Fréttasafn



28. des. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Loforð um lækkun tryggingagjalds verði efnt á nýju ári

Lækkun tryggingagjalds, afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, efling iðnnáms og mótun innviðastefnu eru meðal þess sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, nefnir í svari sínu við spurningu ViðskiptaMoggans um hvaða breytingar hann myndi vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra Samtökum  iðnaðarins. 

Hér fyrir neðan fer svar Sigurður í heild sinni:

„Samtök iðnaðarins leggja áherslu á aukinn og víðtækan stöðugleika sem skilar sér í verðmætasköpun til hagsbóta fyrir íslensk heimili. Lækkun tryggingagjalds í samræmi við loforð stjórnvalda 2016 hlýtur að verða efnt á nýju ári. Hátt tryggingagjald dregur úr afli fyrirtækja til að ráða til sín fleiri starfsmenn. 

Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur vaxtar á 20. öldinni. Ríkisstjórnin hefur í þessu skyni boðað afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. SI vilja sjá slíkt lögfest á vorþingi 2018. 

Breyta þarf menntakerfinu til að búa nemendur undir störf framtíðarinnar. Samtök iðnaðarins hafa lagt til að forritun verði gerð að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum til þess að auka áhuga á tækni og vísindum. Þrátt fyrir allar tækniframfarir má þó ekki gleyma því að alltaf verður þörf fyrir iðnmenntað fólk á vinnumarkaði en talsverður skortur ríkir. Því þarf að efla iðnnám og auka virðingu þess á nýju ári. 

Forgangsraða þarf í þágu innviða. Ný ríkisstjórn þarf að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu innviða – innviðastefnu – enda eykst þá yfirsýn og skilvirkni á þessu sviði. Nýlegar fréttir um 1,2 milljarða aukaframlag til vegaframkvæmda til að stemma stigu við alvarlegum slysum segja sína sögu um ástandið og stórátak þarf til að bæta úr.“

Morgunblaðið, 28. desember 2017.