Fréttasafn



31. des. 2021 Almennar fréttir

Kveðja frá formanni SI um áramót

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sendi félagsmönnum SI kveðju nú um áramótin þar sem hann stiklar á stóru í starfsemi Samtaka iðnaðarins á árinu auk þess sem hann horfir fram á veginn á þær áskoranir sem framundan eru:

Kæru félagar,

Um leið og ég sendi ykkur öllum mínar bestu hátíðarkveðjur með ósk um farsæld, hamingju og heilbrigði á árinu 2022, er við hæfi að gera stuttlega upp árið sem nú er senn liðið á vettvangi Samtaka iðnaðarins.

Af mörgu er að taka í því krefjandi ástandi í íslensku þjóð- og atvinnulífi sem ríkt hefur og enn sér ekki fyrir endann á. Við höfum öll sem eitt þurft að glíma við ótal ný úrlausnarefni á tímum heimsfaraldurs og efnahagsóvissu, hvort sem er í atvinnurekstri eða heima fyrir. Sú þrautseigja og þolgæði sem íslenskur iðnaður og atvinnulífið í heild hefur sýnt á árinu eru lofsverð.

Okkur hefur þannig tekist að spyrna tímabundið við áfalli ársins 2020, en þrátt fyrir hátt hlutfall bólusettra og áframhaldandi aðgerðir í efnahagsmálum skapar hið nýja og útbreidda afbrigði veirunnar óvissu um næstu vikur og mánuði. Gera má ráð fyrir að erfitt verði að halda starfsemi fjölmargra fyrirtækja í sem eðlilegustu horfi ef spár rætast um mikinn áframhaldandi fjölda smita á komandi vikum með tilheyrandi einangrun og sóttkví. Það er því ekki laust við að erfitt sé að gera raunhæfar áætlanir og markmið í ýmsum geirum fyrir komandi ár.

Málefni vinnumarkaðar stöðugt í deiglunni – átök framundan?

Átök á íslenskum vinnumarkaði virðast því miður vera einhvers konar reglulegur taktur ef horft er til margra undanfarinna áratuga. Lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru í apríl 2019 munu renna sitt skeið síðla næsta árs og einsýnt að óbilgirni og ósveigjanleiki forystumanna launþegahreyfingarinnar, hvað varðar eðlileg viðbrögð við brostnum forsendum kjarasamninganna í kjölfar efnahagsáfallsins í byrjun síðasta árs, vekja ekki vonir um málefnalegar viðræður um framhaldið.

Auk umsaminna launahækkana er hinn svokallaði hagvaxtarauki líklegur til að koma til framkvæmda næsta vor, þrátt fyrir þann öldudal sem við höfum gengið í gegnum frá gerð samningsins. Skilaboð atvinnurekenda hafa verið skýr og tillögur lausnamiðaðar þar sem fjölmargar greinar atvinnulífs eru komnar umfram þolmörk hvað launakostnað varðar, til viðbótar við ört hækkandi verð á hrávöru og í aðfangakeðju. Þeim hugmyndum hefur öllum umsvifalaust verið hafnað, þvert á hagsmuni launafólks í landinu.

Óhjákvæmilega hefur þetta haft áhrif á verðlag og ýtt upp verðbólgu, sem er staða sem við getum ekki sætt okkur við. Viðbrögð Seðlabankans hafa verið skýr, vextir hækka og útlit fyrir frekari vaxtahækkanir. Aðilar vinnumarkaðarins munu hafa einna mesta möguleikann á að grípa til mótvægisaðgerða gegn þessari þróun með samstilltu átaki til að koma aftur á stöðugleika í efnahagsmálum og því lágvaxtaumhverfi sem ríkti hér um stundarsakir. Gleymum því ekki að margt eigum við sameiginlegt og ættum því að geta snúið bökum saman í ýmsum framfaramálum. Samvinna, samstarf og uppbyggilegt samtal er rétta leiðin – en sporin hræða og væntingar því dempaðar.

Í því skyni að undirbúa okkur fyrir komandi kjaraviðræður settum við af stað vinnu í öllum starfsgreinahópum og félögum innan raða Samtaka iðnaðarins sem miðar að því að greina ítarlega hagsmuni hverrar greinar í vinnumarkaðsmálum. Þessi vinna mun án efa nýtast Samtökum atvinnulífsins vel við mótun afstöðu fyrir kjarasamningsviðræðurnar. Í sama skyni kölluðum við saman fulltrúa Samtaka iðnaðarins í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins í byrjun nóvember til skrafs og ráðagerða. Þá hefur farið fram stefnumótunarvinna í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins og má vænta þess að þessir hópar verði kallaðir reglulega saman á næstu vikum og mánuðum til að undirbúa kjaralotuna sem best.

Iðnþing: Hlaupum hraðar – slítum fjötrana og sækjum tækifærin

Á Iðnþingi í mars sl. lögðum við áherslu á þau markmið sem þurfa að nást til að tryggja að efnahagsleg lífsgæði landsmanna verði að minnsta kosti jafngóð eða meiri en þau voru fyrir það efnahagsáfall sem við glímum enn við í kjölfar Covid-19 heimsfaraldurs. Til að það megi nást, þarf á tímabilinu að auka landsframleiðslu okkar um 545 milljarða króna, auka gjaldeyristekjur um 300 milljarða og skapa 29 þúsund störf, meðal annars til þess að ná niður atvinnuleysinu og mæta fjölgun landsmanna.

Í ályktun Iðnþings var lagt til að stjórnvöld slíti margvíslega fjötra með markvissum hætti og velji leið vaxtar, svo atvinnulífinu verði sköpuð þau skilyrði að hlaupa hraðar og skapa eftirsótt störf og aukin verðmæti. Samhliða Iðnþingi gáfu Samtök iðnaðarins út nýja skýrslu þar sem lagðar voru fram 33 tillögur að umbótum sem ráðast þyrfti í á næstu 12 mánuðum. Með þessari skýrslu vildu samtökin leggja sitt af mörkum til umræðunnar í aðdraganda kosninga.

Samtök iðnaðarins, sem hreyfiafl í íslensku samfélagi, vilja vinna með stjórnvöldum að umbótum til hagsbóta fyrir iðnaðinn, atvinnulífið og almenning í landinu. Ánægjulegt var að sjá hversu góðan hljómgrunn þessar tillögur okkar til úrbóta fengu og margar þeirra hafa nú þegar komið til framkvæmda eða rötuðu inn í stjórnarsáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar sem mynduð var í lok nóvember. Sú samvinna mun þannig skila miklum árangri, hraða uppbyggingu og skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – okkur öllum til heilla.

Alþingiskosningar, myndun ríkisstjórnar og nýr stjórnarsáttmáli

Í aðdraganda Alþingiskosninga var okkur tíðrætt um áðurnefndar umbótatillögur sem kynntar voru á Iðnþingi, auk helstu hagsmunamála íslensks iðnaðar og atvinnulífs – og þeirra tækifæra sem blasa við okkur. Fundir voru haldnir með forystumönnum flokkanna og þá blésum við til líflegs kosningafundar í Hörpu um miðjan september, þar sem fulltrúar flokkanna ræddu fjölmörg mál er varða íslenskan iðnað og stefnu flokkanna í þeim.

Eins og kunnugt er hélt ríkisstjórnin velli en tók sér góðan tíma til að koma sér saman um nýjan stjórnarsáttmála og tímabæra uppstokkun á stjórnarráðinu. Þegar sáttmálinn er rýndur og skilaboð ráðherranna sjálfra um lykiláherslur á kjörtímabilinu metin, tel ég ljóst að við gætum staðið á miklum tímamótum verði framkvæmdin í samræmi við markmið stjórnvalda. Hin skýra sýn um nýsköpunar- og tæknidrifið hagkerfi sem byggir á iðnaði til framtíðar lofar góðu og í því tilliti er einkar ánægjulegt að sjá hversu góðan hljómgrunn fjölmörg áherslumál Samtaka iðnaðarins hafa fengið.

Vert er að hafa í huga að á sama tíma og miklar breytingar eru að eiga sér stað í stjórnarráðinu er mikilvægt að leitað verði leiða til að draga úr umsvifum hins opinbera fremur en að auka þau. Skynsamleg nýting skattfjár er einn liður í endurreisn hagkerfisins eftir efnahagsáfallið sem við glímum við í kjölfar heimsfaraldursins. Ég hef hvatt ríkisstjórn og alþingismenn sömuleiðis til að halda áfram að slíta fjötra óhóflegs regluverks sem stendur íslensku atvinnulífi fyrir þrifum, hindrar vöxt og skerðir samkeppnishæfni.

Fjórða stoðin styrkist enn – hugverkaiðnaður í sókn

Sú ánægjulega staða birtist okkur á árinu að hugverkaiðnaður er orðinn fjórða stoð gjaldeyrisöflunar íslenska þjóðarbúsins til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður skapaði 16% af útflutningstekjum ársins 2020 og vöxtur undanfarinna ára sýnir að í hugverkaiðnaði felast gríðarleg tækifæri fyrir Ísland. Allar forsendur eru til þess að þessi fjórða stoð gjaldeyrisöflunar muni vaxa enn frekar á næstu árum og verða öflugasta og verðmætasta stoð hagkerfisins. Áherslur nýrrar ríkisstjórnar hvað þetta varðar munu vafalaust styrkja grunninn að þessum vexti og tryggja þannig bætt lífsgæði landsmanna.

Innviðir – ný skýrsla

Ný skýrsla Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi var kynnt í upphafi ársins. Líkt og fyrsta skýrslan, sem var kynnt árið 2017, vakti hún mikla athygli og fékk umfjöllun víða. Sem fyrr hefur innviðafjárfesting á mörgum sviðum verið of lítil undanfarin ár þrátt fyrir verulega aukningu fjármuna til þessa málaflokks síðustu ár. Að óbreyttu eru horfurnar víða ekki góðar og mikil uppsöfnuð þörf er fyrir innviðauppbyggingu.

Þá er ekki vanþörf á, að ítreka að verklegar framkvæmdir hins opinbera henta vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf, sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda um þessar mundir. Við þurfum áfram markvissar og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og leggja grunninn að sterkara efnahagslífi, svo okkur verði unnt að vinna okkur hratt og vel út úr efnahagslægðinni. Skilaboðin okkar hafa verið skýr – með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í lífsgæðum og hagvexti framtíðarinnar.

Sú staðreynd að nú hefur verið myndað sérstakt innviðaráðuneyti, með sameiningu málaflokka í samgöngu-, bygginga- og skipulagsmálum í eitt ráðuneyti, er afar ánægjuleg og í raun tillaga sem Samtök iðnaðarins hafa haldið á lofti um alllanga hríð. Vonir standa til að þessi breyting fækki flöskuhálsum, auki skilvirkni og málshraða og geri okkur þannig kleift að koma verkefnum í framkvæmdafasa fyrr en ella.

Innra starf og af vettvangi stjórnar

Mikið og öflugt starf fer fram á hverjum degi innan vébanda Samtaka iðnaðarins. Við búum svo vel að eiga mikinn mannauð í starfsfólki okkar sem leggur sig fram um að þjónusta félagsmenn eins vel og unnt er og sækja fram í hagsmunamálum íslensks iðnaðar. Þá hafa undirfélög og starfsgreinahópar verið afar virk á árinu undir öflugri forystu formanna og stjórna. Þessi breidd veitir okkur mikinn slagkraft. Mikil áhersla hefur verið lögð á eflingu innra starfs og skilvirkrar upplýsingagjafar til félagsmanna á þessum óvenjulegu tímum. Munum við halda áfram að vinna að því að þróa samtökin og vinna að breytingum sem gera okkur kleift að rækja hlutverk okkar sem best á hverjum tíma.

Á árinu var nýtt Matvælaráð SI stofnað sem ég bind miklar vonir við, enda eru mikil sóknartækifæri í íslenskum matvælaiðnaði. Sömuleiðis var síðla árs haldinn stofnfundur Samtaka vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda, sem er nýr starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Þar kemur saman öflugur faghópur fyrirtækja sem vilja hafa áhrif á uppbyggingu samkeppnishæfs starfsumhverfis og ímyndar Íslands sem ákjósanlegs lands fyrir framleiðslu á vetni og rafeldsneyti.

Um miðjan nóvember buðum við formönnum aðildarfélaga og ráða, stjórn og starfsmönnum til stefnumótunarfundar. Á fundinum var farið yfir núverandi stefnu og þann árangur sem hefur náðst með henni á síðustu þremur árum auk þess sem fundargestir tóku þátt í afar áhugaverðum umræðum um styrkleika, veikleika, tækifæri og ógnanir Samtaka iðnaðarins. Mikil umræða fór fram um tækifæri í loftslagsmálum, sjálfbærni og grænum lausnum, sem við munum vafalítið setja aukna áherslu á í stefnu og áherslumálum SI. Nú er unnið úr gögnunum og áformað er að ný og endurbætt stefna liggi fyrir á fyrstu mánuðum nýs árs.

Stjórn SI kom saman 12 sinnum á árinu og voru umfjöllunar- og viðfangsefni fjölbreytt. Sérstakur hátíðarfundur var haldinn í húsnæði Tækniskólans, hátíðarsal Stýrimannaskólans við Háteigsveg, þar sem um var að ræða 400. stjórnarfund frá stofnun Samtaka iðnaðarins. Fundurinn var helgaður menntamálum og voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, og Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, gestir fundarins. Þá lagði stjórnin land undir fót í júní og heimsótti nokkur aðildarfyrirtæki samtakanna á Vesturlandi, sem var afar ánægjulegt enda hafa tækifærin verið af skornum skammti undanfarin ár að heimsækja félagsmenn vegna sóttvarna. Er þess óskandi að brátt horfi til betri vegar hvað samskipti og samveru í raunheimum varðar.

Að lokum

Ég færi ykkur öllum þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu. Verkefni næsta árs eru stór og spennandi, sem ég hef fulla trú á að verði árangursríkt á mörgum sviðum – rétt eins og það ár sem við erum nú að kveðja. Stjórn og starfsfólk Samtaka iðnaðarins munu áfram leggja sig fram um að gæta hagsmuna íslensks iðnaðar í hvívetna. Sterkur iðnaður er grundvöllurinn að sterku efnahagslífi og öflugri viðspyrnu.

Með góðri kveðju,

Árni Sigurjónsson, formaður SI.