Fréttasafn



30. maí 2016 Almennar fréttir

Íslenskur iðnaður til fyrirmyndar

Iðnaður á Íslandi aflar tæplega helmings gjaldeyristekna þjóðarinnar og hátt í fjórðungur landsframleiðslunnar verður til í iðnaði. Fimmti hver Íslendingur á vinnumarkaði hefur atvinnu af einhverskonar iðnaði sem getur verið af fjölbreyttum toga. Samtök iðnaðarins samanstanda af 1.400 fyrirtækjum og sjálfstæðum atvinnurekendum sem saman mynda hóp um 35 þúsund starfsmanna. Hjá Samtökum iðnaðarins starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga sem veita aðildarfyrirtækjum margvíslega þjónustu á hverjum degi af mikilli fagmennsku og þekkingu. Þær eru því ómaklegar ávirðingarnar sem félagarnir Sigurður Már Guðjónsson, bakara- og kökugerðarmeistari, og Helgi Steinar Karlsson, múrarameistari, senda til allra þessara aðila í grein sinni í Morgunblaðinu 20. maí síðastliðinn.  Ég get ekki orða bundist eftir lesturinn og ætla að taka upp hanskann fyrir íslenskan iðnað sem þeir félagar hafa ákveðið að ráðast á með heiftarlegum hætti.

Hlutverk Samtaka iðnaðarins er að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans. Stjórn og starfsmenn samtakanna taka þetta hlutverk mjög alvarlega og leggja sig fram við að sinna þessu mikilvæga hlutverki með sem bestum árangri. Árlega er gengið til kosninga í stjórn samtakanna þar sem sitja 10 manns úr ólíkum greinum iðnaðarins. Áhersla er lögð á lýðræðisleg vinnubrögð þar sem samvinna og þátttaka  félagsmanna er í forgrunni. Iðnþing er árviss viðburður þar sem lífleg umræða hefur skapast um helstu málefni iðnaðarins hverju sinni og þau krefjandi verkefni sem framundan eru. Á síðasta Iðnþingi komu saman um 400 manns þar sem rætt var um breytingar á mannauðnum, tækninni og umhverfismálum.

Samtök iðnaðarins skiptast í þrjú meginsvið þar sem hverju sviði tilheyrir fjöldi starfsgreinahópa og félaga með eigin stjórnir. Innan framleiðslu- og matvælasviðs starfa 12 starfsgreinahópar. Innan byggingar- og mannvirkjasviðs starfa 4 starfsgreinahópar og 11 félög iðnmeistara auk mannvirkjaráðs. Innan hugverka- og þjónustusviðs starfa 13 starfsgreinahópar auk hugverkaráðs. Þessi mikli fjöldi gefur vísbendingar um það öfluga grasrótarstarf sem á sér stað innan samtakanna þar sem allir hafa möguleika á því að koma sínum sjónarmiðum áfram. Á hverju ári eru haldnir tugir funda og ráðstefna til að ræða þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni meðal aðildarfyrirtækjanna. Þessa fundi sækir fólk í iðnaðinum til að afla sér þekkingar og nýrra sjónarhorna. Mörg þessara málefna skila sér í breytingum á löggjöf og reglugerðum. 

Helstu stefnumál samtakanna snúa að menntamálum, nýsköpun og framleiðni enda eru þessi þrjú málefni forsenda góðra lífskjara fyrir landsmenn. Atvinnulífið þarf á starfskröftum að halda með iðn-, verk- og tækniþekkingu, nýsköpun styrkir allar framfarir og framleiðni er nauðsynlegur grunnur verðmætasköpunar. Verkefnin eru því  fjölmörg sem unnið er að til að efla hvert þessara málefna. Þar leggja hönd á plóg starfsmenn aðildarfyrirtækjanna í samstarfi við starfsmenn Samtaka iðnaðarins með það að markmiði að gera umbætur í rekstrarumhverfi fyrirtækja í mismunandi iðngreinum.

Það hafa orðið miklar breytingar í atvinnulífi landsmanna frá stofnun samtakanna og þau því stækkað og þróast. Við stöndum enn styrkum fótum á þeim góða grunni sem byggður var í upphafi og erum stolt af sögu samtakanna. En það er nauðsynlegt að fylgja takti tímans og hafa áhrif á þróunina sem er stöðug. Það þýðir lítið að festast í fari gamalla tíma og reyna að halda aftur af eðlilegum umbreytingum. Starfsumhverfi iðnaðarins er að breytast með nýrri  tækni og öflugur mannauður sem stendur fyrir fagmennsku og gæði verður nú sem fyrr að vera til staðar. Framsýni og áræðni eru mikilvægir eiginleikar til að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins þar sem gera þarf nauðsynlegar breytingar meðal annars í mennta- og mannauðsmálum. Á hverjum degi hitti ég kraftmikið fólk sem er stolt af íslenskum iðnaði og vill honum allt það besta. Við erum ekki alltaf sammála um alla hluti enda er nauðsynlegt að skiptast á skoðunum með það að markmiði að efla íslenskan iðnað öllum til heilla.

Það er því með mikilli vissu sem ég vísa gagnrýni þeirra félaga til föðurhúsanna. Það væri ánægulegt ef þeir tækju frekar þátt í þeirri framþróun sem á sér stað í íslenskum iðnaði og þeim vexti sem framundan er frekar en að beina gamaldags spjótum sínum að iðnaðinum sjálfum og starfsmönnum og stjórn Samtaka iðnaðarins. Þeir eru hér með boðnir velkomnir á skrifstofur Samtaka iðnaðarins til að ræða kurteislega hvaðeina sem á þeim brennur. Ef þeir bera hag íslensk iðnaðar fyrir brjósti þiggja þeir þetta boð án mikillar umhugsunar. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins
Birt í Morgunblaðinu 28. maí 2016