Fréttasafn



27. mar. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Krafa um aðkomu erlendra aðila að Kríu gæti reynst íþyngjandi

Það má íhuga hvort rétt sé að taka fram í væntanlegu frumvarpi að sjóðirnir sem Kría muni styðja við verði að vera nýstofnaðir, lokaðir og þurfi að hafa ákveðið umfang en það gæti aukið skýrleika væntanlegra laga. Þá vilja samtökin benda á að krafa um aðkomu erlendra aðila gæti reynst íþyngjandi. Þetta kemur fram í umsögn SA og SI um drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, mál nr. 79/2020, sem send var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í gær. En í greinargerð er tekið fram, án þess að þess sé getið í frumvarpsdrögunum, að sjóðirnir sem Kría muni styðja við þurfi að vera nýstofnaðir, að þeir séu lokaðir, að þeir séu að lágmarki 4 milljarðar króna að umfangi og að þeir megi ekki hafa hafið fjárfestingar. Í frumvarpsdrögunum sjálfum kemur fram að eignarhlutur Kríu í einstökum sjóðum geti numið að hámarki 2 milljörðum króna og fari ekki yfir 30% af viðkomandi sjóði.

Í umsögninni segir jafnframt að samtökin lýsi yfir stuðningi við frumvarpsdrögin þar sem ætlunin er að stofna til sérstakrar markáætlunar um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum með nýjum sjóði, Kríu, sem tekur þátt í fjármögnun sjóða sem annist síðan fjárfestingar. Samtökin telja jákvætt að ríkissjóður hvetji til stofnunar sjóða sem fjárfesta í íslenskum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum án þess að ríkið sé sjálft leiðandi eða beinn fjárfestir í atvinnulífinu. Þarna sé um að ræða viðbót sem fylli í ákveðið rof í keðju sem leiði frá rannsóknum, tækniþróun og að því að fyrirtæki þurfi að leita sér fjármögnunar í formi eiginfjár til að styðja við frekari nýsköpun og ekki síður að koma hugviti, þjónustu og vörum á markað – sem oft reynist þrautin þyngri. Markmiðið með Kríu á að mati samtakanna að vera að stuðla að þroskuðu fjárfestingarumhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja sem styður við vöxt á alþjóðamörkuðum. 

Þá kemur fram í umsögninni að samtökin telja mikilvægt að framlag ríkisins til Kríu verði ekki til þess að draga úr fjármagni sem rennur til Tækniþróunarsjóðs sem sé mikilvægasta tæki ríkisins til að styðja við rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í atvinnulífinu og samstarf fyrirtækja, stofnana og háskóla.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.