Fréttasafn22. feb. 2018 Almennar fréttir

Kosning til stjórnar SI hafin

Í samræmi við lög Samtaka iðnaðarins fara fram rafrænar kosningar í tengslum við Iðnþing. Í ár verður kosið um formann og fimm almenn stjórnarsæti. Hver félagsaðili hefur atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2017 og hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með því að greiða vangoldin félagsgjöld ársins 2017. Eigi síðar en hálfum mánuði fyrir Iðnþing verða sendir út atkvæðaseðlar með tölvupósti ásamt leiðbeiningum um tilhögun kosninganna. Sé þess sérstaklega óskað er unnt að senda félagsmanni upplýsingar um kosningu bréflega.

Framboðsfrestur til stjórnar SI og fulltrúaráðs SA rann út 6. febrúar. Bárust alls níu framboð til stjórnar SI og hér að neðan má sjá kynningu á frambjóðendum.

Í kjöri til formanns SI: 

Guðrún Hafsteinsdóttir 

Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss:

Ég er fædd inn í fjölskyldufyrirtækið Kjörís ehf. í Hveragerði og hef setið þar í stjórn í yfir tuttugu ár ásamt því að gegna þar ýmsum stjórnunarstöðum.

Ég var kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins vorið 2011 og kjörin formaður á Iðnþingi árið 2014. Þau fyrirtæki er standa að samtökunum koma úr ólíkum greinum iðnaðar og eru af öllum stærðum hringinn í kringum landið. Þó við séum ólík er gríðarlega mikilvægt að við gætum hagsmuna allra, jafnt smárra sem stórra fyrirtækja. Víðtækt samráð þarf að eiga sér stað og er mér umhugað um að draga fleiri að starfi samtakanna þannig að allar raddir fái að hljóma.

Ég vil sjá Ísland sem framúrskarandi stað fyrir íslensk fyrirtæki. Að hér á landi geti iðnaður þrifist, vaxið og dafnað í sátt við umhverfi sitt og samfélag. Til að svo geti orðið þarf að standa vörð um hagsmuni íslensks iðnaðar og gæta þess að íslensk fyrirtæki starfi á jafnréttisgrunni óháð staðsetningu og starfsemi.

Síðustu fjögur ár hef ég notið trausts félagsmanna SI til að leiða starf samtakanna. Ég er reiðubúin til áframhaldandi starfa fyrir íslenskan iðnað.

 

Í kjöri til stjórnar SI:

Árni Sigurjónsson 

As_marel_port1006Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur Marel:

Ég hef starfað hjá Marel frá árinu 2009 og tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu bæði hérlendis og utan landsteinanna. Það er í senn áskorun og forréttindi að breiða út íslenskt hugvit, verklag, tækniþekkingu og framleiðslu. Sprotinn og grunnurinn að starfsemi félagsins er engu að síður hér á Íslandi, sem er okkar lykilstarfsstöð. Ég hef setið í stjórn Samtaka iðnaðarins frá árinu 2016 og verið varaformaður samtakanna síðastliðið ár. Þá hef ég jafnframt setið í stjórn Samtaka atvinnulífsins sl. tvö ár og í framkvæmdastjórn þeirra samtaka síðasta árið. Nú býð ég mig fram til stjórnarsetu á nýjan leik til áframhaldandi vinnu næstu 2 árin fyrir alla félagsmenn Samtaka iðnaðarins.

Þau mál sem ég hef lagt lykiláherslu á er að standa vörð um og efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs, auknar fjárfestingar, mikilvægi og skipulag iðnmenntunar og sú stöðuga barátta að tryggja iðnfyrirtækjum viðunandi starfsumhverfi og viðeigandi regluverk, sem þarf að einfalda. Síðustu tvö árin hef ég einnig tekið virkan þátt í þeirri miklu vinnu sem hefur átt sér stað við endurskipulagningu á innra starfi samtakanna, starfsgreinahópa og ráða til að búa þau betur undir framtíðina.

Ég tel að menntun mín og reynsla úr íslensku atvinnulífi muni hjálpa til í þeim fjölmörgu umbótaverkefnum sem bíða nýrrar stjórnar Samtaka iðnaðarins og viðhaldi þeirri breidd sem er nauðsynleg í forystusveitinni. Því óska ég eftir stuðningi ykkar í stjórnarkjörinu sem framundan er. 

 

Agnes Ósk Guðjónsdóttir  

Agnes-GudjonsdottirAgnes Ósk Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri GK-Snyrtistofa:

Ég hef unnið í iðnaði í um 15 ár, mestan þann tíma hef ég einnig sinnt félagstörfum í þágu iðnaðarmanna. Ég er snyrtifræðingur að mennt með meistararéttindi og eigandi GK snyrtistofu í Mosfellsbæ. Ég er að ljúka Ba. gráðu í vor frá Háskólanum á Bifröst í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði og hef brennandi áhuga á menntun og tækifærum í iðnaði fyrir ungt fólk. Einnig sit ég í starfsgreinaráði, nefnd á vegum mennta- og menningamálaráðuneytisins og í stjórn Tækniskólans.

Innan stjórnar Samtaka iðnaðarins hefur starfað fjölbreyttur hópur fólks síðast liðin 2 ár. Ég hef verði ein af þeim, þar af leiðandi vil ég bjóða krafta mína, þekkingu og vilja til að starfa af heilum hug að baki iðnaðarins í landinu áfram. Ég tel að þekking mín og reynsla úr atvinnulífinu geti haldið áfram að nýtast Samtökum iðnaðarins  vel. Ég álít að í stórum samtökum líkt og SI sé mikilvægt að við stjórnarborðið sitji bæði fulltrúar stærri og minni fyrirtækja og að stjórnin endurspegli þannig þá miklu breidd fyrirtækja sem sannarlega er innan SI. Fjölbreytileiki er gríðarlega mikilvægur í hraða nútímans til að ná til sem flestra og því eru áherslur á sókn í menntamálum, nýsköpun og framleiðinni nauðsyn til að tryggja áframhaldandi hagvöxt. Með sterkum samtökum höfum við slagkraft til áhrifa fyrir iðnað í landinu, því óska ég eftir áframhaldandi stuðningi ykkar í stjórnarkjörinu sem framundan er.

Áherslur:  Tryggja íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði, fjölga verk- og tæknimenntuðum, efla endurmenntun í iðnaði, efla stuðning við nýsköpun og þróun, berjast gegn ólöglegri atvinnustarfsemi í þágu samfélagsins. 

 

Bergþóra Þorkelsdóttir

Bergthora-ThorkelsdottirBergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Ísam:

Ísam er fyrirtæki sem framleiðir og flytur inn matvöru og ýmsa sérvöru. Félagið framleiðir vörur undir vörumerkjum Myllunnar, ORA , Frón og Kexsmiðjunnar.

Sjálf hef ég  unnið við rekstur og stjórnun í yfir 20 ár. Bæði í framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum og bæði á uppgangstímum og í gegnum hrunárin. Það er mitt mat að þekking og reynsla mín á rekstri í matvælaiðnaði eigi erindi að stjórnarborði Samtaka iðnaðarins.

Helstu áherslur:

Íslensk framleiðslufyrirtæki starfa í síauknum mæli í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.  Því er nauðsynlegt að vinna að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í víðum skilningi þess orðs og skapa þannig  framsæknum fyrirtækjum forsendur til uppbyggingar og nýsköpunar á síbreytilegum markaði.

Miklar kostnaðarhækkanir ásamt sterku gengi hafa vegið verulega að mörgum íslenskum framleiðslufyrirtækjum undanfarin ár.  Að þessu þarf að huga með áherslu á almennar rekstrarforsendur og stuðning við nýsköpun og skapa þannig aukin verðmæti.

Íslensk iðnfyrirtæki  þurfa að huga að ímynd sinni bæði gagnvart neytendum þeirrar vöru og þjónustu sem þau framleiða en ekki síður gagnvart ungu fólki sem hugar að vali á menntun og starfssviði. Framleiðslufyrirtækin þurfa því  í auknum mæli að eiga sína fulltrúa í almennri umræðu og halda þannig á lofti þeim gæðum sem þau leggja íslensku samfélagi til.

Þá er það mín skoðun að nauðsynlegt sé að hlúa betur að menntun framtíðarstarfsmanna í framleiðslu og iðnaði.  Á þessum vettvangi eru mörg áhugaverð tækifæri sem draga þarf fram ásamt því að tryggja rétt iðnmenntaðra einstaklinga til frekari menntunar standi hugur þeirra til þess.

 

Birgir Örn Birgisson 

Birgir-Orn-BirgissonBirgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino´s: 

Ég er alinn upp í Borgarnesi, nam við Menntaskólann á Akureyri áður en ég lauk námi í hagfræði í Háskóla Íslands með viðkomu í Barcelona sem Erasmus-skiptinemi. Vann öll sumur með skóla hjá Vegagerðinni. Flutti því næst til Bandaríkjanna þar sem ég tók þátt í stofnun Strax sem selur farsíma og fylgihluti. Ég starfaði með Strax í 12 ár, fyrst í Miami, síðan Englandi og hin síðustu ár í Þýskalandi þar sem ég stýrði fylgihlutadeild félagsins sem var með starfsstöðvar í 16 löndum. Þegar heim til Íslands kom tók ég við stjórn Cintamani en síðar var ég hluti af fjárfestahópi sem keypti Domino´s og hef verið framkvæmdastjóri félagsins síðan 2011. Ég var einn af stofnendum Joe and the Juice á Íslandi og hef setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.

Hlutskipti mitt hefur oftar en ekki verið að ýta fyrirtækjum úr vör eða viðsnúningur í rekstri sem er hörð barátta en mjög lærdómsrík. Mér finnst hvergi betra að búa en á Íslandi og ég vil leggja mitt af mörkum til að bæta vinnuumhverfið fyrir okkur og komandi kynslóðir. Hér þarf að vera frjór jarðvegur fyrir frumkvöðla og nýsköpun, einfalt regluverk og löggjöf sem er fjarri því alltaf raunin, stöðugleiki í efnahagslífinu, tækifæri fyrir alla og menntun í fremstu röð. Um þetta hefur SI mikið að segja og á að beyta sér með skýra sýn.

Framundan eru kjaraviðræður og til þeirra þarf að vanda alveg sérstaklega. Enn er skortur á trausti í íslensku samfélagi og það gildir líka í atvinnulífinu, hér þarf alveg sérstakt átak því án trausts verða óeðlileg átök milli hagsmunaaðila. Það eru mörg fyrirtæki sem vagga nú óþægilega. Atvinnurekendur þurfa frið til að reka fyrirtækin með langtímasýn að leiðarljósi og þessi samningalota er þess mikilvægari.

SI rúmar um 1400 fyrirtæki sem mörg hafa ólíkar þarfir og búa við mismunandi veruleika. Það er áskorun en líka tækifæri fyrir samtökin. Sameinuð eru við sterk rödd og í stærðinni er hagkvæmni. Miklar breytingar hafa verið innanhúss síðustu ár til að skerpa áherslur og þjónusta félagsmenn með sem bestum hætti. Mikilvægt er að gera þetta í sem mestri sátt en samtökin eru lifandi og þurfa sífellt að gera betur. Þá kemur SI að lífeyrissjóðum landsins sem eru gríðarstórir og öflugir. Gott starf hefur verið unnið til að ramma inn þátttöku samtakanna en meira má gera. 

Í samantekt: Ég hef víðtæka alþjóðlega reynslu sem og íslenska, mest í framleiðslu, heildsölu og smásölu. Ég á gott með að vinna með fólki og er lausnamiðaður. Það eru mörg framfararmál sem ég vil gjarnan leggja lið og láta gott af mér leiða innan SI. Ég leita því eftir stuðningi við framboð í stjórn samtakanna.

 

Egill Jónsson

Egill-JonssonEgill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs Össurar:

Í auknum mæli starfa íslensk fyrirtæki í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og því mikilvægt að hér ríki stöðugleiki og sterk samkeppnishæfni á sem flestum sviðum.  

Ein af lykilforsendum þess að okkur takist að reka hér samfélag sem stenst fyllilega samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar á næstu árum er að bæta framleiðni  og skilvirkni í samfélaginu.  Að sjávarútveginum undanskildum hafa vandaðar athuganir sýnt að hér skortir á og það er sannarlega mikil áskorun og allra hagur að bæta úr því.

Einnig þarf að búa svo um að þróunarvinna, nýsköpun og iðnmenntun skipi hér hærri sess en raun ber vitni.  Langtum lægra hlutfall ungs fólks velur iðnmenntun hérlendis en á hinum Norðurlöndunum og úr því þarf að bæta.

Samtök iðnaðarins,  gegna ásamt fjölmörgum öðrum mikilvægu hlutverki við að móta framtíðarstefnu sem tryggir sem best öflugan atvinnurekstur, stöðugleika og aukna framleiðni í samfélaginu.

Ég hef setið í stjórn Samtaka iðnaðarins síðastliðin tvö ár og býð mig nú aftur fram til að leggja samtökunum áframhaldandi lið næstu tvö árin.

Ég er vélaverkfræðingur og á liðlega 30 ára starfsferli mínum hef ég starfað við ýmsar verklegar framkvæmdir og iðnaðaruppbyggingu, þar af hef ég síðustu 20 árin  leitt hraða uppbyggingu framleiðslusviðs Össurar hérlendis og erlendis.

Það er von mín að reynsla mín úr atvinnulífinu og einskær áhugi minn á að efla íslenskt atvinnulíf, öllum til hagsbóta, nýtist áfram vel á þessum vettvangi.

 

Guðmundur Skúli Viðarsson

Gudmundur_Vidarsson_Samtok_IdnadarinsGuðmundur Skúli Viðarsson, ljósmyndari og eigandi Myndsköpun Ljósmyndagerð ehf. og markaðsfræðingur Hertz á Íslandi: 

Eftir hefðbundna grunnskólagöngu varð iðnskólanám í prentsmíði fyrir valinu. Í stuttu máli öðlaðist ég sveins- og meistararéttindi í prentsmíði, fór síðan í  háskólanám í ljósmyndun 1984 sem lauk með BA gráðu frá Brooks Institute of Photography í Bandaríkjunum árið 1988. Öðlaðist síðar meistarabréf í ljósmyndun.  Hef starfað sl. ártugi við ljósmyndun, prentmiðlun, markaðsmál og verkefnisstjórn ýmissa verkefna ýmist sjálfstætt eða í fyrirtækjum bæði hérlendis og erlendis.  

Þetta skemmtilega og fjölbreytta iðnfag hefur fært mér margvíslega reynslu og hugmyndir sem ég hef sérstaka ánægju af að miðla til annarra. Hélt fyrstu persónulegu einkasýninguna "Íslenskar kirkjur í Vesturheimi" í tilefni 1000 ára kristnitöku á Íslandi í Gerðarsafni, þar sem allar íslenskar kirkjur í Bandaríkjunum og Kanada voru ljósmyndaðar og sagði sögu þeirra. Segja má að verkefnið sé afrakstur þessa skemmtilega iðnnáms.  Síðar átti ég þess kost að fara sem Fulbright styrkþegi til Bandaríkjanna í nám við háskólann í Minneapolis/St. Paul. Með þessa ólíku reynslu í iðninni og skólagöngu hef ég miðlað henni áfram sem varaformaður/ritari Ljósmyndarafélags Íslands um árabil en félagið fagnaði 92 ára afmæli á þessu ári.

Sem formaður sveinsprófsnefndar í ljósmyndun hef ég líka haft sérstaklega gaman af að fylgjast með ungu hæfileikaríku fólki feta sín fyrstu spor eftir nám inn í iðngreinina með hæfileika og listfengi í farteskinu við töku sveinsprófs. Starfa einnig  í stjórn Myndhöfundasjóðs Íslands, Myndstef, sem fer með hagsmunamál höfundarréttar myndverka hinna ýmsu einstaklinga, félaga og stofnana á Íslandi.

Fjölbreytileiki þeirra fagfélaga og fyrirtækja sem eru innan raða Samtaka iðnaðarins gera þau að öflugum talsmanni iðngreina í landinu. Þessum fjölbreytileika þarf að viðhalda og áherslur mínar væru að stuðla að auknum áhuga á iðnmenntun í landinu. Efla  tækifæri smærri fyrirtækja að taka nema á samning og greiða fyrir leiðum sem færar eru að því takmarki. Hafa áhrif á nútímavæðingu iðnmenntunar og sameina hin fjölbreyttu sjónarmið er stuðla að eflingu iðn- og háskólamenntunar í landinu til að geta af sér fjölbreytt fagfólk í öllum iðngreinum. Þessa rödd, frá rótgrónu fagfélagi sem  á sér 92 ára hefð og er innan raða SI, vil ég styrkja með því að bjóða mig fram til trúnaðarstarfa innan SI.

Ég er giftur Ingunni Bernótusdóttur viðskiptafræðing, og eigum við tvær dætur Evu Qiuxiang 10 og Þórunni Qingsu 13 ára ættleiddum frá Kína. Fjölbreytileiki mannlífsins, ferðalög til fróðleiks og skemmtunar, hjólreiðar, sagnfræði með áherslu á samspil sagnfræði og ljósmyndunar, og útivist í hressleika íslenskrar náttúru eru aðal áhugamálin.

Ykkar stuðningur til mín mun efla jákvæða og hugmyndaríka nálgun við málefni og verkefni stjórnar Samtaka iðnaðarins.

 

María Bragadóttir

Maria-BragadottirMaría Bragadóttir, VP Strategic Partnerships og framkvæmdastjóri Alvogen Iceland ehf.:

Ég býð mig fram til stjórnarsetu hjá Samtökum iðnaðarins í þeim tilgangi að bæta rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja með því að tala fyrir málefnum sem stuðla að bættum starfsskilyrðum slíkra fyrirtækja á Íslandi.  

Undanfarin 10 ár hef ég tekið þátt í uppbyggingu alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alvogen frá ýmsum hliðum, nú síðast sem framkvæmdastjóri Alvogen á Íslandi og sem VP Strategic Partnerships.  Í gegnum starf mitt hjá Alvogen hef ég enn fremur komið að uppbyggingu líftæknifyrirtækisins Alvotech. Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í heilsuhagfræði frá hagfræðiskori HÍ.  Þá stunda ég nám hjá IESE í Advanced Management Program (AMP).  

Alvogen selur í dag lyf sín í meira en 35 löndum en starfsstöðvar okkar hér á landi eru í hátæknisetri systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech í Reykjavík sem var tekið í notkun í júní 2016.  Innan setursins er unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem væntanleg eru á markað á næstu árum og er þar um að ræða eina fullkomnustu framleiðslusætu fyrir líftæknilyf í heiminum í dag.  Þau lyf sem nú eru í þróun eru háþróuð stungulyf sem meðal annars eru notuð við meðferð krabbameins- og gigtarsjúkdóma. 

Mikill árangur hefur náðst við að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja eins og Alvogen og Alvotech undanfarin ár, ekki síst fyrir tilstuðlan SI og Hugverkaráðs.  Í nýjum stjórnarsáttmála stendur: „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.”  Mörg mikilvæg málefni eru sett fram í stjórnarsáttmálanum sem var kynntur og styð ég þau heilshugar.

Með þeim málefnum sem þar eru sett á oddinn senda stjórnvöld skýr skilaboð til atvinnulífsins um að þeim sé alvara með að halda alþjóðlegum fyrirtækjum í landinu og að markmið þeirra sé að stuðla að frekari uppbyggingu á hugverkadrifnu hagkerfi á Íslandi til langs tíma. 

Með aðkomu að Samtökum iðnaðarins fæ ég tækifæri til þess að stuðla að því að þessu sé vel fylgt eftir og leggja mitt af mörkum við að kynna mikilvægi nýsköpunarfyrirtækja. 

 

Valgerður Hrund Skúladóttir

Valgerdur-Hrund-SkuladottirValgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa ehf.: 

Ég tel að Ísland hafi alla burði til að skara fram úr og tryggja framtíðar hagvöxt  Til þess að það megi verða er nauðsynlegt að iðnaðurinn vaxi og dafni.  Það byggir á að samkeppnisumhverfið sé í það minnsta sambærilegt í alþjóðlegu samhengi.  Þar ber að nefna regluverkið og sambærilegt skattaumhverfi og er í samkeppnilöndum okkar t.d. hvað snýr að þróunarkostnaði og sveigjanleika starfa.  Menntun og þjálfun í tækni- og iðngreinum er lykillinn af framtíðinni.  Þar þarf mikið verk að vinna á öllum skólastigum, ef Ísland ætlar ekki að dragast aftur úr hvað varðar nýsköpun og hæfni til að nýta sér nýja tækni og aðferðir til hagræðingar og arðsemi.  Samstarf og skilningur milli iðngreina er lykilatriði til að breytingar náist fram í brýnum hagsmunamálum.  Þar hefur SI unnið gott starf og náð fram mikilvægum áföngum m.a. hvað varðar lög um fjármögnun og rekstur nýsköunarfyrirtækja.  En betur má ef duga skal og því hef ég áhuga á að bjóða fram mína krafta í stjórn SI.

Ég hef unnið við rekstur, stjórnun og nýsköpun í tæplega þrjátíu ár.  Í tæplega 25 ár hef ég starfað í upplýsingatæknigeiranum, sem á þessum tíma hefur breytt starfsumhverfi allra starfsgreina og mun gera enn frekar á næstu árum.  Á þessum tíma hef ég tekist á að vera við stjórnvölinn í tveimur efnahagslægðum og miklum uppgangi og vexti með góðum árangri. Árið 2002 stofnaði ég Sensa og hef verið framkvæmdastjóri frá upphafi.  Sensa er upplýsingatæknifyrirtæki sem þjónustar fyrirtæki í öllum starfsgreinum, veltir 5 milljörðum og er með 130 starfsmenn.