Fréttasafn



4. maí 2020 Almennar fréttir

Kveðja frá formanni SI til félagsmanna

Kæru félagar,

Ég vil byrja á því að þakka af heilum hug fyrir það mikla traust sem þið hafið nú sýnt mér og ég tek auðmjúkur og stoltur við kosningu til formanns Samtaka iðnaðarins. Þá þakka ég þá hvatningu sem ég fékk úr mörgum áttum að gefa kost á mér til þessa starfa – og ekki síður samtölin við fjölmarga félagsmenn á undanförnum vikum í tengslum við kosningarnar. Þau veita mér mikilvægt veganesti inn í verkefni komandi vikna og mánaða og ég hlakka til að vera í nánu sambandi við sem flest ykkar á meðan ég stend í brúnni.

Ég vil nota þetta tækifæri og færa Guðrúnu Hafsteinsdóttur, fráfarandi formanni Samtaka iðnaðarins, innilegar þakkir fyrir mikilvægt og afar óeigingjarnt starf í þágu íslensks iðnaðar og atvinnulífs síðastliðin 9 ár, þar af síðustu 6 ár sem formaður. Við Guðrún höfum átt afar ánægjulegt samstarf frá því að ég tók fyrst sæti í stjórn SI fyrir 4 árum síðan og það verður vissulega verðugt verkefni að feta í fótspor hennar. Ég treysti því að við fáum fljótlega tækifæri til að hylla Guðrúnu með viðeigandi hætti.

Þá þakka ég mótframbjóðanda mínum í formannskjörinu og frambjóðendum til stjórnar fyrir að hafa gefið kost á sér til starfa fyrir samtökin okkar. Það skiptir gríðarlega miklu að svo öflugir einstaklingar stígi fram og bjóði fram vinnu sína og tíma til að gæta hagsmuna félagsmanna.

Frábær þátttaka félagsmanna í þessum kosningum sýnir svart á hvítu þann áhuga og ræktarsemi sem þið sýnið samtökunum ykkar. Það er einkar mikilvægt á þessum fordæmalausu tímum, svo ég noti mest notaða orð ársins, að formaður og stjórn hafi í farteskinu sterkt og óskorað umboð félagsmanna sinna.

Verkefnin framundan eru ærin og staðan er snúin, því skal ekki neitað. Stjórnvöld hafa nú komið fram með þrjá aðgerðarpakka til að bregðast við ástandinu. Það ber að þakka fyrir skjót og myndarleg viðbrögð stjórnvalda en gæta þarf mjög að því að framkvæmd aðgerðanna verði fumlaus, gegnsæ og enn hraðari en við höfum séð þessar síðustu vikur. Samtök iðnaðarins hafa lagt mikið af mörkunum í allri þessari vinnu með stjórnvöldum og munum við standa vaktina svo lengi sem þarf. Ég þakka starfsmönnum SI fyrir að hafa lyft grettistaki í samskiptum og samráði við félagsmenn sína á þessum óvissutímum, því saman ætlum að við að komast í gegnum þetta.

Á meðan fókus næstu daga og vikna verður áfram á skammtímamarkmiðunum – að verja afkomu fólks og fyrirtækja í landinu og vernda grunnstoðir samfélagsins – megum við alls ekki gleyma langhlaupinu. Þrátt fyrir að skyggnið sé slæmt þarf atvinnulífið allt að vera tilbúið að skipta úr vörn í sókn og ná kröftugri viðspyrnu þegar ástandinu léttir, sem við vitum að mun gerast.

Ég ítreka hér það sem ég hef áður sagt – um leið og við verjum þann öfluga iðnað sem fyrir er – byggingariðnað, framleiðsluiðnað og hugverkaiðnað – þarf að sækja fram undir merkjum nýsköpunar í öllum geirum því fjölbreyttara atvinnulíf veitir aukinn stöðugleika í efnahag þjóðarinnar og við þurfum fleiri hjól undir vagninn. Mikil sóknartækifæri eru á þeim vettvangi og jarðvegurinn frjór í núverandi ástandi. Þær tillögur sem eru nú til umfjöllunar á Alþingi um hækkun á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðs eru t.a.m. stórt og mikilvægt skref í þá átt – en enn verður rými fyrir frekari aðgerðir til hvatningar fyrir hvers konar nýsköpun. Með réttum aðgerðum og hvötum getur þriðji áratugurinn orðið áratugur nýsköpunar og við á sama tíma byggt undir nýja útflutningsstoð á sviði nýsköpunar, þekkingar og hugvits.

Umbóta er einnig þörf á ýmsum öðrum sviðum eins og í menntakerfinu, innviðauppbyggingu og starfsumhverfinu í heild. Þá munu málefni vinnumarkaðarins eflaust verða fyrirferðameiri næstu misserin en okkur óraði fyrir á liðnu vori þegar Lífskjarasamningar voru undirritaðir. Ég tek heilshugar undir orð fráfarandi formanns á aðalfundi SI í liðinni viku um alvarlega stöðu mála á vinnumarkaði og þær breytingar sem þar þurfa að eiga sér stað. Við hörmum að verkalýðshreyfingin skuli ekki sýna núverandi stöðu skilning og virðist einfaldlega kjósa að skila auðu. Á sama tíma og nær 50 þúsund manns eru án atvinnu eða í tímabundinni hlutastarfaleið þá eru það vonbrigði að verkalýðshreyfingin sé ekki reiðubúin að koma til móts við fyrirtækin með því að fresta launahækkunum og þannig verja störf umbjóðenda sinna.

Ég hef gífurlegan metnað fyrir framtíð Íslands. Þar gegnir framgangur og velferð atvinnulífsins lykilhlutverki. Þó ekki verði dregin dula á alvarleika núverandi stöðu og þá staðreynd að tölurnar tala sínu máli þurfum við að gæta okkar að tala okkur ekki inn í enn dýpri kreppu, nógu djúp verður hún samt. Líklega verður ástandið verra áður en viðspyrnan getur hafist. Gleymum því hins vegar ekki að það eru bjartari tímar framundan með hækkandi sól og samstaða okkar og aðgerðir munu tryggja árangursríka viðspyrnu. Verum raunsæ og yfirveguð í þessari vinnu – og leggjum okkar af mörkum með því að skipta eins og kostur er við innlend fyrirtæki í öllum geirum.

Við eigum frábært fagfólk og höfum aðgang að gæðavörum framleiddum af íslenskum iðnfyrirtækjum. Með því að styðja við innlenda framleiðslu, verslun og þjónustu sköpum við störf og verðmæti fyrir samfélagið allt.

Ég ítreka þakkir mínar til ykkar allra og bíð óþreyjufullur eftir að hitta nýja stjórn og starfsfólk Samtaka iðnaðarins og hefjast handa í sameiningu við að skrifa næsta kafla í merkilegri sögu Samtaka iðnaðarins og íslensks atvinnulífs, því senn birtir aftur til. Ég óska okkur öllum góðs gengis í verkefnum dagsins og næstu vikna. Áfram gakk!

Árni Sigurjónsson, formaður SI.