Fréttasafn



  • Borgartún 35

29. apr. 2016 Almennar fréttir

Lækkun tryggingagjalds er brýnt hagsmunamál iðnaðarins

Samtök iðnaðarins fagna því að tryggingagjald lækki um 0,5 prósentustig frá 1. júlí 2016 samkvæmt frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Lækkun gjaldsins er brýnt hagsmunamál iðnaðarins enda leggst tryggingargjaldið sérstaklega þungt á fyrirtæki með hátt launahlutfall og mikinn innlendan virðisauka.

Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að stjórnvöld „hyggist beita sér fyrir frekari lækkun tryggingagjalds á komandi árum“. Að mati Samtaka iðnaðarins er ekkert því til fyrirstöðu að sambærileg lækkun verði einnig lögfest fyrir árin 2017 og 2018 líkt og samkomulag stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins frá janúar síðastliðnum gerir ráð fyrir. Atvinnulífið hefur gert krefjandi kjarasamninga þrjú ár fram í tímann og fyrir liggur að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði mun hækka samkvæmt þeim. Það að lögfesta ekki umsamda lækkun á tryggingagjaldi fyrir næstu ár eykur á óvissu og dregur úr fyrirsjáanleika.  

Að mati samtakanna er tryggingagjaldið þegar of hátt miðað við þau útgjöld sem gjaldið á að standa undir. Því er mikilvægt að gjaldinu verði komið í fyrra horf áður en samningstími rennur út. Önnur ákvæði frumvarpsins miða að því að einfalda skattakerfið og er það í fullu í samræmi við stefnu og áherslur Samtaka iðnaðarins.