Fréttasafn



9. maí 2018 Almennar fréttir Menntun

Leggja þarf mun meiri áherslu á kennslu verklegra greina

Það er ljóst að við erum að gera eitthvað rangt á grunnskólastiginu varðandi námsáherslur. Við þurfum að leggja mun meiri áherslu á kennslu verklegra greina allt frá 1. bekk grunnskóla sem gæti skilað iðnmenntuðu fagfólki sem atvinnulífið tekur fagnandi. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag sem ber yfirskriftina Setjum iðnnám í öndvegi. 

Þar kemur einnig fram að gríðarleg eftirspurn sé hér á landi eftir iðnmenntuðu starfsfólki en á sama tíma séum við langt á eftir öðrum þjóðum hvað varðar ásókn í iðnnám. Guðrún segir að þessi þróun hafi verið að eiga sér stað yfir langan tíma og að við höfum leyft okkur að vanrækja iðnnámið en ýta á sama tíma undir bóknám.

Skortir bæði stefnu og sýn

Guðrún spyr í greininni hvernig við ætlum að bregðast við því hæfnimisræmi sem skapast hefur hér á landi milli þarfa atvinnulífsins og hæfni nemenda sem útskrifast en í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, nánar tiltekið í 24. grein, er kveðið á um að jafnvægi skuli vera á milli bók- og verklegs náms innan grunnskólanna. „Þarna virðist víða pottur vera brotinn. Margir verknámskennarar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þekkingarskorts nemenda í verklegum greinum þegar nemendur koma inn í framhaldsskólana. Nýverið mátti lesa viðtal við skólastjóra í Reykjavík sem hefur ákveðið að segja upp stöðu sinni vegna ómarkvissrar stefnu stjórnvalda í menntamálum. Margt af því sem þessi ágæti skólamaður nefnir á því miður við rök að styðjast. Okkur skortir stefnu og okkur skortir sýn.“ 

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.