Fréttasafn



14. feb. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Lausnir í loftslagsmálum munu koma frá atvinnulífinu

Kristján Kristjánsson, ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um græna iðnbyltingu í Sprengisandi á Bylgjunni. Sigurður segir að græna iðnbyltingin sem nú standi yfir sé ólík öðrum iðnbyltingum að því leiti til að þar hafa orðið til einhverjar lausnir eða nýjungar sem að voru það byltingarkenndar að þær ruddu öllu öðru úr vegi og fólu í sér miklar efnahagslegar framfarir til langs tíma. „Það var mjög hagkvæmt að fjárfesta í þessum lausnum af því þær juku afköst og annað. Með grænu iðnbyltingunni þá eru það stjórnvöld sem að ýta þessu af stað til að byrja með þannig að lausnirnar eru ekki til. Þær eru til að einhverju leiti en ekki öllu leiti. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnvöld setji markmið sem að þau hafa gert, mjög metnaðarfull markmið en lausnirnar þær munu koma frá iðnaðinum eða atvinnulífinu. Fyrirtækin munu finna bestu lausnirnar.“

Sum fyrirtæki komin langt í að draga úr kolefnislosun

Í þættinum nefnir Kristján nýja greiningu SI þar sem meðal annars kemur fram að það sem stjórnvöld ákveða hafi áhrif á aðgerðir fyrirtækja í loftslagsmálum en Sigurður bendir á að ekki megi gleyma þætti neytenda. „Það hefur verið mikil vitundarvakning síðustu ár og áratugi í þessum málum þannig að viðhorf neytenda og eftirspurnin hefur breyst mikið sem hefur auðvitað áhrif á fyrirtækin líka. Síðan er þetta bara val hjá fyrirtækjum að taka þátt. Valið snýst um það hvenær fyrirtækin fara af stað. Sum eru komin langt. Við erum með dæmi um fyrirtæki sem að eru þegar kolefnishlutlaus, önnur eru að vinna að því hörðum höndum. Við getum nefnt t.d. eins og Össur, stoðtækjaframleiðandann, sem náði því á síðasta ári að verða kolefnishlutlaus.“

Græn iðnbylting elur af sér nýjan iðnað, ný fyrirtæki og nýjar hugmyndir

Sigurður segir að það fyrsta sem fyrirtæki þurfi að gera er að átta sig á sínu fótspori, hver losunin er og leita svo leiða til þess að draga úr henni eins og hægt er. „Þegar ekki er hægt að minnka losunina meira þá er hægt að fara í mótvægisaðgerðir varðandi votlendi, skógrækt eða annað.“ Hann segir að framleiðslan sé smám saman að verða græn. „Við sjáum eins og stóriðjan hefur sett sér markmið um að verða kolefnishlutlaus og hafa náð miklum árangri.“ Hann nefnir dæmi af verkefnum móðurfélaga álvera á Íslandi þar sem unnið sé að því að framleiða ál án losunar.  „Þannig að það er margt í gangi, matvælaiðnaðurinn, byggingariðnaðurinn og svo framvegis. Þannig að fyrirtækin hafa gert mjög mikið í þessum efnum“ Þá nefnir hann tæknilausnir sem eru að verða til, grænar lausnir. „Við sjáum eins og Carbfix sem að gengur út á það að binda kolefni við grjót í jörðinni. Einnig má nefna verkfræðistofurnar á Íslandi hafa komið að bæði hitaveituverkefnum, jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum, í að minnsta kosti fimm heimsálfum. Þessi verkefni hafa dregið úr losun sem nemur fjórum eða fimm sinnum árlegri losun Íslands. Þetta er líka dæmi um það hvernig þessi græna iðnbylting elur af sér nýjan iðnað, ný fyrirtæki, nýjar hugmyndir.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Sprengisandur á Bylgjunni, 13. febrúar 2022.