Fréttasafn



6. sep. 2018 Almennar fréttir

Lítið svigrúm til frekari launahækkana

„Hér hafa laun hækkað langt umfram laun í samkeppnislöndum okkar og samkeppnisstaðan hér hefur versnað sem mér þykir mjög miður. Ef við ætlum að halda störfum þá er því miður lítið svigrúm til frekari launahækkana. Samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hefur versnað umtalsvert í uppsveiflunni. Laun í framleiðsluiðnaði hafa hækkað um 140% frá fyrsta ársfjórðungi 2010 mælt í evrum en til samanburðar hækkuðu laun í þeim hluta iðnaðarins um 20% í ESB ríkjunum á sama tíma. Laun hér á landi hækkuðu mælt í evrum langt umfram það sem gerst hefur í nokkru öðru iðnvæddu ríki á tímabilinu.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í viðtali Þórodds Bjarnasonar, blaðamanns, í ViðskiptaMogganum í dag. Hún segir að því miður hafi verið of margar uppsagnir hjá fyrirtækjum upp á síðkastið sem hryggi hana. Þá segir Guðrún að hún haldi að spár margra um ískaldan og dimman vetur á vinnumarkaði rætist ekki. „Ég er bjartsýn í eðli mínu og verkefnið er að tryggja kaupmáttinn en kaupmáttaraukning hefur verið 25% hér á landi.“ 

Ánægjuleg fjölgun nema í iðnnámi

Þegar Guðrún er spurð um stöðu iðnnáms í landinu segir hún það ánægjulegt að fjölgun sé á nemum í iðnnámi nú í haust, 17% nemenda hafi valið iðnnám en 12% á sama tíma í fyrra. „Þetta er mjög jákvætt og ég vona að þessi þróun haldi áfram. Það þarf að breyta viðhorfi til iðnmenntunar. Við höfum leyft okkur að tala niður iðnmenntun og fólk sem starfar í iðnaði en iðnaður skapar 23% af landsframleiðslu hér eða tæpa 600 milljarða króna. Við verðum að halda þessu og því er það áhyggjuefni ef það verður fækkun starfa vegna versnandi starfsskilyrða fyrirtækja.“

Engin merki um kólnun á byggingarmarkaði

Í viðtalinu kemur fram að Guðrún telur ástandið á húnæðismarkaði óboðlegt og að vandamálið sé til staðar bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi þar sem of lítið af húsnæði sé byggt. Guðrún segist ekki hafa heyrt að á byggingarmarkaði séu neinar sérstakar blikur á lofti, í ljósi þess að farið sé að hökta í ferðaþjónustunni. „Það er enn mikið að gera hjá okkar félagsmönnum. Það er eitthvað farið að bremsa í hótelverkefnum en við sjáum engin mikil merki um kólnun.“ 

ViðskiptaMogginn, 6. september 2018.

Á mbl.is er hægt að lesa viðtalið við Guðrúnu í heild sinni.