Fréttasafn7. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Jákvætt viðhorf til íslenskrar framleiðslu

Á Framleiðsluþingi SI sem haldið var í Hörpu í gær sagði Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, frá helstu niðurstöðum úr könnun sem Gallup framkvæmdi til að kanna viðhorf landsmanna til íslenskra framleiðslufyrirtækja og íslenskra framleiðsluvara. Niðurstöðurnar sýna að landsmenn eru jákvæðir gagnvart hvoru tvegga en 81% sögðust vera jákvæðir gagnvart íslenskum framleiðsluvörum og 77% eru jákvæðir gagnvart íslenskum framleiðslufyrirtækjum. Könnunin leiddi í ljós að jákvæðnin var meiri meðal eldri aldurshópa en þeirra yngri. 

Þegar spurt var hvað væri það fyrsta sem viðkomandi dytti í hug þegar hugsað væri um íslensk framleiðslufyrirtæki og íslenskar framleiðsluvörur sýndu niðurstöðurnar að flestir nefndu eitthvað jákvætt og voru nokkur orð sem voru oftar nefnd en önnur líkt og íslenskt já takk, gæði, fiskur, atvinna, skyr, hreinleiki, mjólkurvörur, hrein orka, góðar vörur, sjávarútvegur, matvörur osfrv. Þó nokkrir nefndu orðið dýrt en Bryndís sagði að það þyrfti ekki endilega að vera neikvætt því yfirleitt fylgdi gæðum að vera á hærra verði.

Uppruni og gæði ráða ferðinni

Þegar spurt var hvers vegna íslenskar vörur væru valdar voru flestir sammála því að það væri vegna upprunans og gæðanna. Færri voru sammála þeim fullyrðingum að íslensk framleiðslufyrirtæki væru samfélagslega ábyrg og að íslenskar framleiðsluvörur væru frumlegar. Þá voru 61% sammála því að geta hugsað sér að vinna hjá íslensku framleiðslufyrirtæki.

Í máli sínu vék Bryndís einnig að mikilvægi nýsköpunar fyrir framleiðsluiðnaðinn og sagði að stjórnvöld þyrftu að gera betur í að hvetja til rannsókna og þróunar. Hún sagði að lönd sem væru leiðandi í framleiðslu væru í stöðugri nýsköpun og fjárfestu í rannsóknum og þróun. Almennt væri framlag til rannsókna og þróunar ekki hátt hér á landi í alþjóðlegum samanburði en um helmingur fyrirtækja í framleiðsluiðnaði hér á landi stundaði nýsköpun 2014-2016. Bryndís sagði að það hlutfall þyrfti að hækka.

_D4M9120

Skilin milli framleiðslu og þjónustu er að minnka

Í könnun sem SI stóð fyrir meðal félagsmanna sinna var spurt um vöruþróun og nýsköpun og sagði Bryndís að svörin hefðu verið mismunandi, meðal annars stunduðu þau slíkt til að bæta samkeppnishæfni fyrirtækisins, auk þess sem það hefur bætt undirliggjandi rekstur og afkömu, einfaldað verkferla, aukið traust og ánægju viðskiptavina. 

Þá sagði Bryndís frá því að skilin á milli framleiðslu og þjónustu væru að minnka og að þjónusta í framleiðslu væru gæði sem auka virði. Með framleiðslu á Íslandi væri stuðlað að stuttum afhendingartíma í hröðum heimi og aðstaða til að bregðast hratt við breytingum. Þá skipti máli aðlögunarhæfni og þekking á þörfum heimafólks. 

Í lok erindis Bryndísar var sýnt myndband þar sem fólkið á götunni var spurt um íslenskar vörur. 

Hér er hægt að nálgast glærur Bryndísar

Hér er hægt að nálgast myndbandiðmyndbandið