Fréttasafn



21. feb. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Jákvætt útspil ráðherra

Í Morgunblaðinu í dag ræðir Þóroddur Bjarnason, blaðamaður, við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir að samtökin fagni orðum Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í Viðskiptapúlsinum og Morgunblaðinu í gær, þar sem hún segir að ríkisstjórnin verði að grípa strax til aðgerða til að sporna við frekari slaka í hagkerfinu og segir að umfang aðgerðanna þurfi að nema að minnsta kosti 2% af landsframleiðslu, eða 50 milljörðum króna. „Þetta er mjög jákvætt útspil, og það er líka gott að sjá samstöðuna í viðbrögðum formanna hinna stjórnarflokkanna.“ Ingólfur segir að SI hafi talað um það í nokkurn tíma að full þörf væri á að fara í innviðaframkvæmdir. „Að fara í framkvæmdir nú myndi lyfta undir eftirspurnina í hagkerfinu, og í leiðinni bæta samkeppnishæfni okkar en hvort tveggja myndi auka hagvöxt og atvinnusköpun. Innviðir hér á landi eru grundvöllur gjaldeyrissköpunar þjóðarbúsins. Fjárfesting þar hjálpar því til við að undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Með framkvæmdum væri einnig tekið á þeirri uppsöfnuðu þörf sem myndast hefur á síðustu árum á sviði innviða.“ Ingólfur bætir við að skorið hafi verið niður í kjölfar efnahagsáfallsins árið 2008, og á sama tíma hafi notkun á innviðum vaxið, ekki hvað síst samgönguinnviðum þar sem uppsöfnuð viðhaldsþörf sé nú mikil. 

Beita peningamálum og opinberum fjármálum til að snúa samdrætti í vöxt

Í fréttinni kemur fram að Ingólfur segi að ef skoðað sé hvaða hagstjórnartæki séu í boði um þessar mundir til að snúa samdrætti hagkerfisins í vöxt að beita eigi peningamálum og opinberum fjármálum. „Ríkisfjármálin eru vel í stakk búin til að mæta þeirri áskorun. Skuldastaða ríkissjóðs er lág og vextir eru lágir sögulega séð. Svigrúm er til að auka halla ríkissjóðs og hvetja þannig hagkerfið til vaxtar. Við þetta bætast síðan aðgerðir í peningamálum en stýrivextir Seðlabankans hafa verið lækkaðir allnokkuð á síðustu mánuðum. Auka þarf framboð lánsfjármagns til þess að efla fjárfestingu atvinnuveganna sem hafa dregist umtalsvert saman undanfarið.“ 

Fjármagnið fari í framkvæmdir sem skila mestum þjóðhagslegum ávinningi

Þá segir í fréttinni að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi sagt í umræðum um málefnið á Alþingi í gærmorgun, að menn yrðu að horfa í auknum mæli til arðsemi þeirra fjárfestinga sem farið verður í og taki Ingólfur undir með Bjarna. „Fjármagnið til þessara framkvæmda er takmarkað og við verðum að nýta það vel. Í því sambandi skiptir miklu að það fari til þeirra framkvæmda sem skila mestum þjóðhagslegum ávinningi.“ 

Söluferli á Íslandsbanka gæti hjálpað til við fjármögnun innviðaframkvæmda

Jafnframt segir í fréttinni að Bjarni hafi einnig minnst á það á Alþingi að nýta ætti söluna á Íslandsbanka til að fjármagna innviðaáttak. „Þessi hugmynd er ekki ný. Til að fara í stórátak, er hjálplegt að tefla fram sölunni á bankanum. Hins vegar þarf að gæta að því að söluferlið, sem tekur tíma, tefji ekki að farið sé í innviðaframkvæmdir. Að setja söluferlið af stað gæti hins vegar hjálpað til við fjármögnun innviðaframkvæmdanna.“ 

Lækka tryggingagjald og fasteignaskatta

Ingólfur segir að innlent kostnaðarstig sé hátt um þessar mundir og samkeppnisstaða þeirra íslensku fyrirtækja sem helst keppa við erlend veik í því ljósi. „Erfið samkeppnisstaða dregur úr möguleikum til vaxtar gjaldeyristekna sem hagkerfið þarf sárlega um þessar mundir. Hægt er að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja með lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatts. Við höfum bent á að fasteignaskattar hafa verið að hækka hér á sama tíma og hagkerfið er í niðursveiflu. Þetta eru rétt um 30 milljarðar sem fyrirtæki greiða til sveitarfélaga í formi fasteignaskatta á fyrirtæki í ár. Það er full þörf á því að sveitarfélögin axli ábyrgð í hagstjórninni og lækki þessar álögur. Síðan er tryggingagjaldið yfir 100 milljarðar, og leggst beint ofan á vinnuaflskostnað. Í raun er ein besta leiðin til að fá fyrirtækin til að ráða meira af fólki, að draga úr kostnaði við vinnuafl. Það getum við gert með því að lækka tryggingagjald, og er alveg gráupplagt við þessar aðstæður.“ 

Morgunblaðið, 21. febrúar 2020.