Fréttasafn2. jún. 2017 Almennar fréttir Framleiðsla

Landsmenn ánægðir með íslenska framleiðslu

Í nýjustu útgáfu Viðskiptablaðsins er sagt frá nýrri viðhorfskönnun sem Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins og sýnir að viðhorf Íslendinga til innlendra framleiðsluvara og -fyrirtækja er jákvætt. Um 80% af 826 svarendum eru með jákvætt viðhorf. Einnig kemur fram í könnuninni að uppruni og gæði íslenskra vara skipta landsmenn miklu máli.

Vidskiptabladid-1.-juni-2017Samkvæmt könnuninni eru 70% landsmanna sammála þeirri fullyrðingu að þeir velji íslenskar framleiðsluvörur vegna uppruna þeirra. Þá velja 65% landsmanna íslenskar vörur gæðanna vegna. Í fréttinni segir að ljóst sé af þessu að uppruni og gæði vara skipta landsmenn máli. Um 61% landsmanna gæti hugsað sér að vinna hjá íslensku framleiðslufyrirtæki. Þá segjast 48% vera sammála þeirri fullyrðingu að íslensk framleiðslufyrirtæki séu samfélagslega ábyrg og 38% segja íslenskar framleiðsluvörur vera frumlegar. Þó voru tæplega 37% hvorki sammála né ósammála því að fyrirtækin séu samfélagslega ábyrg og yfir helmingur með enga skoðun á því hvort íslenskar vörur séu frumlegar. 

Ánægjulegar niðurstöður

Rætt er við Bryndísi Skúladóttur, sviðsstjóra framleiðslusviðs SI, sem segir niðurstöðurnar ánægjulegar, þó að vissulega sé verk að vinna fyrir samtökin sem og fyrirtækin á ýmsum sviðum. „Okkur finnst mjög ánægjulegt að sjá hversu jákvæðir landsmenn eru gagnvart íslenskum framleiðsluvörum og -fyrirtækjum. Það er einnig ánægjulegt að sjá að uppruni vara og gæði skipta fólki mestu máli og að fólk sé jákvætt þegar kemur að því að hugsa sér að vinna hjá íslensku framleiðslufyrirtæki. Við fórum í þetta til að kalla fram viðhorf almennings til innlendrar framleiðslu, enda er gott fyrir bæði okkur og fyrirtækin að vera meðvituð um viðhorf þeirra. Það sem við sjáum í þessari könnun er þó tækifæri til að upplýsa betur og segja frá kostum íslenskrar vöru og framleiðslu. Við sjáum að það eru fleiri eldri aldurshópar jákvæðir heldur en yngri. Það er því verk að vinna fyrir okkur og fyrirtækin sjálf að höfða til yngra fólks. Niðurstöðurnar gefa einnig vísbendingar um að það þurfi að upplýsa landsmenn betur um öll þau samfélagslegu ábyrgu verkefni sem íslensk framleiðslufyrirtæki taka þátt í og hversu frumlegar íslenskar vörur eru, enda er mikið um vöruþróun og nýsköpun hér innanlands.“

Viðskiptablaðið, 1. júní 2017. Vb.is, 3. júní 2017.