Fréttasafn



8. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Leiðandi í nýjum, grænum lausnum

Carbon Recycling International, eða CRI, er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem þróaði og innleiðir umhverfisvæna tækni sem breytir koltvísýringi og vetni í hráefni og fljótandi eldsneyti, metanól. „Það má nýta í stað jarðefnaeldsneytis til að knýja bíla, skip og flugvélar eða búa til grænni vörur til daglegra nota,“ segir MARGRÉT ORMSLEV ÁSGEIRSDÓTTIR, aðstoðarforstjóri.  

Framleiðslugetan er 4.000 tonn af metanóli á ári, sem er stórt stökk frá rannsóknarstofunni þar sem getan var aðeins einn lítri á dag.

„Í stóru myndinni er CRI því leiðandi fyrirtæki í nýjum grænum lausnum, sem kallaðar eru einu nafni kolefnisföngun og nýting,“ útskýrir hún. Fyrirtækið spratt út úr einfaldri hugmynd: hvernig er hægt að endurnýta koltvísýring sem losnar frá iðnaði og um leið komist hjá því að grafa eftir meiri kolum, olíu og gasi til að knýja farartæki eða framleiða efnavöru. „Á þeim tíma einblíndu fjárfestar fyrst og fremst á lífeldsneyti. Tækni CRI er mun skalanlegri enda ekki háð sömu takmörkunum á ræktunarlandi og lífmassa. Hún keppir hvorki við fæðuöflun né veldur óæskilegum breytingum á landnotkun, til dæmis þegar regnskógar eru felldir til að rækta pálmatré fyrir lífdísilframleiðslu. Fyrir nokkrum árum var eftirspurn almennra neytenda eftir umhverfisvænum vörum lítil en sú staða er að breytast hratt,“ útskýrir Margrét.

Eina efnaverksmiðjan á Íslandi 

Frumkvöðlarnir fjórir sem stofnuðu fyrirtækið vorið 2006 tengdust í gegnum fjölskyldu - og vinabönd, hinir íslensku Oddur Ingólfsson, prófessor, og Friðrik Jónsson, frumkvöðull, og tveir Bandaríkjamenn, KC Tran og Art Schulenberger. Þeir fjármögnuðu fyrstu rannsóknirnar úr eigin vasa og með framlagi englafjárfesta, en á árunum 2009–2010 öfluðu þeir hlutafjár frá innlendum aðilum til að reisa fyrstu verksmiðjuna, í grennd við orkuverið í Svartsengi. „Þetta var merkileg framkvæmd, fyrsta verksmiðja sinnar tegundar og fyrsta og langflóknasta efnaverksmiðja sem reist hefur verið á Íslandi. Framleiðslugetan er 4.000 tonn af metanóli á ári, sem er stórt stökk frá rannsóknarstofunni þar sem getan var aðeins einn lítri á dag,“ rifjar hún upp. 

Verksmiðjan breytir raforku og koltvísýringi sem fangaður er úr strompi orkuversins í eldsneyti. „Bíll sem keyrir á þessu eldsneyti er þannig knúinn raforku sem umbreytt hefur verið í eldsneyti. Hann veldur engri losun koltvísýrings fremur en rafbíll af því að kolefnið í eldsneytinu hefði ella verið losað út í andrúmsloftið við orkuverið. Ef öll framleiðslugetan væri nýtt innanlands myndi það jafngilda því að 2.500 hreinir rafbílar bættust í bílaflota landsmanna.“ 

Áhugi á lausnum í loftslagsmálum frá öllum heimshornum 

Strax og verksmiðjan tók til starfa hóf fyrirtækið að markaðssetja afurðina innanlands og utan. „Við urðum fyrsta fyrirtækið og hingað til það eina sem hefur selt eldsneyti sem unnið er úr rafmagni með sjálfbærnisvottun. Til þess að varan sé gjaldgeng höfum við víða þurft að fara í viðræður við stjórnvöld og knýja fram breytingar á lögum eða reglugerð, þannig höfum við náð mikilvægum áföngum í sölu - og markaðsstarfi í Hollandi, Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi og víðar.“ 

Þessi starfsemi hefur vakið athygli um allan heim og CRI tekur nú við fyrirspurnum og heimsóknum frá nánast öllum heimshornum vegna þess að lausnir í loftslagsmálum sem hafa verið prófaðar á stórum skala og fyrirtæki með raunhæfa reynslu á markaðnum skortir tilfinnanlega. 

Alþjóðlega hefur CRI verið leiðandi í tækni til kolefnisföngunar og -nýtingar og jafnframt brautryðjandi á sviði framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis sem byggt er á hagnýtingu raforku í stað lífmassa. „Þetta hefur kallað á mikla kynningu og samtal við opinbera aðila á evrópska efnahagssvæðinu, sem við lítum á sem okkar heimamarkað, til þess að tryggja jafnræði í samkeppni við aðra kosti í samgöngum og iðnaði, svo sem lífeldsneyti og rafknúin ökutæki eða koltvísýringsföngun og niðurdælingu. Við erum kölluð til ráðgjafar á þessu sviði hjá stofnunum ESB og eigum í nánu samstarfi við mörg stærstu orkufyrirtæki Evrópu og fyrirtæki í mörgum greinum iðnaðar.“ 

MargretCRI_806A7704

Markaðurinn vex hratt 

Fyrirtækið hefur einnig unnið ötullega að frekari rannsóknum og þróunum, með stuðningi Tækniþróunarsjóðs og ýmissa sjóða Evrópusambandsins. Til dæmis hefur CRI skráð fjölmörg einkaleyfi og reist tilraunaverksmiðjur í Þýskalandi og Svíþjóð með samstarfsaðilum. 

Þá er CRI meðlimur í alþjóðlegum samtökum metanólframleiðenda og hagsmunasamtökum fyrirtækja sem selja lausnir til endurnýtingar á koltvísýringi og hefur verið í leiðandi hlutverki fyrir hönd þessara samtaka í samtali við ESB og aðildarríki EES. „Markaður fyrir endurnýjanlega orkugjafa er að vaxa mjög hratt. Við sjáum framleiðslutækifæri bæði á Íslandi og erlendis. Þannig erum við nú í samstarfi um þróun verksmiðja í Noregi og víðar í Evrópu. Einnig höfum við stofnað dótturfyrirtæki í Kína í samstarfi við einn af hluthöfum CRI, sem er kínverski bílaframleiðandinn Geely, og sú starfsemi hefur þegar borið þann ávöxt að við erum að hanna fyrstu verksmiðjuna í Kína. Fjármögnun hennar er lokið og gert er ráð fyrir að hún muni verða gangsett í byrjun árs 2022.“ 

Til þess að minna á íslenskan uppruna hefur CRI selt metanólið frá verksmiðjunni á Íslandi undir vörumerkinu Vulcanol, sem er skráð og verndað. 

Fyrir nokkrum árum var eftirspurn almennra neytenda eftir umhverfisvænum vörum lítil en sú staða er að breytast hratt.

Reka sig á óskilvirka og dýra ferla 

Margrét segir að almennt hafi verið mikil vakning og aukin athygli á nýsköpun á Íslandi síðustu ár. Stuðningur hins opinbera og fjármögnunarleiðir séu hinsvegar sniðnar að þörfum lítilla fyrirtækja sem þurfa ekki að fjárfesta í öðru en mannauði. „Þegar kemur að verkefnum sem krefjast meira fjármagns, eins og til dæmis að byggja verksmiðjur eða kaupa dýran búnað, er ekki um auðugan garð að gresja. Við höfum einnig rekið okkur á að breytingar á regluverki og leyfisveitingar eru hægfara og taka ekki mið af þeim markmiðum sem sett eru til dæmis í loftslagsmálum. Eftirlitsstofnanir gera einnig miklar kröfur, en skortir reynslu og þekkingu á mörgum sviðum. Sem frumkvöðull á sviði efnavinnslu höfum við oft rekið okkur á óskilvirka ferla sem geta valdið miklum kostnaði fyrir lítil fyrirtæki.“ 

Hún segir lítinn heimamarkað alltaf verða Akkilesarhæl fyrirtækja sem eru í alþjóðlegri samkeppni. „Á þessu sérstaka sviði, það er að segja lausnum í loftslagsmálum er mjög margt sem ríkið getur gert en kýs ekki að gera, eins og að nota opinber innkaup á markvissari hátt, að fylgja betur eftir markmiðum í orkuskiptum í samgöngum í stað þess að treysta eingöngu á markaðsöflin,“ útskýrir Margrét og segir fyrirtæki sitt hafa orðið fyrir vonbrigðum með viðtökur innanlands, sem séu úr takti við reynslu þeirra erlendis frá. „Íslensku eldsneytissalarnir hafa flutt inn erlent lífeldsneyti og treysta á leiðsögn erlenda olíufélaga varðandi allar breytingar. Hér höfum við aðeins skipt út 9% af orku í samgöngum fyrir endurnýjanlega orkugjafa, en Norðmenn og Finnar eru að auka kvaðir á sín fyrirtæki upp í 20%,“ segir Margrét.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_