Fréttasafn



7. feb. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Lóðaskortur dregur úr framboði nýrra íbúða

„Samkvæmt könnuninni sem fjallað er um í greiningunni dregur lóðaskortur úr framboði nýrra íbúða. Það hefur vantað lóðir fyrir um eitt þúsund íbúðir á ári undanfarin ár. Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur metið það svo að það þurfi um fjögur þúsund nýjar íbúðir á hverju ári á landinu öllu. Reiknað er með að nýjar íbúðir sem eru að koma inn á markaðinn séu um þrjú þúsund í ár en það hefur verið takturinn undanfarin ár,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um nýja könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir SI sem bendir til að fjöldi nýrra íbúða í byggingu verði óbreyttur næstu 12 mánuði. 

Sveitarfélögin þurfa að skipuleggja íbúðabyggð á fleiri lóðum

Þegar Sigurður er spurður hvort sama staða sé hjá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu svarar hann: „Nei, en heilt yfir þurfa sveitarfélögin öll að skipuleggja íbúðabyggð á fleiri lóðum hvort sem þær eru í eigu sveitarfélaganna eða annarra. Keldnaholtið í Reykjavík, Blikastaðir og Lágafellslandið í Mosfellsbæ og Setbergsland í Garðabæ eru dæmi um stærri svæði sem sveitarfélög þurfa að skipuleggja undir íbúðir. Hafnarfjörður er búinn að úthluta öllu sínu landi undir fjölbýli. Kópavogur á ekkert nýtt land til að brjóta undir byggð og þar er einungis hægt að fara í þéttingu. Garðabær og Reykjavík geta aukið lóðaframboð á nýjum svæðum en stefna sveitarstjórna þar er að horfa eingöngu til þéttingarreita. Mosfellsbær á ekkert land til að brjóta undir nýja íbúðabyggð.“ 

Vextir framkvæmdalána enn mjög háir sem dregur úr uppbyggingu

Þá er Sigurður spurður í fréttinni hvaða áhrif vaxtalækkanir munu hafa á uppbyggingu íbúða í ár og á næsta ári, að því gefnu að þær haldi áfram. Hann segir: „Niðurstöður könnunarinnar meðal verktakanna sem eru að byggja í eigin reikning sýna að tæplega 89% stjórnenda segja að hár fjármögnunarkostnaður muni leiða til samdráttar í uppbyggingaráformum fyrirtækjanna. Lækkun vaxta mun draga úr þessum neikvæðu áhrifum. Vaxtalækkanir Seðlabankans undanfarið hafa því verið skref í rétta átt. Eftir stendur að vextir framkvæmdalána eru enn mjög háir. Það dregur úr uppbyggingu íbúða og mun koma niður á framboði nýrra íbúða litið til næstu ára en það tekur um tvö ár að byggja nýja íbúð þegar framkvæmdir fara af stað.“ 

Mikil hækkun gatnagerðargjalda dregur úr uppbyggingu í Reykjavík

Þá segir í fréttinni að Reykjavíkurborg hafi lagt á gatnagerðargjöld og innviðagjöld út frá kostnaðaráætlun á innviðum og er Sigurður spurður hvort tekjurnar hafi skilað sér í betri innviðum í borginni: „Við höfum ekki orðið vör við það, nei,“ Um gatnagerðargjöld, innviðagjöld og byggingarréttargjöld segir Sigurður: „Það sem skiptir máli er samanlögð gatnagerðargjöld og innviða og byggingarréttargjöld. Þau sveitarfélög sem hafa verið með lægri gatnagerðargjöld bæta sér það upp með því að hafa hærri innviðagjöld eða byggingarréttagjöld. Lögbundið hámark þessara gjalda er 15% af viðmiðunarhúsi Hagstofunnar. Hækkunin þýðir að kostnaður við um 85 fermetra íbúð hækkar um 1,5 milljónir króna. Þessi mikla hækkun gatnagerðargjalda dregur úr uppbyggingu nýrra íbúða í Reykjavík. Aðgerðirnar eru svipaðar þeim sem fyrri ríkisstjórn réðst í um mitt ár 2023 þegar hún lækkaði endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á verkstað en niðurstöður könnunarinnar sem fjallað er um í greiningunni sýna skýrt að sú breyting hefur dregið úr uppbyggingu og framboði nýrra íbúða.“

Morgunblaðið / mbl.is, 7. febrúar 2025.

Morgunbladid-07-02-2025


Morgunbladid-07-02-2025_2