Fréttasafn21. sep. 2020 Almennar fréttir

Íslenskur iðnaður verði drifkraftur endurreisnar

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sagði meðal annars í ávarpi sínu á Iðnþingi 2020 að íslenskur iðnaður væri reiðubúinn, nú sem endranær, að vera drifkraftur endurreisnar hagkerfisins. Hér fyrir neðan er ávarp formannsins: 

Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, félagsmenn og aðrir góðir áheyrendur,

Ég býð ykkur velkomin á Iðnþing 2020.

Eftir lengsta hagvaxtar- og stöðugleikaskeið á lýðveldistíma stöndum við hér og nú frammi fyrir gjörbreyttu landslagi í efnahags- og atvinnumálum eftir ríflega sex mánaða glímu við kórónuveiruna og afleiðingar hennar, sem enn sér ekki fyrir endann á. Óveðursskýin voru vissulega farin að hrannast upp í lok síðasta árs. Hagkerfið var farið að kólna, óvíst var um frekari vöxt og hvaðan hann ætti að koma. Heimsfaraldurinn hefur svo algjörlega breytt forsendum á alla kanta. Niðurstaðan er vígaleg kreppa og við höfum verk að vinna!

Einhverra hluta vegna hefur það ekki farið hátt, að iðnaður lagði afar mikið af mörkum til endurreisnar á liðnum áratug eftir síðustu kreppu. Umfang iðnaðar er mikið. Eitt af hverjum fimm störfum er í iðnaði, íslenskur iðnaður skapar ríflega fimmtung landsframleiðslunnar með beinum hætti og 40% til útflutnings. Þriðjungur vaxtar eftir hrun átti sér stað í iðnaði. Íslenskur iðnaður lagði þannig meira til endurreisnarinnar heldur en stærð hans gaf til kynna og iðnaðurinn getur á enn kröftugri hátt verið drifkraftur viðspyrnu hagkerfisins nú. Til þess þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að taka höndum saman og vinna hratt að uppbyggingu og bættum skilyrðum. Nýjar útflutningsgreinar og aukin verðmæti með nýsköpun í rótgrónum greinum þurfa að knýja vöxtinn til að viðhalda þeim lífskjörum sem við höfum búið við.

Á Iðnþingi í dag horfum við langt fram í tímann og ræðum hvernig móta má hagkerfið okkar þannig að það hvetji til verðmætasköpunar á nýjum grunni. Verkefni næstu þriggja áratuga er að skapa 60 þúsund ný störf á Íslandi eða um 40 ný störf á hverri viku til að tryggja góð efnahagsleg lífsgæði landsmanna. Þetta er hægt en þá þurfum við öll að leggjast á eitt og ganga í takt. Sýna samstöðu og gleyma okkur ekki alfarið í stundarvandanum og litlu málunum.

Og hvaða leið skal velja? Rétta leiðin er skýr í okkar huga. Virkjum hugvitið, þessa óþrjótandi auðlind okkar allra, í auknum mæli til verðmætasköpunar. Byggjum fleiri stoðir því ekkert hús er traustara en grunnurinn sem það stendur á! Það sama gildir um hagkerfið sem leggur grunn að lífsgæðum okkar. Á sama tíma er mikilvægt að hlúa að því sem fyrir er og hefur skapað frjósaman jarðveg fyrir næsta tímabil vaxtar, því allir geirar atvinnulífsins skipta okkur máli, sérstaklega í okkar litla hagkerfi.

Hingað til hefur okkur ekki gengið nógu vel að búa til nógu mörg stór, stöndug og lífvænleg fyrirtæki með reglubundnum hætti – sem er einn mælikvarðinn um árangur nýsköpunar. Við verðum því að vera óhrædd við að hugsa stórt, bæði til skemmri og lengri tíma. Ákvarðanir og aðgerðir næstu 12 til 18 mánaða munu líklega varða leiðina fyrir okkur þessa næstu áratugi. Við megum því engan tíma missa!

Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að varða veginn og skapa almenn góð skilyrði svo fyrirtæki og frumkvöðlar geti einbeitt sér að nýjungum. Ríkið á hins vegar ekki að velja sigurvegara eða að beina nýsköpun inn á tiltekin svið umfram önnur. Sóknarfærin liggja mjög víða en við þurfum að hreyfa okkur hraðar og gera róttækari breytingar á starfsumhverfinu en við höfum áður séð.

Ég skynja mikla samstöðu á hinu pólitíska sviði um að stórefla starfsumhverfi sem stuðlar að nýsköpun og fjölgun starfa á þeim grunni. Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka næstu skref í þá átt, bæði varðandi langtímamarkmiðin sem ég ræddi hér áðan og ekki síður skammtímamarkmið.

Veruleg aukning fjárframlaga til Tækniþróunarsjóðs og samtímis fjölgun úthlutunartímabila frá því sem nú er myndi skapa störf, ný verðmæti og auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Annað dæmi er hækkun á endurgreiðsluhlutfalli framleiðslukostnaðar erlendra kvikmyndaframleiðenda í verkefnum þeirra á Íslandi. Slík hækkun hefði strax í för með sér aukin umsvif bæði hjá kvikmyndaframleiðendum en einnig í ferðaþjónustu og tengdum geirum.

Góðir áheyrendur,

Atvinnulífið kallar stöðugt eftir aukinni tækniþekkingu og eflingu iðn-, verk- og starfsnáms þannig að færniþörf atvinnulífsins verði mætt á hverjum tíma. Lágt hlutfall brautskráðra á háskólastigi í svokölluðum STEM greinum dregur úr nýsköpun. Þessu þarf að breyta og þurfa háskólar og stjórnvöld að taka höndum saman í þeim efnum. Nú stendur yfir vinna varðandi fjármögnun háskólastigsins og þar þarf að setja upp rétta hvata til að fjölga nemendum í þessum greinum.

Við erum blessunarlega að ná áþreifanlegum árangri hvað varðar aðsókn í iðn- og starfsnám. Í samtölum mínum við ríki og sveitarfélög síðustu mánuðina hef ég lagt þunga áherslu á að ráðist verði í byggingu nýs Tækniskóla þar sem núverandi aðbúnaður skólans stendur iðn-, verk- og starfsnámi fyrir þrifum og skortir jafnframt nauðsynlegan sveigjanleika fyrir námskröfur framtíðarinnar. Slík bygging er að okkar mati lykilskref til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar og íslensks atvinnulífs í þessum málaflokki. Ég veit að félagsmenn okkar og atvinnulífið allt deila þessari skoðun okkar. Því ríður á að láta verkin tala og hrinda draumunum í framkvæmd!

Önnur fjárfesting sem mun skila sér margfalt til baka er fjárfesting í innviðum. Stórátak í uppbyggingu og viðhaldi innviða er í kortunum ef marka má yfirlýsingar stjórnvalda, sem er mikið fagnaðarefni. Fjöldi álitlegra aðkallandi verkefna eru fullhönnuð og bíða þess eins að verða sett í gang. Til að flýta þessum verkefnum enn frekar þarf að opna fyrir þátttöku einkafjárfesta, til að mynda lífeyrissjóðanna, inn í arðbærar innviðaframkvæmdir og koma því handbæra lausafé sem nú liggur inn á lágvaxta reikningum í vinnu, öllum hlutaðeigandi til heilla. Á nýju ári munum við hjá Samtökum iðnaðarins svo gefa út nýja skýrslu um ástand innviða og framtíðarhorfur, sem verður afar áhugavert að bera saman við stöðu mála eins og hún blasti við okkur árið 2017. Þá er það von okkar og trú að Alþingi hrindi nú í haust í framkvæmd löngu tímabærum umbótum hvað varðar skipulags- og byggingarmál en þar stendur flókið regluverk meðal annars í vegi fyrir hagkvæmri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Góðir áheyrendur,

Við þreytumst ekki á að minna á að fjárfesting í dag sé hagvöxtur á morgun og okkar skilaboð verða áfram að með fjárfestingum í innviðum, menntun og nýsköpun sé fjárfest í lífsgæðum og hagvexti framtíðarinnar. Með forgangsröðun fjármuna og fjárfestinga hefur ríkið mikið um það að segja hvað vex og dafnar. Þó mikilvægt hafi verið að bregðast við skyndilegri kreppu með skýrum aðgerðum til að verjast atvinnuleysi hefur okkur fundist það skjóta skökku við að stjórnvöld hafi nú í vor og sumar varið um 8 milljörðum króna í greiðslu launa starfsmanna á uppsagnarfresti til samanburðar við 5 milljarða fjárfestingar í nýsköpun og hagvexti framtíðar.

Og talandi um ört vaxandi atvinnuleysi, þessa miklu meinsemd sem við viljum öll uppræta sem allra fyrst. Í stað þess að daðra við þá hugmynd að hækka grunnatvinnuleysisbætur eins og ýmsir hafa þrýst á að undanförnu ætti þvert á móti að skapa aukna hvata fyrir fyrirtæki til að ráða atvinnuleitendur til starfa.

Allir vinna – 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna – er gott dæmi um slíkan hvata sem hefur beinlínis skapað störf einmitt þegar við þurftum á því að halda. Árangurinn af því er óumdeildur og samfélagið allt nýtur góðs af því. Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld að framlengja úrræðið, a.m.k. út næsta ár, til þess að viðhalda þessum hvata og skapa fleiri störf. Af sama meiði þrýsta atvinnurekendur mjög á um myndarlega lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda sem myndu skapa aukið rými til ráðninga starfsmanna og sköpun nýrra starfa. Álögur á atvinnulífið eru komnar langt úr hófi fram og einboðið að lækka skattheimtu til stuðnings aukinnar verðmætasköpunar. Fjölgun starfa er forgangsatriði og hvatar sem þessir munu skila árangri samstundis.

Um þessar mundir ræða aðilar vinnumarkaðarins sín á milli um hvort forsendur Lífskjarasamningsins sem undirritaðir voru í apríl 2019 haldi eður ei. Þó samningsforsendurnar séu þokkalega skilgreindar og afmarkaðar, þarf ekki að flytja langt mál um að forsendur allra hagkerfa, hvort sem það er á Íslandi, Norðurlöndum, Evrópu, Bandaríkjunum eða Asíu, eru brostnar vegna heimsfaraldursins. Þá er flestum ljóst að kaupmáttur launatekna muni rýrna í þessari kreppu. Það er því skiljanlegt að menn velti því fyrir sér í fúlustu alvöru hvort það sama ætti ekki að gilda um Lífskjarasamninginn.

Atvinnurekendur hafa gert verkalýðsforystunni skilmerkilega grein fyrir því að ekki sé innstæða fyrir launahækkunum um þessar mundir því svigrúmið sem áætlað var að myndi skapast á samningstímanum er horfið og miklu meira en það. Talað er fyrir daufum eyrum en verkalýðsforystan kýs að standa vörð um samningsbundnar hækkanir frekar en að standa vörð um störf sinna umbjóðenda. Samkvæmt nýlegri spá Hagstofunnar verður verðmætasköpun á næsta ári í hagkerfinu öllu heilum 60 milljörðum minni á föstu verðlagi en árið 2018. Sama spá gerir ráð fyrir að verðmætasköpun ársins 2018 náist ekki aftur fyrr en árið 2022. Þetta eru sláandi tölur. Tvær fyrstu launahækkanirnar samkvæmt Lífskjarasamningnum hafa aukið kaupmátt starfandi fólks verulega, einkum þeirra sem lægst hafa launin.

Góðir áheyrendur,

Liðnir eru dagar þægilegra umræðna um góða stöðu þjóðarbúsins. Liðnir eru dagar launahækkana umfram svigrúms í efnahagslífinu. Liðnir eru dagar hægfara umbóta og hagvaxtar án fyrirhafnar. Upp er runninn tími samdráttar og atvinnuleysis sem þarf að vinna bug á. Upp er runnið tímabil djarfra ákvarðana og mótunar atvinnustefnu til lengri tíma en eins kjörtímabils.

Þótt spáin sé slæm og útlitið ljótt skulum við þrátt fyrir allt ekki gleyma öllum sóknarfærunum sem blasa við okkur. Við þurfum á samhentu átaki að halda til að okkur auðnist að skapa 60 þúsund ný störf næstu þrjá áratugina. Vaxtarmöguleikar grunnstoða hagkerfisins eru takmarkaðir og því verður vöxturinn að koma annars staðar frá.

Farsóttir mannkynssögunnar kenna okkur að áhrif þeirra á líf, heilsu og efnahag eru mikil á meðan þær vara. Þær kenna okkur líka, að um er að ræða tímabundið ástand, og samfélög og hagkerfi rísa með kröftugum hætti upp að loknu slíku ástandi. Nú ríður því á að gera tímabil niðursveiflu eins stutt og mögulegt er með myndarlegri viðspyrnu á grundvelli vel ígrundaðrar áætlunar, í stað tilviljana eða pólitískrar skammtímahentisemi. Íslenskur iðnaður er reiðubúinn, nú sem endranær, að vera drifkraftur endurreisnar hagkerfisins.

Si_idnthing_2020-14Árni Sigurjónsson, formaður SI.


Hér fyrir neðan er hægt að horfa á ávarp formanns SI: