfingu. Við sjáum það auðvitað að samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði fer þverrandi.“ 

Sláandi munur á norska og íslenska raforkumarkaðnum

Í frétt RÚV kemur fram að á fundinum hafi markaðurinn hér á landi verið borinn saman við þann norska. „Og það er auðvitað sláandi munur á því umhverfi sem iðnaði er boðið upp á þar annars vegar og hér á landi hins vegar. Við sjáum það til dæmis í ákveðnu svigrúmi sem iðnaðurinn hefur. Hér á landi er til dæmis ekki heimilt að selja umfram orku inn á kerfið. Stórnotendur geta það ekki hér á landi en það er hægt úti. Og það leggur grunn að verðmyndun á raforkumarkaði úti. Virkur raforkumarkaður þýðir að verðmyndun er frjáls, og það þýðir líka ákveðið gagnsæi. En því er ekki fyrir að fara hér á landi. Stjórnvöld hér á landi nýta undanþágu frá EES samningnum til þess að upplýsa ekki um orkuverð þannig að það eru ekki upplýsingar um Ísland inni í gagnagrunni Eurostat. Þannig að þetta flækir auðvitað samanburð á milli landa og skerðir okkar samkeppnishæfni þegar kemur að því að laða að erlenda fjárfestingu.“

Vísbendingar um að samkeppnishæfni sé að minnka

En skiptir ekki máli að raforkuverð á Íslandi er frekar lágt, og kannski með því lægsta sem gerist í heiminum? „Við fjölluðum kannski ekki mikið um raforkuverðið sjálft á fundinum eða í skýrslunni. Við fjölluðum kannski meira um markaðinn og þá þætti sem mynda verðið. Sögulega séð hefur Ísland verið mjög samkeppnishæft á þessu sviði en það eru ýmsar vísbendingar um að samkeppnishæfni okkar sé að minnka. Þannig að það forskot sem við þekktum áður og höfum heyrt um, það hefur heldur minnkað með tímanum.“

Á hverju bitnar þetta helst? „Þetta bitnar auðvitað á iðnaði og á iðnfyrirtækjum. Ef stjórnvöld taka ekki af skarið og móta stefnu í málaflokknum, skýra stefnu, þá er auðvitað hætt við því að fyrirtæki fari að hugsa sinn gang.“

Meinarðu að þau fari þá að hugsa um að fara af landi brott? „Einhver fyrirtæki gætu gert það já.“

Hvaða fyrirtæki helst? „Þá erum við að horfa á stórnotendur raforku sem eru í ýmsum geirum.“

Þarf samræmi og samhæfingu á íslenskum raforkumarkaði

Í fréttinni kemur fram að Sigurður segi mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða. „Stefnumótun myndi taka á ýmsum þáttum sem snúa að markaðnum. Við skulum hafa það í huga að markaðurinn er fjórskiptur, það er ekki bara framleiðsla á rafmagni, heldur líka flutningur, dreifing og sala. Hver og einn þáttur eða hvert og eitt fyrirtæki á raforkumarkaðnum hugsar auðvitað bara um sig og sína hagsmuni, eðlilega. En það vantar samræmi á milli, og þessa samhæfingu. Og þar þurfa stjórnvöld að grípa inn í. Það eru atriði sem varða gagnsæi. Það er til dæmis eigendastefna fyrir raforkufyrirtæki í opinberri eigu. Sú eigendastefna er ekki til. Það er líka aukið svigrúm fyrir stórnotendur, samanber það að selja umfram orku inn á kerfið.“ Þá kemur fram í frétt RÚV að Sigurður segi það hafa vakið furðu Samtaka iðnaðarins, að ekki hafi verið leitað til stórnotenda raforku þegar unnið hafi verið við gerð raforkuspár fyrir Ísland, þar sem spáð er fyrir um orkuþörf í framtíðinni.

Sigurður segir að þessi mál skipti þjóðarbúið miklu máli. „Og það áhugaverða er að á síðasta ári var útflutningur á vegum stórnotenda raforku verðmætari en útflutningur sjávarafla, sem hefðu einhvern tímann þótt mikil tíðindi á Íslandi.“

RÚV, 16. október 2019.