Fréttasafn



7. feb. 2022 Almennar fréttir

Kveðja frá formanni SI

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sendi félagsmönnum SI kveðju í byrjun febrúar þar sem hann fer meðal annars yfir helstu málefni vinnumarkaðarins, Útboðsþing SI sem haldið var í janúar síðastliðnum og kosningar til stjórnar SI og Iðnþing 2022 sem eru framundan. 

Kæru félagar,

Febrúarmánuður heilsar með væntingum um betri tíð með blóm í haga, langþráðum afléttingum sóttvarnaaðgerða og endurheimt heilbrigðis þjóðarinnar. Þó eru sömuleiðis blikur á lofti í efnahagsmálum – verðbólga hefur ekki verið hærri hérlendis í áratug og háar verðbólgutölur hrjá helstu viðskiptalönd okkar.

Efnahagslegar afleiðingar kórónukreppunnar koma þannig fram ein af öðrum. Hækkun verðbólgu hérlendis byggir þó ekki eingöngu á erlendum orsökum því um þriðjungur verðbólgunnar er drifin áfram af verðhækkunum á húsnæði. Framboð á nýju húsnæði hefur langt í frá fullnægt eftirspurn síðustu árin, sem hægt er að rekja til vaxtalækkana og aukins kaupmáttar landsmanna. Þetta hafa Samtök iðnaðarins bent á með reglubundnum hætti síðustu ár, en íbúðatalningar frá árinu 2019 hafa sýnt, svo ekki sé um villst, hvert stefni í þessum efnum. Íbúðum á fyrstu byggingarstigum hefur sannarlega fækkað sem er skýr fyrirboði um minnkandi framboð húsnæðis.

Við höfum lagt þunga áherslu í málflutningi okkar að stjórnvöld og ekki síst sveitarfélög bregðist skjótt við þessum vanda með margþættum aðgerðum, þar sem lóðarskortur og flækjustig í skipulags- og byggingamálum eru helstu flöskuhálsar byggingaframkvæmda. Vandamálið verður ekki leyst í skyndi en skjótra aðgerða er engu að síður þörf svo land fari að rísa eins fljótt og unnt er. Þar munu Samtök iðnaðarins áfram leggja sín mikilvægu lóð á vogarskálarnar.

Málefni vinnumarkaðar

Húsnæðismálin og verðbólgan eru nú þegar farin að setja mark sitt á málflutning forystumanna launþegahreyfingarinnar í upptakti þeirra að kjaraviðræðum ársins. Enn sem komið er hafa fáar raunhæfar tillögur að lausnum komið frá þeim. Það mun einfaldlega ekki duga að kæfa niður eftirspurnina og stórauka leigu-, vaxta- og barnabætur, eins og lagt hefur verið til af þeirra hálfu. Þessi erfiða staða einfaldar ekki komandi kjaraviðræður, en enn er tími til að grípa til samstilltra aðgerða stjórnvalda, atvinnurekenda og launþega í húsnæðismálum. Eins og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, hefur réttilega bent á munu allar aðgerðir til að auka framboð af íbúðum litið til næstu mánaða og ára hafa áhrif á verðbólguvæntingar, sem er lykilatriði í þessari stöðu.

Aðilar vinnumarkaðarins munu hafa einna mesta möguleikann á að grípa til mótvægisaðgerða gegn neikvæðri verðbólguþróun með samstilltu átaki til að koma aftur á stöðugleika í efnahagsmálum og því lágvaxtaumhverfi sem ríkti hér um stundarsakir. Gleymum því ekki að við eigum margt sameiginlegt og ættum því að geta snúið bökum saman í ýmsum framfaramálum. Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins geti átt yfirvegað samtal um hvaða áhrif hinar breyttu stoðir útflutnings hafa á vinnumarkaðinn, tækifærin sem framundan eru og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að efla velsæld landsmanna. Sem fyrr er mikið í húfi fyrir alla aðila að vel takist til í þessari lotu kjaraviðræðna.

Útboðsþing SI

Á rafrænu Útboðsþingi SI, sem haldið var þann 22. janúar sl., kynntu fulltrúar 11 opinberra aðila fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir á árinu. Í greiningu sem Samtök iðnaðarins gáfu út í tengslum við Útboðsþing SI kemur fram að samanlagt séu áætlaðar verklegar framkvæmdir hins opinbera á þessu ári samtals 109 milljarðar sem er 15 milljörðum króna minna en kynnt var á Útboðsþingi SI á síðasta ári. Sá samdráttur er verulegt áhyggjuefni að okkar mati. Í ávarpi mínu lagði ég mikla áherslu á mikilvægi þess að fjárfesting í innviðauppbyggingu sé næg og viðhaldi innviða sinnt, en með slíkum fjárfestingum er frekari stoðum rennt undir hagvöxt og lífsgæði framtíðarinnar. Við teljum því mikilvægt að ekki sé dregið úr útboðum opinberra fjárfestinga á sviði innviða. Þvert á móti er ástæða til að auka útboð fjárfestinga í innviðum og tryggja framgang efnahagslega arðbærra verkefna á því sviði.

Þá er okkur öllum morgunljóst að sum innviðaverkefni eru brýnni en önnur. Sú staðreynd að orkuskortur blasi við okkur hlýtur að kalla á sérstakar ráðstafanir, bæði í aukinni framleiðslu raforku og annars konar rafeldsneytis, auk uppfærslu á flutningskerfi raforku, sem á stórum köflum er úr sér gengið sem leiðir til óásættanlegrar sóunar verðmæta. Fyrir okkur sem byggjum þetta land, heimilin í landinu og fyrirtæki sem nýta þessa einstöku auðlind okkar, hlýtur að vera sjálfsögð krafa að gengið verið hratt og hreint til verks í þessum efnum. Jákvæð orkuskipti eru að raungerast og hin græna iðnbylting er í fullum gangi. Við sem samfélag getum leyst úr þessum vanda með samhentu átaki.

Í ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra á Útboðsþingi SI kom m.a. fram að stjórnvöld ætli að bregðast við þungu og langdregnu skipulagsferli og lóðaskorti. Ríkið beri ábyrgð á að einfalda regluverk en sveitarfélög þurfi að tryggja skjóta afgreiðslu. Til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði þurfi að ganga lengra en gert hefur verið. Flutningur bygginga-, húsnæðis- og skipulagsmála yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti mun vafalítið stuðla að auknum málshraða, færri flöskuhálsum og samræmdri stefnu í þessum málaflokkum. Þá hefur ráðherra verið afar jákvæður gagnvart samvinnuleið ríkis og einkaaðila í fjármögnun uppbyggingar innviða og nú þegar eru nokkur samvinnuverkefni á leiðinni af teikniborðinu yfir í framkvæmdafasa, sem er fagnaðarefni.

Iðnþing og kosning til stjórnar SI

Iðnþing 2022 fer fram fimmtudaginn 10. mars nk. Undirbúningur er í fullum gangi og vonir standa til að samkomutakmarkanir verði í lágmarki þannig að við getum sem flest hist og átt langþráð samtal um brýn hagsmunamál íslensks iðnaðar. Ég hvet ykkur til að fylgjast vel með þegar nær dregur og taka daginn frá.

Í aðdraganda Iðnþings fara fram rafrænar kosningar til stjórnar Samtaka iðnaðarins. Að þessu sinni verður kosið til formanns og fimm stjórnarsæta. Auglýst hefur verið eftir tilnefningum til þessara trúnaðarstarfa. Tilnefningar verða að hafa borist eigi síðar en 10. febrúar nk. til skrifstofu Samtaka iðnaðarins á tölvupóstfangið adalfundur@si.is. Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á að láta til sín taka í þeim mikilvægu verkefnum og tækifærum sem bíða íslensks iðnaðar að gefa kost á sér til þessara trúnaðarstarfa.

Mínu fyrsta kjörtímabili sem formaður Samtaka iðnaðarins lýkur á komandi Iðnþingi. Þessi ár mín í embætti hafa liðið fljótt og vissulega þróast með öðrum hætti en ætlað var. Það hafa verið mikil forréttindi að fá að leiða þessi öflugu samtök á liðnum tveimur árum og ég er afar stoltur af þeim árangri sem við höfum í sameiningu náð fyrir íslenskan iðnað á krefjandi tímum heimsfaraldurs og efnahagsáfalla. Stór hagsmunamál og verkefni bíða þó úrlausnar á komandi misserum, þar með talið þau mál sem ég hef vikið að hér að framan. Auk þeirra verða málefni orku-, umhverfis- og loftslags, grænna lausna, menntunar og nýsköpunar í deiglunni. Verkefninu er því fjarri lokið og metnaður minn til frekari árangurs er mikill. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi starfa sem formaður Samtaka iðnaðarins, fái ég til þess stuðning ykkar og traust.

Með góðri kveðju,

Árni Sigurjónsson, formaður SI.